Þjónustuþjálfunarskólinn — víðar dyr og verkmiklar
1 Jehóva sagði fyrir munn spámannsins Jeremía: „Ég vil setja hirða yfir þá [fólk mitt], og þeir skulu gæta þeirra, og þeir skulu eigi framar hræðast né skelfast og einskis þeirra skal saknað verða.“ (Jer. 23:4) Þannig hirðastarfi er verið að sinna út um allan heim nú á dögum meðal fólks af öllum þjóðum. Tugir þúsunda safnaðaröldunga taka þátt í þessu starfi. Auk þess hefur fjöldi ungra manna boðið sig fúslega fram í þjónustu Jehóva. (Sálm. 110:3) Þessir auðmjúku bræður eru söfnuðunum mikil blessun. Uppskerustarfið heldur áfram og því er enn þörf fyrir hæfa menn sem bjóða sig fram til þjónustu fyrir bræður sína.
2 Þjónustuþjálfunarskólinn hefur gagnast vel við þjálfun einhleypra öldunga og safnaðarþjóna til aukinna ábyrgðarstarfa. Frá því að skólinn var stofnaður árið 1987 hafa rúmlega 22.000 nemendur frá ríflega 140 löndum fengið þjálfun í 999 bekkjardeildum. Skólinn hefur reynst þessum bræðrum vera „víðar dyr og verkmiklar“. — 1. Kor. 16:9.
3 Markmiðið með skólanum: Markmiðið með Þjónustuþjálfunarskólanum er að þjálfa og undirbúa hæfa menn til að taka á sig ábyrgð hvar sem þörf er. Skólinn gerir þá hæfari til að fara með forystu í boðunarstarfinu, annast hjörðina og sjá um kennslu í söfnuðinum. Sumir nemendur eru útnefndir sem sérbrautryðjendur eftir útskrift úr skólanum eða sem farandhirðar í heimalandi sínu eða erlendis. Aðrir fá það verkefni að þjóna í heimasöfnuði sínum eða þar sem þörfin er meiri innan þess svæðis sem deildarskrifstofan hefur umsjón með.
4 Á námskeiðinu, sem stendur yfir í átta vikur, stunda nemendur ítarlegt biblíunám. Þeir rannsaka rækilega fjöldann allan af kenningum Biblíunnar og einnig ýmislegt sem viðkemur ábyrgðarstörfum hirða safnaðarins. Auk þess fá þeir leiðbeiningar um það hvernig best sé að taka á vandamálum sem upp kunna að koma í lífi kristins manns. Einnig læra þeir hvað Ritningin kennir um umsjónarstörf, skipulagsmál og dómsstörf innan safnaðarins. Þeir hljóta sérstaka þjálfun í ræðuflutningi og fá persónulega ráðgjöf um hvernig þeir geti tekið skjótum framförum í trúnni.
5 Skilyrði fyrir inngöngu: Skiljanlega eru settar strangar kröfur fyrir inngöngu í skólann. Umsækjendur verða að hafa þjónað sem öldungar eða safnaðarþjónar í að minnsta kosti tvö ár samfleytt. Þeir verða að vera einhleypir og á aldrinum 23 til 50 ára. Umsækjendur verða að geta lesið, skrifað og talað reiprennandi það tungumál sem námskeiðið fer fram á. Þeir verða að vera heilsuhraustir og ekki með sérþarfir í mataræði eða öðru. Reglulegir brautryðjendur eru í forgangsröð umsækjenda.
6 Þeir sem bjóða sig fram verða að vera fúsir og hæfir til að þjóna hvar sem þeirra er þörf. Það krefst viðhorfs líkt og Jesaja spámaður sýndi þegar hann bauð sjálfan sig fram til sérstakrar þjónustu og sagði: „Hér er ég, send þú mig!“ (Jes. 6:8) Hann sýndi einnig auðmýkt í öllu lífi sínu. Þeir sem sækja um Þjónustuþjálfunarskólann ættu að gera það vegna þess að þeir bera kærleika til bræðra sinna og hafa löngun til að þjóna þeim en ekki vegna þess að þeir vilja komast til metorða eða fá góða stöðu. Þess er vænst af þeim sem útskrifast að þeir geti notað þá góðu þjálfun, sem þeir hafa hlotið, til að hjálpa öðrum. — Lúk. 12:48.
7 Gagn skólans: Þeir sem útskrifast hafa fengið átta vikna stífa þjálfun og verið ‚nærðir af orði trúarinnar og góðu kenningarinnar‘. (1. Tím. 4:6) Það gerir þá hæfa til að aðstoða og hvetja þá sem eru í söfnuðum eða farandsvæðum þar sem þeir eru sendir til þjónustu. Boðunarstarfið hefur aukist víða á svæðum þar sem útskriftar nemendur úr Þjónustuþjálfunarskólanum hafa verið sendir. Þar hefur verið hvatt til brautryðjandastarfs, sérstaklega meðal hinna yngri og þeir sem eru nýir fá meiri persónulega athygli.
8 Ert þú einhleypur öldungur eða safnaðarþjónn á aldrinum 23 til 50 ára? Hugleiddu þá að sækja um Þjónustuþjálfunarskólann. Ert þú ungur bróðir og veltir fyrir þér langtímamarkmiðum í þjónustu Jehóva? Lifðu einföldu lífi og láttu ekkert trufla þig svo að þú getir gengið inn um „víðar dyr og verkmiklar“. Það getur fært þér mikla gleði og lífsfyllingu. Þjónustuþjálfunarskólinn hefur í raun reynst vera blessun, ekki einungis fyrir þá sem hafa sótt hann, heldur fyrir söfnuði fólks Guðs um allan heim.
[Rammi á blaðsíðu 3]
Þeir höfðu gagn af þjálfuninni
„Þjálfunin hefur svo sannarlega bætt þjónustu mína og hæfni til að sinna hirðastörfum af visku með því að nota Ritninguna.“
„Skólinn hefur veitt mér aukið sjálfstraust þegar ég sinni hinum ýmsu ábyrgðarstörfum í söfnuðinum.“
„Hann hefur breytt lífi mínu á nánast öllum sviðum, einnig skoðunum mínum á guðræðislegu fyrirkomulagi.“
„Þjálfunin, sem ég hlaut, hefur hjálpað mér að sýna fúsleika til að þjóna þar sem þörfin er meiri.“