Spurningakassinn
◼ Hvers vegna ættum við að gefa klæðnaði okkar og útliti sérstakan gaum þegar við heimsækjum deildarskrifstofur Félagsins hérlendis og erlendis?
Þess er vænst af kristnum mönnum að þeir sýni viðeigandi háttprýði. Klæðnaður okkar og útlit ætti ávallt að endurspegla þá sómatilfinningu og reisn sem hæfir þjónum Jehóva Guðs. Þetta á sérstaklega við þegar við heimsækjum aðalstöðvar Félagsins og deildarskrifstofur þess víða um heim.
Árið 1998 verða haldin umdæmis- og alþjóðamót. Þúsundir bræðra okkar frá mörgum löndum heimsækja þá aðalstöðvar Félagsins í New York og deildarskrifstofur þess í öðrum löndum. Við þurfum við að ‚sýna að við erum þjónar Guðs á allan hátt,‘ meðal annars með viðeigandi klæðnaði og útliti ekki aðeins þegar við heimsækjum þessa staði heldur líka á öðrum tímum. — 2. Kor. 6:3, 4.
Bókin Skipulagðir til að fullna þjónustuna ræðir um mikilvægi viðeigandi klæðnaðar og útlits og bendir á nauðsyn hreinlætis, öfgaleysis í klæðaburði og snyrtingu þegar við tökum þátt í boðunarstarfinu og sækjum kristnar samkomur. Síðan segir á bls. 131, í tölugrein 2: „Það sama gildir þegar farið er í heimsókn til betelheimilisins í Brooklyn eða einhverrar annarrar deildarskrifstofu Félagsins. Munum að nafnið Betel merkir ‚hús Guðs‘ og því ætti klæðnaður okkar, útlit og hegðun að vera svipuð því sem vænst er af okkur þegar við sækjum tilbeiðslusamkomur í ríkissalnum.“ Boðberar Guðsríkis ættu að virða þennan sama háleita staðal þegar þeir fara til að hitta og umgangast betelfjölskylduna og heimsækja deildarskrifstofur Varðturnsfélagsins, hvort sem þeir búa á staðnum eða koma langt að.
Klæðnaður okkar ætti að hafa jákvæð áhrif á það hvaða augum aðrir líta hina sönnu tilbeiðslu á Jehóva. Þess hefur hins vegar orðið vart að sumir bræður og systur hafa tilhneigingu til að klæða sig mjög svo hversdagslega þegar þau heimsækja deildarskrifstofur Varðturnsfélagsins. Slíkur klæðnaður er ekki viðeigandi þegar betelheimilin eru heimsótt. Við viljum að þessu leyti, líkt og á öllum öðrum sviðum kristins lífs okkar, gera allt Guði til dýrðar og fylgja sömu háleitu stöðlum og aðgreina fólk Guðs frá heiminum. (Rómv. 12:2; 1. Kor. 10:31) Það er einnig gott að tala við biblíunemendur okkar og aðra sem ef til vill eru að heimsækja Betel í fyrsta sinn og minna þá á mikilvægi þess að gefa gætur að viðeigandi klæðnaði og snyrtingu.
Þegar þú heimsækir deildarskrifstofur Varðturnsfélagsins skaltu því spyrja þig: ‚Er klæðnaður minn og snyrting látlaus?‘ (Samanber Míka 6:8.) ‚Er ég þeim Guði sem ég dýrka til sóma? Myndi ég trufla eða særa aðra með útliti mínu? Gef ég þeim, sem eru ef til vill í sinni fyrstu heimsókn, gott fordæmi?‘ Megum við ávallt ‚prýða kenningu Guðs frelsara vors í öllum greinum‘ með klæðnaði okkar og snyrtingu. — Tít. 2:10.