‚Leggjum á okkur erfiði‘ í apríl
1 Fólk Jehóva hefur margt að hugleiða vikurnar fyrir og eftir minningarhátíð. Þetta er tími til að íhuga hverju dauði Krists kom til leiðar og ígrunda vonina sem úthellt blóð hans veitir okkur. Hvað kemur upp í hugann þegar þú hugsar aftur til 19. apríl á síðasta ári? Manstu eftir andlitunum þetta vorkvöld, andrúmsloftinu á minningarhátíðinni, hinni alvöruþrungnu biblíuræðu og innilegu bænum? Kannski einsettirðu þér að sýna enn betur þakklæti þitt fyrir kærleika Jehóva og Jesú í þinn garð. Hvaða áhrif hafa slíkar hugleiðingar á þig núna?
2 Ljóst er að fólk Jehóva er ekki aðeins þakklátt í orði kveðnu. (Kól. 3:15, 17) Við lögðum okkur vel fram í boðunarstarfinu í apríl síðastliðnum og sýndum að við kunnum að meta hjálpræðisráðstafanir Jehóva. Aðstoðarbrautryðjendur voru 22 samanborið við 17 árið áður og boðberar stjórnuðu 168 biblíunámskeiðum sem er 22% aukning milli ára. Starfið jókst enn meir þegar leið fram á haustið. Í október var heildarstarfstíminn 5572 klukkustundir sem er 24% aukning milli ára, og 43 voru í brautryðjandastarfi í mánuðinum samanborið við 29 árið áður.
3 Við höfum örugga von sem knýr okkur til verka eins og Páll postuli skrifar: „Þess vegna leggjum vér á oss erfiði og þreytum stríð, því að vér höfum fest von vora á lifanda Guði, sem er frelsari allra manna, einkum trúaðra.“ — 1. Tím. 4:10.
4 Hvernig ætlarðu að láta trú þína á lífsráðstafanir Jehóva í ljós um minningarhátíðarleytið? Í apríl síðastliðnum voru boðberar hér á landi 306. Getum við bætt um betur í apríl næstkomandi? Við höfum alla burði til þess ef allir leggja sig fram, jafnt skírðir boðberar sem óskírðir. Margir nýir gætu auk þess tekið þátt í boðunarstarfinu. Búðu þig undir að leggja á þig erfiði núna í apríl og íhugaðu hvernig þú getir fengið bæði nýja og reynsluminni boðbera með þér út í boðunarstarfið.
5 Að hjálpa óreglulegum og óvirkum: Ef þú veist um einhverja, sem hafa ekki farið út í boðunarstarfið í einn eða tvo mánuði, gætirðu kannski hvatt þá til dáða og boðið þeim samstarf. Öldungarnir munu gera sérstakt átak til að heimsækja óvirka boðbera í söfnuðinum og hvetja þá til að starfa á ný í apríl.
6 Við þurfum öll að halda áfram að biðja Jehóva um anda hans til að styrkja okkur í starfinu. (Lúk. 11:13) Hvað þurfum við að gera til að fá anda hans? Við þurfum að lesa innblásið orð hans. (2. Tím. 3:16, 17) Við þurfum líka að ‚heyra hvað andinn segir söfnuðunum‘ með því að sækja allar samkomurnar fimm í hverri viku. (Opinb. 3:6) Núna er hentugur tími til að hjálpa óreglulegum og óvirkum að bæta námsvenjur sínar og hvetja þá til að sækja samkomur að staðaldri. (Sálm. 50:23) Við þurfum líka að huga vel að andlegu heilbrigði sjálfra okkar. En meira þarf til.
7 Pétur postuli bendir á að Guð gefi þeim heilagan anda „er honum hlýða.“ (Post. 5:32) Það felur meðal annars í sér að hlýða boðinu um að „prédika fyrir lýðnum og vitna.“ (Post. 1:8; 10:42) Við þurfum vissulega á andanum að halda til að styrkja okkur í prédikunarstarfinu, en ef við sýnum að við viljum þóknast Jehóva hjálpar hann okkur enn meir. Gerum aldrei lítið úr þessum grunnþáttum hlýðninnar, að biðja um styrk anda Guðs og leggja okkur fram í samræmi við það.
8 Að hjálpa börnunum: Foreldrar, sjáið þið merki þess að börn ykkar vilji ræða við aðra um sannleikann? Fara þau með ykkur í boðunarstarfið? Eru þau til fyrirmyndar í hegðun? Hikið þá ekki við að ræða við einhvern í starfsnefnd safnaðarins til að athuga hvort barnið geti orðið boðberi í apríl. (Sjá bókina Organized To Accomplish Our Ministry, bls. 99-100.) Börnin geta lagt sitt af mörkum til að lofsyngja Jehóva um minningarhátíðartímann. — Matt. 21:15, 16.
9 Systir nokkur í Georgíu í Bandaríkjunum hvatti dóttur sína oft til að tala við aðra um Jehóva. Þegar dóttirin var með henni í starfinu í fyrra lét hún mann fá Kröfubækling og fór stuttlega yfir efnisyfirlitið. Hann spurði hana hve gömul hún væri og hún sagðist vera sjö ára. Hann var hissa á því hvað hún gat kynnt efnið vel. Það vildi svo til að hann hafði kynnst sannleikanum í æsku en aldrei tekið afstöðu með honum. Fljótlega var biblíunámskeiði komið á hjá manninum, konu hans og dóttur.
10 Mörg börn eru boðberar nú þegar og við njótum þess að starfa með þeim úti á akrinum. Þau geta hvatt jafnaldra sína til að slást í hópinn. Apríl er einnig góður tími fyrir fjölskyldur til að styrkja böndin og byggja upp andlegt hugarfar með því að taka sameiginlega þátt í hinni heilögu þjónustu. Fjölskyldufeður ættu að taka forystuna í þeim efnum. — Orðskv. 24:27.
11 Að hjálpa nýjum: Hvað um nýja sem eru í biblíunámi hjá þér? Gætu þeir lagt eitthvað af mörkum til starfsátaksins í apríl? Gaf nemandi þinn kannski til kynna að hann langaði til að segja öðrum frá því sem hann er að læra þegar þið fóruð yfir 22. grein í 2. kafla Þekkingarbókarinnar eða 14. grein í 11. kafla? Ef þú ert um það bil að ljúka bókinni skaltu búa þig undir að ræða málin hreinskilnislega við hann þegar þú ferð yfir 8. grein í 18. kafla, en þar segir: „Líklega vilt þú ákafur segja ættingjum þínum, vinum og öðrum frá því sem þú ert að læra. Vera má að þú sért þegar farinn að gera það, alveg eins og Jesús sagði öðrum frá fagnaðarerindinu við óformlegar aðstæður. (Lúkas 10:38, 39; Jóhannes 4:6-15) Núna langar þig kannski til að gera meira.“ Er nemandanum þannig innanbrjósts?
12 Trúir nemandinn orði Guðs? Hefur hann tileinkað sér meginreglur Biblíunnar? Hefur hann samlagað líf sitt kröfum Guðs? Hefur hann sótt safnaðarsamkomur? Vill hann þjóna Jehóva Guði? Hvettu hann þá til að ræða við öldungana svo að þeir geti athugað hvort hann sé hæfur til að verða óskírður boðberi og geti starfað með þér í apríl. (Sjá bókina Organized To Accomplish Our Ministry, bls 97-9.) Með þessu móti byrjar hann að kynnast af eigin raun hvernig skipulagið styður viðleitni hans til að þjóna Jehóva.
13 Nemendur taka mishröðum framförum. Í samræmi við leiðbeiningarnar í Ríkisþjónustu okkar í júní 2000, bls. 4, gr. 5-6, hafa margir boðberar farið yfir aðra námsbók með áhugasömum sem hafa þurft meiri aðstoð við að tileinka sér sannleikann. Við gefum aldrei upp vonina um að þetta hjartahreina fólk verði sannir lærisveinar Krists, „hvort sem lengur dregst eða skemur.“ (Post. 26:29) Ef þú hefur haft slíkan nemanda í námi í ‚langan‘ tíma gæti minningarhátíðartímabilið verið kjörið tækifæri fyrir hann til að byrja að sýna hve mikils hann metur lausnarfórn Krists.
14 Hjálpaðu þeim í boðunarstarfinu: Margt má læra í sambandi við að hjálpa nýjum í boðunarstarfinu með því að skoða hvernig Jesús þjálfaði aðra. Hann benti ekki bara á mannþröng og sagði postulunum að byrja að prédika heldur lagði fyrst áherslu á nauðsyn boðunarstarfsins, hvatti þá til að vera bænrækna og lét þeim síðan þrennt í té: starfsfélaga, starfssvæði og boðskap. (Matt. 9:35-38; 10:5-7; Mark. 6:7; Lúk. 9:2, 6) Þú getur gert slíkt hið sama, hvort sem þú ert að hjálpa barni þínu, nýjum nemanda eða einhverjum sem hefur ekki skilað starfsskýrslu um tíma. Leitastu sérstaklega við að ná eftirfarandi markmiðum:
15 Ítrekaðu þörfina: Minntu nemandann á mikilvægi prédikunarstarfsins. Vertu jákvæður í bragði. Segðu frásögur til að sýna fram á hverju söfnuðurinn er að áorka í boðunarstarfinu. Líktu eftir hugarfari Jesú í Matteusi 9:36-38. Hvettu hinn væntanlega boðbera eða hinn óvirka til að gera þátttöku sína í boðunarstarfinu að bænarefni og til að biðja fyrir velgengi starfsins um heim allan.
16 Hvettu boðberann til að nota öll tækifæri til að bera vitni: Minnstu á samansöfnun bóknámshópsins fyrir boðunarstarfið hús úr húsi. Hvettu hann til að ræða við ættingja og kunningja, eða við vinnufélaga og skólafélaga í matarhléum. Hægt er að koma af stað samræðum í almenningsfarartækjum með því einu að sýna farþegum persónulegan áhuga. Ef við tökum frumkvæðið getum við oft skapað okkur svigrúm til að bera vitni. Okkur bjóðast mörg tækifæri „dag eftir dag“ til að koma von okkar á framfæri við aðra. — Sálm. 96:2, 3.
17 Heppilegast væri þó að þú starfaðir með nýja boðberanum hús úr húsi við fyrsta tækifæri. Biddu svæðisþjóninn um hentugt starfssvæði ef þú hefur í hyggju að auka starfið í apríl. Þá gefst þér tækifæri til að fara rækilega yfir það. Þegar þú ert til dæmis að ljúka starfinu einhvern daginn eða átt leið hjá á öðrum tíma og sérð að einhver er heima þar sem þér hefur ekki tekist að hitta neinn eða þar sem áhugi var fyrir hendi, þá gætirðu gripið tækifærið og bankað upp á. Slík árvekni stuðlar að árangri og gleði í boðunarstarfinu.
18 Undirbúðu áhugaverða kynningu: Það er eitt að langa til að koma guðsríkisboðskapnum á framfæri við aðra og annað að hafa sjálfstraust til þess, einkum ef maður er nýr eða hefur ekki farið í boðunarstarfið í langan tíma. Tímanum er vel varið með því að hjálpa nýjum og óvirkum að búa sig undir boðunarstafið. Við fáum gagnlegar tillögur á þjónustusamkomum og samkomum fyrir boðunarstarfið en það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir persónulegan undirbúning.
19 Hvernig geturðu hjálpað nýjum að búa sig undir starfið? Byrjaðu á stuttri og einfaldri blaðakynningu. Biddu þá að hugsa um atburði líðandi stundar sem snerta fólk á starfssvæðinu, og bentu síðan á hliðstætt efni í einu blaðanna. Æfið kynninguna saman og notið hana fljótlega í boðunarstarfinu.
20 Nýtum vaxtarmöguleikana: Aðsóknin á minningarhátíðina í fyrra var yfir 14,8 milljónir um heim allan. Boðberatalan var rétt rúmlega sex milljónir. Þetta þýðir að um það bil 8,8 milljónir manna höfðu nægan áhuga til að sækja þessa sérstöku hátíð og hlýða á ræðu um eina af meginkenningum Biblíunnar. Þeir kynntust sumum okkar persónulega og það hefur líklega haft góð áhrif á þá. Margir þeirra fara lofsamlegum orðum um okkur, gefa framlög til alþjóðastarfsins og taka upp hanskann fyrir okkur. Þessi stóri hópur býður upp á mikla vaxtarmöguleika í framtíðinni. Hvað getum við gert til að hjálpa þessu fólki að taka meiri framförum?
21 Meirihluti þeirra sem sækja minningarhátíðina í fyrsta sinn eru boðsgestir. Þetta þýðir yfirleitt að þeir þekkja að minnsta kosti einn viðstaddra. Þiggi einhver boð frá okkur um að koma á minningarhátíðina er það í verkahring okkar að bjóða hann velkominn og hjálpa honum að hafa fullt gagn af dagskránni. Aðstoðaðu hann við að finna sæti þar eð salurinn verður þéttsetinn. Lánaðu honum biblíu og leyfðu honum að fylgjast með í söngbókinni þinni. Svaraðu spurningum hans. Hlýleg umhyggja þín getur átt stóran þátt í að glæða áhuga hans. Við höfum auðvitað öll ábyrgð að axla — ef við sjáum ókunnuga skulum við bjóða þá innilega velkomna og ræða stuttlega við þá til að kynnast þeim.
22 Það getur haft mikil áhrif á fólk að sækja minningarhátíðina og verið vísbending um að það hafi enn ekki fundið það sem það er að leita að og sé að kanna hvort það sé að finna hjá okkur. Útskýringin á hinni stórkostlegu lausnargjaldsráðstöfun getur verið mikil opinberun fyrir þann sem hefur engan skilning á takmarkalausum kærleika Jehóva. Hann sér kannski strax að við erum öðruvísi en aðrir — einlæg, vingjarnleg, kærleiksrík og kurteis. Ríkissalurinn líkist ekki því sem hann hefur kannski séð í kirkjum þar sem líkneski og innihaldslausir helgisiðir eru í fyrirrúmi. Nýir taka örugglega eftir því að fólk af öllum stigum þjóðfélagsins er meðal áheyrenda og að engin samskot fara fram. Þetta getur verið sterk hvatning til að koma aftur.
23 Eftir minningarhátíðina þarf að vera vakandi fyrir því að sinna öllum nýjum gestum. Ef þú bauðst nýjum að koma hefur þú sérstaka ábyrgð í þessu sambandi. Áður en þeir fara skaltu ganga úr skugga um að þeir viti hvenær aðrar samkomur eru haldnar í ríkissalnum. Nefndu hvað næsti opinberi fyrirlestur heitir. Segðu þeim hvaða bóknámsstaður er í námunda við heimili þeirra og hvenær bóknámið fer fram. Láttu þá seinna fá eintak af Skaparabókinni og bentu á að farið verði yfir efnið „Hvað getur bók kennt okkur um skaparann?“ í vikunni sem hefst 30. apríl. Bjóddu þeim jafnframt á svæðismótið helgina 28.-29. apríl í Íþróttahúsinu Digranesi.
24 Mæltu þér mót til að heimsækja þá. Sjáðu til þess að þeir eigi Kröfubæklinginn og Þekkingarbókina svo að þeir geti kynnst grundvallarkenningum Biblíunnar. Bjóddu þeim biblíunámskeið ef þeir eru ekki í biblíunámi þegar. Hvettu þá til að lesa bæklinginn Sameinaðir í að gera vilja Guðs til að fá skýra mynd af skipulaginu og til að horfa á myndbönd Félagsins, svo sem Our Whole Association of Brothers (Bræðrafélag okkar). Kynntu þá fyrir öðrum í söfnuðinum. Vertu í sambandi við þá á komandi mánuðum. Bjóddu þeim að koma þegar farandhirðirinn heimsækir söfnuðinn, á landsmótið í sumar og sérstaka mótsdaginn í haust. Gefðu þeim tækifæri til að sýna að þeir ‚hneigjast til eilífs lífs.‘ — Post. 13:48, NW.
25 Þáttur öldunganna: Velgengni starfsátaksins í apríl er að miklu leyti undir öldungunum komið. Bóknámsstjórar eru hvattir til að taka saman lista yfir það sem þeir geta gert til að hjálpa öllum í bóknámshópnum til að leggja sitt af mörkum. Eru börn og unglingar í hópnum, nýir boðberar, óreglulegir eða óvirkir? Athugaðu hvort foreldrar, brautryðjendur eða aðrir boðberar hafi átt frumkvæði að því að hjálpa þeim. Veitið sjálfir þá aðstoð sem þið getið. Systir nokkur, sem hafði verið óreglulegur boðberi í tvö ár, varði meira en 50 klukkutímum til boðunarstarfsins í apríl síðastliðnum. Hvað gerði gæfumuninn? Uppbyggjandi hirðisheimsóknir öldunganna, að hennar sögn.
26 Öldungar og safnaðarþjónar eiga að vinna saman til að tryggja að nægilegt starfssvæði sé fyrir hendi í apríl og nóg af blöðum, bæklingum og bókum. Væri hægt að fjölga samkomum fyrir boðunarstarfið? Ef svo er þarf að láta söfnuðinn vita af því. Biðjið Jehóva umfram allt að blessa starfsátak mánaðarins, bæði í einkabænum ykkar og í bænum fyrir hönd safnaðarins. — Rómv. 15:30, 31; 2. Þess. 3:1.
27 Öldungarnir í söfnuði einum í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum ráku öflugan áróður fyrir auknu boðunarstarfi í apríl síðastliðnum. Á samkomunum í hverri viku hvöttu þeir boðberana til að hugleiða í bænarhug hvort þeir gætu gerst aðstoðarbrautryðjendur. Allur öldunga- og þjónahópurinn talaði óspart um að gera apríl að besta mánuðinum til þessa. Árangurinn var sá að 58% boðbera, meðal annars allir öldungarnir og safnaðarþjónarnir, tóku þátt í brautryðjandastarfi í mánuðinum.
28 Heilshugar þátttaka er gleðigjafi: Hvaða blessun er því samfara að ‚leggja á sig erfiði‘ í boðunarstarfinu? (1. Tím. 4:10) Öldungarnir í áðurnefndum söfnuði sögðu eftirfarandi um kostgæfni safnaðarmanna í apríl síðastliðnum: „Bræður og systur minnast oft á það hvað þau finna fyrir miklu nánara sambandi og meiri kærleika sín á milli síðan þau fóru að starfa meira á akrinum.“
29 Hreyfihamlaðan ungan bróður langaði mjög til að eiga þátt í starfsátakinu í apríl síðastliðnum. Með vandlegum undirbúningi og dyggri aðstoð móður sinnar og andlegra bræðra átti hann ánægjulegan mánuð í aðstoðarbrautryðjandastarfinu. Hvernig var honum innanbrjósts? „Mér leið í fyrsta sinn á ævinni eins og heilsteyptum manni,“ segir hann.
30 Það leikur enginn vafi á því að Jehóva blessar ríkulega þá sem meta mikils að mega tala um konungdóm hans. (Sálm. 145:11, 12) Okkur er ljóst nú, er við minnumst dauða Drottins, að laun guðrækninnar verða enn meiri í framtíðinni. Páll postuli þráði heitt að hreppa eilífa lífið en vissi að hann gat ekki bara setið með hendur í skauti og vonað. Hann skrifaði: „Að þessu strita ég og stríði með þeim mætti, sem kröftuglega verkar í mér.“ (Kól. 1:29) Jehóva styrkti Pál fyrir atbeina Jesú til að vinna mikið björgunarstarf og hann getur styrkt okkur líka. Verður það reynsla þín í apríl?
[Rammi á blaðsíðu 3]
Hvern getur þú hvatt til að prédika í apríl?
Barnið þitt?
Biblíunemanda?
Einhvern sem hefur orðið óvirkur?