‚Verið þakklátir‘
1 Í æsku var okkur flestum kennt að „þakka fyrir okkur“ þegar einhver sýndi okkur vinsemd eða góðvild. Páll hvetur okkur til að vera ævinlega ‚þakklát,‘ og við ættum sérstaklega að vera Jehóva þakklát. (Kól. 3:15, 16) En hvernig getum við þakkað okkar mikla skapara? Og hvaða sérstakar ástæður höfum við til að vera honum þakklát?
2 Páll postuli skrifaði: „Guði séu þakkir, sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist!“ (1. Kor. 15:57) Á minningarhátíðinni ár hvert erum við minnt á takmarkalausan kærleika Guðs og Krists er þeir sáu fyrir lausnargjaldinu sem veitir okkur von um eilíft líf. (Jóh. 3:16) Þar eð við höfum næstum öll misst ástvin í dauðann erum við sannarlega þakklát loforði Jesú um upprisuna! Hjörtun eru barmafull af þakklæti þegar við hugsum til þess að eiga í vændum að lifa af endalok heimskerfisins án þess nokkurn tíma að deyja. (Jóh. 11:25, 26) Og það er erfitt að finna orð til að lýsa þakklæti okkar fyrir alla þá stórkostlegu blessun sem við eigum enn eftir að upplifa af hendi Jehóva í hinni komandi jarðnesku paradís. (Opinb. 21:4) Hvaða betri ástæðu getur nokkur haft til að ‚vera Guði þakklátur‘?
3 Hvernig þakka má Guði: Það er alltaf viðeigandi að þakka Jehóva í bæn fyrir gæsku hans. (Sálm. 136:1-3) Við finnum líka hjá okkur hvöt til að sýna honum þakklæti á aðra vegu, til dæmis með því að láta okkur ekki vanta á minningarhátíðina um dauða Krists, sunnudaginn 23. mars. Við ‚tignum Jehóva með eigum okkar‘ með því að leggja fúslega okkar af mörkum til stuðnings söfnuðinum og alþjóðastarfinu. (Orðskv. 3:9) Við styðjum öldungana heilshugar og erum samstarfsfús og sýnum Jehóva þannig þakklæti okkar fyrir hjálpina sem hann veitir fyrir milligöngu þeirra. (1. Þess. 5:12, 13) Á hverjum degi kappkostum við að hegða okkur vel og grandvarlega, nafni Guðs til dýrðar. (1. Pét. 2:12) Jehóva er ánægður með slíkan þakklætisvott af okkar hendi. — 1. Þess. 5:18.
4 Besta leiðin: Ein besta leiðin til að þakka skaparanum af öllu hjarta fyrir allt sem hann hefur gert fyrir okkur er að taka heilshugar þátt í prédikunarstarfi Guðsríkis, heiðra nafn hans, tjá þakklæti okkar í bæn og verja sannleikann dyggilega. Jehóva hefur yndi af því að sjá okkur veita sér heilaga þjónustu og styðja ásetning sinn að „alls konar menn verði hólpnir.“ (1. Tím. 2:3, 4, NW) Þess vegna hafa svona margir boðberar hagrætt málum sínum og svarað kalli Ríkisþjónustu okkar í febrúar um að vera aðstoðarbrautryðjendur í mars, apríl og/eða maí. Aukin viðleitni í boðunarstarfinu er frábær leið til að sýna að við séum Guði þakklát. Getur þú slegist í brautryðjendahópinn í apríl og/eða maí?
5 Við höfum fengið óbrigðula von um að lifa að eilífu. Þegar hún verður að veruleika höfum við enn ríkari ástæðu til að halda áfram að þakka Jehóva glöð í bragði á hverjum degi. — Sálm. 79:13.