Lykill að efnisskrá Varðturnsins
Það var gleðiefni þegar tilkynnt var á landsmótinu „Trúin á orð Guðs“ að nýtt hjálpargagn, Lykill að efnisskrá Varðturnsins 1970-1996, kæmi út nú í ársbyrjun. Um langt árabil hafa kostgæfnir biblíunemendur hér á landi leitað dyrum og dyngjum að því hvort og hvenær greinar hafi komið út á íslensku sem birst hafi í Varðturninum á ensku. Með tilkomu Lykilsins fáum við í hendur gott leitarverkfæri.
Hvernig er Lykillinn úr garði gerður? Lykillinn sýnir hvar greinar í Varðturninum á ensku frá 1970 til 1996 er að finna í íslensku útgáfunni. Gefið er upp blaðsíðutal greinanna í enska Varðturninum og síðan hvar þær er að finna í íslenska blaðinu. Tökum dæmi: Okkur vantar upplýsingar um hvort viðeigandi sé að þiggja bóluefni sem inniheldur albúmín unnið úr mannablóði. Í Efnisskrá Varðturnsfélagsins 1986-1995 undir lykilorðinu „Blood — Bible View“ (Blóð — Viðhorf Biblíunnar) og flettunni „blood fractions“ (blóðhlutar) og „albumin“ (albúmín) er vísað í w94 10/1 31. Ef við flettum upp á þessari grein í Lyklinum (á bls. 43) sjáum við að vísað er í 2.95 31, það er að segja Varðturninn á íslensku 1. febrúar 1995, bls. 31. Þar finnum við spurningu frá lesendum um þetta efni. Aftast í Lyklinum er síðan skrá yfir þá kafla og þau vers þar sem munur er á Nýheimsþýðingunni og íslensku Biblíunni frá 1981.
Lykillinn að efnisskrá Varðturnsins á örugglega eftir að koma að góðum notum á komandi misserum við efnisleit og einkanám og reynast úrvals ‚lykill þekkingarinnar‘ á Guði. — Lúkas 11:52.