Spurningakassinn
◼ Hverjir bera ábyrgð á að þrífa ríkissalinn?
Hreinn og aðlaðandi ríkissalur er boðskapnum, sem við prédikum, til framdráttar. (Samanber 1. Pétursbréf 2:12.) Það er nauðsynlegt að halda ríkissalnum snyrtilegum og allir geta lagt sitt af mörkum til þess. Það á ekki allt saman að lenda á fáeinum bræðrum. Þrifin eru yfirleitt skipulögð á vegum bóknámshópanna í söfnuðunum, og bóknámsstjórinn eða aðstoðarmaður hans sjá um það. Þar sem fleiri en einn söfnuður nota sama sal skipuleggja öldungarnir málin svo að allir söfnuðirnir deili þrifunum með sér.
Hvernig má sinna þessari ábyrgð sem best? Þrífa skal ríkissalinn samkvæmt reglulegri áætlun. Hreingerningarefni og -áhöld eiga að vera til staðar. Hengja ætti upp verklýsingu sem bræður og systur geta farið eftir. Gera mætti tvær verklýsingar, aðra yfir létt þrif eftir hverja samkomu og hina yfir rækilegri, vikuleg þrif. Bóknámsstjórinn ætti að skipuleggja rækilegu þrifin á tíma sem hentar öllum sem falið er að annast þau. Huga þarf reglulega að grasflötum, beðum og limgerðum, og fjarlægja skal rusl af gangstéttum og bílastæðum. Gera ætti stórhreingerningu á hverju ári, ef til vill rétt fyrir minningarhátíðina. Þá væri til dæmis hægt að hreinsa teppi og gluggatjöld, þvo glugga og strjúka af veggjum.
Við getum auðvitað öll létt undir með því að skilja ekki eftir tyggigúmmí eða rusl í ríkissalnum eða utan við hann og með því að ganga snyrtilega um salerni svo að þar sé hreint fyrir næsta mann. Gættu þess að brjóta ekki tæki eða skemma innréttingar. Fylgstu með hvort blettir hafa komið í teppi, krani lekur, stólar hafa skemmst, ljósaperur sprungið og svo framvegis, og láttu bróðurinn í rekstrarnefnd safnaðarins vita.
Við skulum öll vera fús til að leggja okkar af mörkum. Það tryggir að tilbeiðslustaðurinn sé notalegur og aðgreinir okkur sem hreint fólk er heiðrar Jehóva Guð. — 1. Pét. 1:16.