Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w11 15.12. bls. 22-26
  • Leiðsögn anda Guðs á fyrstu öld og núna

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Leiðsögn anda Guðs á fyrstu öld og núna
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • „Sjá, ég er ambátt Drottins“
  • Heilagur andi hjálpaði Pétri
  • Páll var „fylltur heilögum anda“
  • „Mismunur er á framkvæmdum“
  • Haltu áfram að biðja um heilagan anda
  • ‚Í nafni Heilags anda‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Lifðu í andanum og stattu við vígsluheit þitt
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
  • Heilagur andi — gjöf frá Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Af hverju ættum við að láta anda Guðs leiða okkur?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
w11 15.12. bls. 22-26

Leiðsögn anda Guðs á fyrstu öld og núna

„Öllu þessu kemur eini og sami andinn til leiðar.“ – 1. KOR. 12:11.

1. Um hvað er rætt í þessari námsgrein?

ORÐIÐ hvítasunna kallar fram í hugann merkan atburð sem átti sér stað árið 33. Það var þá sem Guð úthellti heilögum anda yfir fylgjendur Jesú. (Post. 2:1-4) Þessi atburður markaði þáttaskil í samskiptum Guðs við þjóna sína. Í greininni á undan var rætt um hvernig andi Guðs hjálpaði þjónum hans til forna að leysa af hendi flókin og erfið verkefni. En að hvaða leyti starfaði andi Guðs öðruvísi á fyrstu öld en hann hafði gert áður? Og hvernig njóta kristnir menn nú á tímum góðs af starfsemi heilags anda? Við skulum kynna okkur málið.

„Sjá, ég er ambátt Drottins“

2. Hvernig hafði María séð heilagan anda starfa?

2 María var stödd í loftstofunni í Jerúsalem þegar heilögum anda var úthellt. (Post. 1:13, 14) Hún hafði þó séð anda Guðs starfa með undraverðum hætti meira en þrjátíu árum áður þegar Jehóva flutti líf sonar síns frá himnum til jarðar. María varð þá þunguð af völdum heilags anda þótt hún væri enn mey. – Matt. 1:20.

3, 4. Hvaða hugarfar sýndi María og hvernig getum við tekið hana til fyrirmyndar?

3 Af hverju valdi Jehóva Maríu til að fara með þetta einstæða hlutverk? Eftir að engill hafði sagt henni hvað Jehóva vildi að hún gerði svaraði hún: „Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum.“ (Lúk. 1:38) Svar hennar segir mikið um það hvaða mann hún hafði að geyma. Hún var reiðubúin þegar í stað að fara eftir vilja Guðs. Hún spurði ekki engilinn hvað aðrir í bænum myndu halda um hana eða hvaða áhrif þungunin gæti haft á samband hennar við Jósef. Hún sýndi að hún treysti Jehóva í einu og öllu sem sjá má af því að hún kallaði sjálfa sig ambátt Jehóva.

4 Finnst þér stundum skyldur þínar og verkefni í þjónustu Guðs vera yfirþyrmandi? Við ættum öll að spyrja okkur hvort við treystum að Jehóva styðji okkur í samræmi við vilja sinn. Erum við alltaf reiðubúin að gera það sem Jehóva biður okkur um? Við megum vera viss um að hann gefur anda sinn þeim sem treysta honum af öllu hjarta og virða og viðurkenna drottinvald hans. – Post. 5:32.

Heilagur andi hjálpaði Pétri

5. Hvernig hafði Pétur kynnst krafti heilags anda fyrir hvítasunnu árið 33?

5 Pétur postuli hafði, líkt og María, kynnst af eigin raun hvernig heilagur andi starfaði fyrir hvítasunnu árið 33. Jesús hafði gefið postulunum, þar á meðal honum, vald til að reka út illa anda. (Mark. 3:14-16) Ætla má að Pétur hafi notað þetta vald þó að Biblían sé fáorð um það. Þegar Jesús bauð Pétri að ganga á Galíleuvatni gat hann gert það með hjálp heilags anda. (Lestu Matteus 14:25-29.) Ljóst er að Pétur gat unnið ýmis máttarverk í krafti heilags anda. Innan skamms myndi heilagur andi þó starfa með honum og hinum lærisveinunum á annan hátt en áður.

6. Hvað var Pétur fær um að gera með hjálp heilags anda á hvítasunnu árið 33 og eftir það?

6 Pétur og fleiri fengu kraft heilags anda til að tala tungumál þeirra sem voru gestkomandi í Jerúsalem á hvítasunnuhátíðinni árið 33. Pétur steig þá fram og ávarpaði mannfjöldann. (Post. 2:14-36) Hann hafði stundum verið fljótfær og stundum hræddur en nú fékk hann hugrekki til að vitna djarflega þrátt fyrir hótanir og ofsóknir. (Post. 4:18-20, 31) Andi Guðs opinberaði honum vissa hluti. (Post. 5:8, 9) Og hann fékk meira að segja kraft til að reisa trúsystur upp frá dauðum. – Post. 9:40.

7. Hvaða kenningar Jesú skildi Pétur ekki fyrr en hann hlaut andasmurningu?

7 Fyrir þennan tíma hafði Pétur skilið margt af því sem Jesús kenndi. (Matt. 16:16, 17; Jóh. 6:68) En sumt var honum hulið þangað til á hvítasunnu. Til dæmis hafði hann ekki gert sér grein fyrir að Kristur yrði reistur upp frá dauðum á þriðja degi sem andavera, né að ríki hans væri himneskt. (Jóh. 20:6-10; Post. 1:6) Sú hugmynd var Pétri algerlega framandi að menn gætu orðið andaverur og farið með völd í himnesku ríki. Það var ekki fyrr en hann var skírður með heilögum anda og fékk himneska von að hann áttaði sig á því sem Jesús hafði kennt varðandi þessi mál.

8. Hvaða þekking stendur bæði andasmurðum og öðrum sauðum til boða?

8 Eftir að heilögum anda var úthellt yfir lærisveina Jesú fengu þeir skilning á málum sem höfðu verið þeim hulin fram að þeim tíma. Þeim sem skrifuðu Grísku ritningarnar var innblásið að varpa ljósi á stórmerka þætti í fyrirætlun Jehóva og við njótum góðs af því. (Ef. 3:8-11, 18) Bæði andasmurðir og aðrir sauðir geta kynnt sér þessi sömu sannindi og tileinkað sér þau. (Jóh. 10:16) Ertu þakklátur fyrir að heilagur andi skuli gera þér kleift að þekkja orð Guðs og skilja það?

Páll var „fylltur heilögum anda“

9. Hvað gat Páll gert í krafti heilags anda?

9 Sál frá Tarsus, betur þekktur sem Páll postuli, fékk heilagan anda um ári eftir áðurnefnda hvítasunnuhátíð. Andi Guðs starfaði með honum og við njótum góðs af því enn þann dag í dag. Páli var innblásið að skrifa 14 biblíubækur. Með svipuðum hætti og heilagur andi upplýsti Pétur var Páli innblásið að fjalla í bréfum sínum um þá von að menn gætu orðið ódauðlegar og óforgengilegar andaverur á himnum. Í krafti heilags anda læknaði Páll sjúka, rak út illa anda og reisti jafnvel ungan mann upp frá dauðum. En heilagur andi veitti Páli kraft til að gera enn mikilvægari hluti, og þjónar Guðs nú á dögum hljóta anda Guðs í sama tilgangi þótt ekki sé það með undraverðum hætti.

10. Hvaða áhrif hafði heilagur andi á Pál?

10 Páll, sem var „fylltur heilögum anda“, sagði töframanni nokkrum til syndanna. Landstjórinn á Kýpur hlýddi á það sem þeim fór á milli og það hafði djúpstæð áhrif á hann. Hann var „gagntekinn af kenningu Drottins“ og tók við sannleikanum. (Post. 13:8-12) Páll gerði sér grein fyrir að heilagur andi væri mikilvæg hjálp til að tala sannleikann djarfmannlega. (Matt. 10:20) Síðar bað hann söfnuðinn í Efesus að biðja þess að honum yrðu „gefin orð að mæla“. – Ef. 6:18-20.

11. Hvernig leiðbeindi heilagur andi Páli?

11 Þótt heilagur andi gæfi Páli kjark til að tala kom einnig fyrir að hann bannaði honum að tala á vissum stöðum. Á trúboðsferðum sínum fylgdi Páll leiðsögn heilags anda. (Post. 13:2; lestu Postulasöguna 16:6-10.) Jehóva stjórnar enn boðunarstarfinu með anda sínum. Allir hlýðnir þjónar hans reyna, líkt og Páll, að boða sannleikann með hugrekki og af brennandi áhuga. Þó að handleiðsla Guðs sé ekki jafn augljós núna og hún var á dögum Páls þurfum við ekki að efast um að hann beiti heilögum anda sínum til að tryggja að þeir heyri sannleikann sem verðskulda það. – Jóh. 6:44.

„Mismunur er á framkvæmdum“

12-14. Starfar andi Guðs á sama hátt með öllum þjónum hans? Skýrðu svarið.

12 Það er ákaflega hvetjandi fyrir okkur að lesa um það hvernig Jehóva blessaði söfnuð hinna andasmurðu á fyrstu öld. Heilagur andi gaf kristnum mönnum á þeim tíma sérstaka hæfileika eða náðargjafir. Páll skrifaði eftirfarandi um þessar náðargjafir í bréfi til safnaðarins í Korintu: „Mismunur er á náðargjöfum en andinn er hinn sami, mismunur er á þjónustustörfum en Drottinn hinn sami. Mismunur er á framkvæmdum en Guð hinn sami sem öllu kemur til leiðar í öllum.“ (1. Kor. 12:4-6, 11) Heilagur andi getur sem sagt starfað með mismunandi hætti með hverjum og einum í söfnuðinum í ákveðnum tilgangi. Bæði hin „litla hjörð“ og ,aðrir sauðir‘ hafa aðgang að anda Guðs. (Lúk. 12:32; Jóh. 10:16) En hann hefur ekki alltaf sömu áhrif á alla í söfnuðinum.

13 Safnaðaröldungar eru til dæmis skipaðir af heilögum anda. (Post. 20:28) En hinir andasmurðu þjóna ekki allir sem umsjónarmenn í söfnuðinum. Hvaða ályktun eigum við að draga af því? Einfaldlega að andi Guðs vinnur á ólíka vegu með safnaðarmönnum.

14 Andinn, sem veitir hinum andasmurðu vissu fyrir því að þeir séu börn Guðs, er sá hinn sami og Guð notaði til að reisa einkason sinn upp frá dauðum og veita honum ódauðleika á himnum. (Lestu Rómverjabréfið 8:11, 15.) Þetta er sami andinn og Jehóva beitti til að skapa allan alheiminn. (1. Mós. 1:1-3) Þessi heilagi andi gerði Besalel hæfan til að vinna sérhæfð störf við gerð tjaldbúðarinnar, gaf Samsoni afl til að vinna ótrúleg afrek og gerði Pétri kleift að ganga á vatni. Við skulum því ekki rugla því saman að hafa anda Guðs og vera andasmurður. Hið síðarnefnda er bara eitt af mörgum verkum heilags anda. Og það er Jehóva sem ákveður hverjir hljóta andasmurningu.

15. Heldur skírn með heilögum anda áfram um ókominn aldur? Skýrðu svarið.

15 Heilagur andi hefur starfað á ýmsan hátt með trúum þjónum Guðs eins lengi og hann hefur átt sér trúa þjóna. Hann var búinn að starfa þannig í þúsundir ára áður en andasmurning kom til sögunnar. Þessi nýja verkan heilags anda hófst á hvítasunnu árið 33 en hún heldur ekki áfram endalaust. Skírn með heilögum anda tekur enda. Heilagur andi heldur hins vegar áfram að starfa með þjónum Guðs þannig að þeir geti gert vilja hans að eilífu.

16. Hvað gera þjónar Guðs núna undir áhrifum anda hans?

16 Hvað er að gerast á jörðinni núna fyrir atbeina heilags anda Jehóva? Því er svarað í Opinberunarbókinni 22:17. Þar stendur: „Andinn og brúðurin segja: ,Kom þú!‘ Og sá sem heyrir segi: ,Kom þú!‘ Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill fær ókeypis lífsins vatn.“ Undir áhrifum heilags anda bjóða kristnir menn hverjum sem vill að þiggja lífsins vatn. Hinir andasmurðu fara þar með forystu en aðrir sauðir vinna með þeim að því að bjóða lífsins vatn. Báðir hóparnir vinna að þessu verki undir leiðsögn sama heilaga andans. Fólk í báðum hópunum hefur vígst Jehóva og sýnt það með því að skírast „í nafni föður og sonar og heilags anda“. (Matt. 28:19) Og allir leyfa þeir anda Guðs að hafa áhrif á sig þannig að þeir beri ávöxt hans. (Gal. 5:22, 23) Aðrir sauðir þiggja stuðning heilags anda ekki síður en hinir andasmurðu. Með hjálp hans gera þeir sitt ýtrasta til að vera hreinir og heilagir og þóknast þannig Jehóva. – 2. Kor. 7:1; Opinb. 7:9, 14.

Haltu áfram að biðja um heilagan anda

17. Hvernig getum við sýnt að við höfum anda Guðs?

17 Hvort sem þú átt von um að lifa að eilífu á himnum eða á jörð getur Jehóva gefið þér ,kraftinn mikla‘ svo að þú getir verið ráðvandur og hljótir launin. (2. Kor. 4:7) Vera má að fólk geri gys að þér fyrir að boða fagnaðarerindið. Hafðu þá hugfast það sem Pétur skrifaði í fyrra bréfi sínu: „Sæl eruð þið þegar menn smána ykkur vegna nafns Krists. Andi dýrðarinnar, andi Guðs, hvílir þá yfir ykkur.“ – 1. Pét. 4:14.

18, 19. Hvernig hjálpar Jehóva þér með heilögum anda sínum og hvað ætlar þú að gera?

18 Guð gefur þeim heilagan anda sem biðja um hann í einlægni. Hann getur gert þig enn hæfari til starfa og jafnframt aukið löngunina til að gera þitt besta í þjónustu hans. „Það er Guð sem verkar í ykkur bæði að vilja og að framkvæma sér til velþóknunar.“ Ef við þiggjum hjálp heilags anda og höldum fast við orð lífsins ,vinnum við að sáluhjálp okkar með ugg og ótta‘. – Fil. 2:12, 13, 16.

19 Reiddu þig óhikað á anda Guðs og leggðu þig allan fram við hvert það verkefni sem þér er falið. Reyndu þitt ýtrasta til að verða enn færari í þjónustu Jehóva og treystu á stuðning hans. (Jak. 1:5) Hann gefur þér það sem þú þarft til að skilja orð hans, glíma við erfiðleika lífsins og boða fagnaðarerindið. Jesús sagði: „Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða.“ (Lúk. 11:9, 13) Við skulum því halda áfram að biðja um heilagan anda. Biddu Jehóva að hjálpa þér að líkjast trúum þjónum hans, bæði fyrr og nú, sem fylgdu leiðsögn anda hans.

Geturðu svarað?

• Hvaða hugarfar sýndi María og hvernig er það okkur til blessunar að líkja eftir henni?

• Hvernig leiðbeindi andi Guðs Páli postula?

• Hvernig leiðbeinir heilagur andi þjónum Guðs nú á tímum?

[Mynd á bls. 24]

Páll beitti sér gegn áhrifum illra anda með hjálp anda Guðs.

[Mynd á bls. 26]

Allir kristnir menn hafa aðgang að heilögum anda óháð framtíðarvon sinni.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila