Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w02 1.2. bls. 29-31
  • Öldungar — þjálfið aðra til að bera byrðina

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Öldungar — þjálfið aðra til að bera byrðina
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2002
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Fylgið fordæmi Jehóva
  • Verið ófeimnir að deila út verkefnum
  • Öldungar, þjálfið aðra!
  • Safnaðarþjónar blessun fólki Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1986
  • Safnaðarþjónar varðveitið gott álit!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1986
  • Hvert er hlutverk safnaðarþjóna?
    Hverjir gera vilja Jehóva?
  • Þjónustuþjálfunarskólinn — víðar dyr og verkmiklar
    Ríkisþjónusta okkar – 2004
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2002
w02 1.2. bls. 29-31

Öldungar — þjálfið aðra til að bera byrðina

ÞAÐ er brýn þörf á karlmönnum til umsjónarstarfa í söfnuðum Votta Jehóva um heim allan. Fyrir því eru einkum þrjár ástæður.

Í fyrsta lagi er Jehóva að uppfylla fyrirheitið um að gera ‚hinn lítilmótlegasta að voldugri þjóð.‘ (Jesaja 60:22) Vegna óverðskuldaðrar gæsku hans hefur næstum ein milljón nýrra lærisveina látið skírast sem vottar Jehóva síðastliðin þrjú ár. Það vantar ábyrga menn til að hjálpa þessum nýskírðu einstaklingum að sækja fram til kristins þroska. — Hebreabréfið 6:1.

Í öðru lagi hafa sumir gamalreyndir öldungar neyðst til að draga úr vinnuálagi í söfnuðinum vegna aldurs eða heilsubrests.

Í þriðja lagi starfa margir kostgæfnir kristnir öldungar í spítalasamskiptanefndum, svæðisbyggingarnefndum eða mótshallanefndum. Til að gæta jafnvægis í skyldum sínum hafa sumir þeirra þurft að afsala sér einhverjum ábyrgðarstörfum í söfnuðinum.

Hvernig er hægt að fullnægja þessari aðkallandi þörf fyrir hæfa menn? Með þjálfun. Biblían hvetur kristna umsjónarmenn til að þjálfa ‚trúa menn sem líka munu færir um að kenna öðrum.‘ (2. Tímóteusarbréf 2:2) Að þjálfa merkir meðal annars að kenna og þroska. Athugum núna hvernig öldungar geta þjálfað aðra hæfa karlmenn.

Fylgið fordæmi Jehóva

Jesús Kristur var vissulega hæfur og fær í starfi sínu, og það er engin furða. Hann fékk þjálfun frá Jehóva Guði sjálfum. Hvað gerði þjálfunina svona árangursríka? Jesús minnist á þrennt í Jóhannesi 5:20: „Faðirinn [1] elskar soninn og [2] sýnir honum allt, sem hann gjörir sjálfur. Hann mun sýna honum [3] meiri verk en þessi.“ Við lærum heilmikið um þjálfun með því að athuga þessa þætti nánar.

Við tökum eftir að Jesús nefnir fyrst að ‚faðirinn elski soninn.‘ Allt frá upphaf sköpunarinnar var innilegt vináttuband milli Jehóva og sonar hans. Orðskviðirnir 8:30 varpa ljósi á þetta samband: „Þá stóð ég [Jesús] honum [Jehóva Guði] við hlið sem verkstýra, og ég var yndi hans dag hvern, leikandi mér fyrir augliti hans alla tíma.“ (Orðskviðirnir 8:30) Jesús var ekki í neinum vafa um að hann var „yndi“ Jehóva. Og hann fór ekki í felur með það hvað það gladdi hann að vinna við hlið föður síns. Hlýlegt og opinskátt samband milli kristinna öldunga og þeirra sem þeir þjálfa er mikils virði.

Þessu næst nefnir Jesús að faðirinn ‚sýni sér allt sem hann gerir sjálfur.‘ Þetta staðfestir það sem fram kemur í Orðskviðunum 8:30 en þar segir að Jesús hafi ‚staðið Jehóva við hlið‘ við sköpun alheimsins. (1. Mósebók 1:26) Öldungar geta fylgt þessu afbragðsgóða fordæmi með því að vinna náið með safnaðarþjónum og sýna þeim hvernig þeir geti sinnt skyldum sínum vel. Nýútnefndir safnaðarþjónar eru hins vegar ekki þeir einu sem þurfa markvissa þjálfun. Hvað um trúfasta bræður sem sóst hafa eftir umsjónarstarfi um árabil án þess að vera útnefndir? (1. Tímóteusarbréf 3:1) Öldungarnir ættu að veita þeim markvissar ráðleggingar svo að þeir viti hvar þeir geti bætt sig.

Tökum dæmi. Safnaðarþjónn er kannski ábyggilegur, stundvís og sinnir skyldum sínum samviskusamlega. Hann er ef til vill góður kennari og lætur margt gott af sér leiða í söfnuðinum. En honum hættir kannski til að vera hranalegur í samskiptum við trúbræður sína án þess að gera sér grein fyrir því. Öldungar þurfa að sýna mildi og ‚hógláta speki.‘ (Jakobsbréfið 3:13) Væri það ekki umhyggjuvottur ef öldungur talaði við safnaðarþjóninn, benti skýrt á vandann, nefndi ákveðin dæmi og kæmi með raunhæfar tillögur til úrbóta? Athugasemdir öldungsins falla trúlega í góðan jarðveg ef ‚mál hans er salti kryddað.‘ (Kólossubréfið 4:6) Safnaðarþjónninn getur auðvitað gert honum auðveldara um vik með því að vera opinn og móttækilegur fyrir ráðleggingunum sem hann fær. — Sálmur 141:5, NW.

Öldungar í sumum söfnuðum veita safnaðarþjónum raunhæfa og stöðuga þjálfun. Þeir taka til dæmis hæfa safnaðarþjóna með sér þegar þeir heimsækja sjúka eða aldraða. Þannig öðlast safnaðarþjónarnir reynslu í hirðastarfi. Safnaðarþjónn getur auðvitað gert margt til að stuðla að andlegum framförum sínum. — Sjá rammagreinina að neðan „Það sem safnaðarþjónar geta gert.“

Hið þriðja, sem gerði þjálfun Jesú svo árangursríka, var að Jehóva þjálfaði hann með framtíðina í huga. Jesús sagði að faðirinn myndi sýna sér „meiri verk en þessi.“ Reynslan, sem Jesús aflaði sér á jörð, þroskaði með honum eiginleika sem hann myndi þurfa á að halda þegar hann gerði verkefnum framtíðarinnar skil. (Hebreabréfið 4:15; 5:8, 9) Svo dæmi sé nefnt verður honum brátt falið hið mikla verk að reisa upp og dæma milljarða látinna manna. — Jóhannes 5:21, 22.

Öldungar ættu að huga að framtíðarþörfum þegar þeir þjálfa safnaðarþjóna. Þótt öldungar og safnaðarþjónar séu nógu margir til að sinna núverandi þörfum er gott að hugsa til þess hvernig staðan verði ef nýr söfnuður er myndaður. Hvað ef nokkrir söfnuðir eru myndaðir? Síðastliðin þrjú ár hafa meira en 6000 nýir söfnuðir bæst við um heim allan. Það þarf stóran öldunga- og þjónahóp til að sinna þeim.

Öldungar, líkið þið eftir fordæmi Jehóva með því byggja upp hlýlegt samband við þá sem þið eruð að þjálfa? Sýnið þið hvernig þeir geta sinnt störfum sínum? Hugsið þið um væntanlegar þarfir? Það hefur mikla blessun í för með sér fyrir marga ef þið líkið eftir því hvernig Jehóva þjálfaði Jesú.

Verið ófeimnir að deila út verkefnum

Hæfir öldungar, sem eru vanir að annast mörg mikilvæg verkefni í einu, geta verið svolítið tregir til að deila ábyrgðinni. Þeir hafa kannski reynt það áður en verið óánægðir með útkomuna. Þeir tileinka sér kannski það viðhorf að best sé að gera hlutina sjálfur ef vanda á til verka. En er þessi afstaða í samræmi við vilja Jehóva, sem fram kemur í Biblíunni, að reynsluminni menn fái þjálfun frá reynslumeiri mönnum? — 2. Tímóteusarbréf 2:2.

Páll postuli varð fyrir vonbrigðum þegar einn ferðafélagi hans, Jóhannes Markús, fór frá verkefni sínu í Pamfýlíu og sneri heim. (Postulasagan 15:38, 39) En Páll lét þetta bakslag ekki aftra sér frá því að þjálfa aðra. Hann valdi annan ungan bróður, Tímóteus að nafni, og þjálfaði hann í trúboðsstarfinu.a (Postulasagan 16:1-3) Þegar trúboðarnir komu til Beroju var andstaðan svo heiftarleg að óráðlegt var fyrir Pál að vera þar áfram. Hann fól því Sílasi, þroskuðum eldri bróður, og Tímóteusi að annast hinn nýmyndaða söfnuð. (Postulasagan 17:13-15) Tímóteus hefur ugglaust lært heilmikið af Sílasi. Síðar var hann tilbúinn að axla meiri ábyrgð og Páll sendi hann þá til Þessaloníku til að uppörva söfnuðinn þar. — 1. Þessaloníkubréf 3:1-3.

Samband Páls og Tímóteusar var ekki kuldalegt eða ópersónulegt. Milli þeirra var hlýlegt vináttuband. Páll kallar Tímóteus ‚elskað og trútt barn sitt í Drottni‘ í bréfi til Korintusafnaðar, en hann hugðist senda hann þangað, og bætir svo við: „Hann mun minna yður á vegu mína í Kristi.“ (1. Korintubréf 4:17) Tímóteus brást vel við tilsögn Páls og lærði að gera verkefnum sínum góð skil. Margir ungir bræður hafa orðið hæfir safnaðarþjónar, öldungar eða jafnvel farandumsjónarmenn vegna þess að þeir nutu góðs af þjálfun umhyggjusamra öldunga sem höfðu ósvikinn áhuga á þeim, eins og Páll á Tímóteusi.

Öldungar, þjálfið aðra!

Það fer ekki á milli mála að spádómurinn í Jesaja 60:22 er að rætast núna. Jehóva er að gera „hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð.“ Til að þjóðin verði ‚voldug‘ áfram þarf góða skipulagningu. Öldungar, hugleiðið hvernig veita má hæfum, vígðum bræðrum viðbótarþjálfun. Gangið úr skugga um að sérhver safnaðarþjónn viti úr hverju hann þurfi að bæta til að taka framförum. Og þið, skírðir bræður, notfærið ykkur þá persónulegu athygli sem þið fáið. Nýtið tækifærin til að auka hæfni ykkar, þekkingu og reynslu. Jehóva blessar örugglega þessa kærleiksríku stuðningsáætlun. — Jesaja 61:5.

[Neðanmáls]

a Páll starfaði aftur með Jóhannesi Markúsi síðar. — Kólossubréfið 4:10.

[Rammagrein á blaðsíðu 30]

Það sem safnaðarþjónar geta gert

Þótt öldungar eigi að þjálfa safnaðarþjóna er margt sem safnaðarþjónar geta gert til að stuðla að andlegum framförum sínum.

— Safnaðarþjónar eiga að vera áreiðanlegir og sinna verkefnum sínum af dugnaði. Þeir ættu líka að tileinka sér góðar námsvenjur. Framför er að töluverðu leyti undir námi komin og að fara eftir því sem lært er.

— Þegar safnaðarþjónn býr sig undir að flytja ræðu á safnaðarsamkomu ætti hann ekki að hika við að leita ráða hjá hæfum öldungi um framsetningu efnisins.

— Safnaðarþjónn getur líka beðið öldung um að fylgjast með þegar hann flytur biblíuræðu og leiðbeina sér um úrbætur.

Safnaðarþjónar ættu að leita eftir, taka við og fylgja ráðleggingum öldunga. Þannig verður ‚framför þeirra öllum augljós.‘ — 1. Tímóteusarbréf 4:15.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila