Hugleiddu orð Jehóva á hverjum degi!
1 Trú þín er reynd á hverjum degi. Veraldlegur kunningi þrýstir kannski á þig að eiga stefnumót við sig, kennarinn vill að þú sækist eftir veraldlegum frama eða vinnuveitandinn að þú vinnir lengur. Heilsu þinni er kannski farið að hraka. Enda þótt slíkar prófraunir geti mætt þér hvenær sem er stendur þú ekki einn. Jehóva er fús að veita þér þá visku sem þarf til að takast á við þær. Að fara yfir dagstextann í Rannsökum daglega ritningarnar er ein leið til að næra hugann reglulega á orði Jehóva. Notfærirðu þér þessa ráðstöfun?
2 Hjálpin er til staðar: Jesaja 30:20 kallar Jehóva ‚þann sem kennir þér‘ og fólk hans getur leitað hjálpar hjá. Hann getur veitt þér nákvæmlega það sem þú þarfnast til að standast trúarprófraunir. Hvernig? Næsta vers segir: „Eyru þín munu heyra þessi orð kölluð á eftir þér . . . : ‚Hér er vegurinn! Farið hann!‘“ Jehóva miðlar ‚orði‘ sínu í Ritningunni og ritum ‚hins trúa þjóns.‘ (Matt. 24:45) Eldri Varðturnsgreinar eru mikill viskubrunnur og koma nánast inn á öll svið kristilegs lífs. Með því að fara yfir greinar, sem Rannsökum daglega ritningarnar vitnar í, geturðu byggt upp þekkingarsjóð sem kemur að ómetanlegu gagni við að takast á við alls konar prófraunir. — Jes. 48:17.
3 Taktu frá tíma til þess: Enda þótt móðir nokkur ætti annríkt á morgnana gerði hún sér far um að lesa og ræða dagstextann við son sinn meðan hann borðaði morgunverðinn. Dagstextinn ásamt bæn var það síðasta sem hann heyrði á hverjum morgni áður en hann fór í skóla. Það veitti honum styrk til að standast siðlausar umleitanir annarra, standa einarður gegn þjóðernishyggju og vitna djarflega fyrir skólasystkinum og kennurum. Enda þótt hann væri eini votturinn í skólanum fannst honum hann aldrei standa einn.
4 Leitaðu til Jehóva og orðs hans eftir leiðbeiningum og leiðsögn. Ef þú gerir það verður hann þér raunverulegur, eins og traustur vinur. Snúðu þér til hans á hverjum degi! Megi „augu þín líta“ hinn mikla fræðara þinn er þú íhugar orð hans daglega ásamt milljónum annarra um heim allan.