Andi Jehóva er með okkur
1 Vottar Jehóva hafa gríðarstórt verkefni. Jesús sagði: „Fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið.“ (Mark. 13:10) Frá mannlegum bæjardyrum séð virðist þetta ómögulegt, en svo er ekki. Voldugasta aflið í alheiminum styður okkur — andi Guðs. — Matt. 19:26.
2 Merki á fyrstu öld: Jesús heimfærði spádóm Jesaja á sjálfan sig og sagði: „Andi [Jehóva] er yfir mér . . . til að flytja . . . gleðilegan boðskap.“ (Lúk. 4:17, 18) Áður en hann steig upp til himna sagði hann postulum sínum að þeir fengju einnig kraft frá heilögum anda til að vitna „til endimarka jarðarinnar.“ Eftir það leiddi heilagur andi Filippus til að prédika fyrir eþíópskum hirðmanni, andinn sendi Pétur til rómversks hundraðshöfðingja, og hann sendi Pál og Barnabas til að prédika fyrir heiðnum þjóðum. Hver hefði haldið að fólk af slíkum uppruna tæki við sannleikanum? En það gerði það. — Post. 1:8; 8:29-38; 10:19, 20, 44-48; 13:2-4, 46-48.
3 Merki nú á dögum: Opinberunarbókin leggur áherslu á þátttöku heilags anda í prédikunarstarfinu nú á tímum með því að segja: „Andinn og brúðurin segja: ‚Kom þú!‘ . . . Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn.“ (Opinb. 22:17) Andinn hefur hvatt brúðarhóp Krists og félaga hans, hina „aðra sauði,“ til að prédika fagnaðarerindið fyrir öllum þjóðum. (Jóh. 10:16) Við ættum að vera djörf í prédikunarstarfinu og hika aldrei við að taka alls konar fólk tali, fullviss um að andi Guðs hjálpi okkur. Árbókin 1998 færir sannfærandi rök fyrir því að andi Guðs haldi áfram að vera með þjónum hans. Líttu á árangurinn! Á síðastliðnum tveim þjónustuárum voru að meðaltali meira en 1000 manns skírðir á dag.
4 Þú mátt vera viss um að andi Guðs haldi áfram að vera með okkur þegar við prédikum boðskapinn um Guðsríki að því marki sem Jehóva vill. Þessi vissa ætti að hvetja okkur og örva til að halda áfram að leggja okkur fram af öllum krafti í hinu lífsnauðsynlega starfi Guðsríkis. — 1. Tím. 4:10.