Spurningakassinn
◼ Hver ætti að fara með bæn á safnaðarsamkomum?
Bæn í söfnuðinum er þýðingarmikill þáttur tilbeiðslunnar. Það eru dýrmæt sérréttindi og jafnframt mikil ábyrgð að fara með bæn fyrir annarra hönd. Öldungar þurfa því að sýna góða dómgreind er þeir ákveða hvaða bræður séu hæfir til að fara með bæn á samkomum. Það eiga að vera skírðir og þroskaðir bræður sem söfnuðurinn virðir og eru til fyrirmyndar. Lotningarfullar og viðeigandi bænir þeirra ættu að bera vitni um gott samband við Jehóva Guð. Greinin „Praying Before Others With a Humble Heart“ í Varðturninum á ensku 15. maí 1986 bendir á mikilvægar frumreglur sem er einkar gagnlegt fyrir bræður að íhuga sem fara með bæn fyrir hönd safnaðarins.
Öldungarnir myndu ekki láta bróður flytja bæn sem hefur orð á sér fyrir vafasama breytni eða alvöruleysi. Ekki heldur bróður sem er afundinn eða fyrtinn eða hefur tilhneigingu til að nota opinbera bæn til að viðra ágreiningsmál sín. (1. Tím. 2:8) Þótt unglingsbróðir sé skírður þurfa öldungarnir engu að síður að ganga úr skugga um að hann hafi þann andlega þroska sem þarf til að biðja fyrir hönd safnaðarins. — Postulasagan 16:1, 2.
Stundum getur skírð systir þurft að fara með bæn í samansöfnun fyrir boðunarstarfið ef enginn hæfur bróðir er viðstaddur til að biðja fyrir hönd hópsins. Hún þarf þá að bera viðeigandi höfuðfat. Ef líklegt er að enginn hæfur bróðir sæki ákveðna samansöfnun geta öldungarnir falið systur að taka forystuna.
Venja er að kynnir á opinberu samkomunni fari með inngangsbænina. Á öðrum safnaðarsamkomum getur hins vegar einhver annar hæfur bróðir farið með inngangs- eða lokabæn en sá sem byrjar samkomuna eða sér um síðasta dagskrárliðinn. Sá sem beðinn er að fara með bæn á safnaðarsamkomu ætti að fá vitneskju um það fyrir fram svo að hann geti leitt hugann að því sem hann ætlar að segja og flutt viðeigandi og einlæga bæn.
Slík bæn þarf ekki að vera löng. Þegar bróðir biður opinberlega fyrir annarra hönd skilst hann yfirleitt betur ef hann stendur upp og talar hátt og skýrt. Þá heyra allir viðstaddir bænina og geta sagt „amen!“ að henni lokinni. — 1. Kron. 16:36; 1. Kor. 14:16.