Umsjónarmenn sem fara með forystuna — umsjónarmaður í forsæti
1 Það er alvarleg ábyrgð að þjóna sem umsjónarmaður í söfnuðinum. (Post. 20:28; 1. Tím. 3:1) Þetta er fyrsta greinin af nokkrum sem útlista hinar ýmsu skyldur kristinna öldunga svo að við metum öll að verðleikum hið þýðingarmikla starf sem þeir vinna í okkar þágu.
2 Félagið útnefnir umsjónarmann í forsæti til þjónustu í ótilgreindan tíma. Hann samhæfir störf öldunganna til að auðvelda þeim að hugsa vel um skyldur sínar. (Skipulagðir til að fullna þjónustuna, bls. 42) Hvað felur það í sér?
3 Umsjónarmaður í forsæti tekur við pósti til safnaðarins og fær ritaranum strax í hendur til afgreiðslu. Hann leitar eftir tillögum frá öldungunum um mál sem þarf að ræða þegar hann undirbýr öldungafundi og býr síðan til dagskrá. Hann stýrir jafnframt fundum öldunganna. Þegar ákvarðanir eru teknar sér hann til þess að þeim sé framfylgt. Hann hefur umsjón með undirbúningi þjónustusamkomunnar og skipulagningu opinberra fyrirlestra. Hann samþykkir allar tilkynningar til safnaðarins, gefur leyfi fyrir greiðslu allra hefðbundinna rekstrarútgjalda og gengur úr skugga um að reikningshald safnaðarins sé endurskoðað ársfjórðungslega.
4 Umsjónarmaður í forsæti er formaður starfsnefndar safnaðarins og samhæfir störf hennar. Þegar biblíunemandi óskar eftir að verða óskírður boðberi eða óskírður boðberi vill láta skírast, gerir umsjónarmaður í forsæti ráðstafanir til að öldungar haldi fund með viðkomandi. Hann hefur einnig forystuna um að undirbúa farandhirðisheimsóknina til að söfnuðurinn geti notið þessarar sérstöku starfsviku til fulls.
5 Skyldur umsjónarmanns í forsæti eru margar og margvíslegar. Hann á að sinna ábyrgð sinni af ‚kostgæfni‘ og auðmýkt og við getum öll lagt okkar af mörkum með því að vera samvinnufús við öldungana. (Rómv. 12:8) Ef við erum ‚hlýðin‘ og ‚eftirlát‘ þeim sem með forystuna fara geta þeir innt störf sín af hendi af enn meiri gleði. — Hebr. 13:17.