Hafðu dýrlegt nafn Jehóva í hávegum
1 Satan djöfullinn ófrægði nafn Guðs þegar hann tældi fyrstu foreldra okkar út í synd. Hann ýjaði að því að Jehóva hefði logið að Adam. (1. Mós. 3:1-5) Þar eð nafn Guðs er nátengt hæfni hans til að uppfylla orð sitt voru dylgjur Satans hinn versti rógur. Með því að uppfylla tilgang sinn stig af stigi hefur Jehóva hreinsað nafn sitt af smán og gert það dýrlegt. — Jes. 63:12-14.
2 Við erum fólk sem ‚nafn Jehóva hefur verið nefnt yfir.‘ (Post. 15:14, 17) Það gefur okkur tækifæri til að sýna hvað okkur finnst um helgun þess. Nafn Jehóva er einkar dýrlegt í augum okkar af því að það stendur fyrir allt sem er gott, ljúfmannlegt, elskuríkt, miskunnsamt og réttlátt. Við fyllumst lotningu yfir mikilfengleik hins dýrlega nafns Guðs. (Sálm. 8:2; 99:3; 148:13) Hvað ætti það að koma okkur til að gera?
3 Helgaðu nafn Guðs: Það er ekki hægt að gera nafn Guðs heilagara en það er. En við getum sýnt með hreinlífi okkar og prédikun fagnaðarerindisins að við höfum nafn Guðs mjög í hávegum. Við skulum kalla hástöfum: „Lofið [Jehóva], ákallið nafn hans. Gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna, hafið í minnum, að háleitt er nafn hans.“ (Jes. 12:4) Hvernig getum við gert það?
4 Við getum nýtt hvert tækifæri til að kunngera nafn Jehóva og allt sem það stendur fyrir. Prédikun okkar heiðrar Jehóva, hvort sem hún er formleg eða óformleg, hús úr húsi eða búð úr búð, á götum úti eða í síma. Þegar við finnum áhugasama eigum við að gera ákveðnar ráðstafanir til að fara aftur og kenna þeim meira um Jehóva. Við verðum síðan að standa við slík stefnumót og gefast ekki upp við að koma af stað heimabiblíunámskeiðum. Á hverju ári læra hundruð þúsunda manna að þekkja, virða og helga dýrlegt nafn Jehóva, og er það mikið fagnaðarefni.
5 Heilshugar þátttaka okkar í því starfi að helga nafn Guðs sýnir greinlega hvar við stöndum í deilumálinu sem Satan vakti upp í Eden. Þetta er göfugasta og virðingarverðasta starfið sem við getum tekið þátt í. Við skulum hafa dýrlegt nafn Jehóva í hávegum og lofa það kostgæfilega. — 1. Kron. 29:13.