Við þiggjum kennslu Jehóva
1 Undir leiðsögn Jehóva er í gangi alþjóðleg fræðsluáætlun í 233 löndum. Ekkert, sem þessi heimur býður upp á, jafnast á við hana. Jehóva, hinn mikli fræðari okkar, kennir okkur það sem er gagnlegt fyrir okkur núna og menntar okkur jafnframt til eilífs lífs. — Jes. 30:20; 48:17.
2 Skólar þar sem Guð fræðir: Lítum á þá skóla sem eru starfræktir til gagns fyrir fólk Jehóva. Guðveldisskólinn er nú starfræktur í um það bil 87.000 söfnuðum. Hann þjálfar milljónir boðbera Guðsríkis í áhrifaríkri boðun fagnaðarerindisins. Ert þú skráður í skólann? Ert þú einn þeirra þúsunda sem hefur setið hinn tveggja vikna Brautryðjandaskóla? Kannski geta fleiri gerst reglulegir brautryðjendur og sótt skólann núna eftir breytinguna sem gerð var á tímakröfum brautryðjenda. Þjónustuþjálfunarskólinn er tveggja mánaða skóli þar sem kennt er á helstu tungumálum heims, og hann þjálfar ókvænta öldunga og safnaðarþjóna til að axla aukna guðræðislega ábyrgð. Annað veifið fá allir öldungar og safnaðarþjónar sérhæfða kennslu í Ríkisþjónustuskólanum.
3 Í fræðslumiðstöð Varðturnsins í Patterson í New York er veitt sérhæfð, guðræðisleg kennsla í þrem skólum. Biblíuskólinn Gíleað heldur fimm mánaða námskeið þar sem boðberar eru þjálfaðir til trúboðsstarfa erlendis. Meðlimir deildarnefnda um heim allan sækja tveggja mánaða námskeið í skipulagsmálum deildanna. Í maí 1999 hófst í fyrsta sinn tveggja mánaða námskeið fyrir farandumsjónarmenn, að viðstöddum 48 nemendum frá Bandaríkjunum og Kanada. Allir þjónar Jehóva njóta einhvern tíma góðs af þeirri kennslu sem hann veitir í þessum skólum.
4 Hver er tilgangur kennslunnar? Einn meðlimur hins stjórnandi ráðs sagði: „Núverandi fræðsluáætlun okkar er til þess gerð að láta alla þjóna Jehóva alls staðar taka út þann góða þroska sem lýst er í Orðskviðunum 1:1-4.“ Megi Jehóva halda áfram að veita okkur öllum „lærisveina tungu.“ — Jes. 50:4.