‚Flytjum Guðs orð óskorað‘
1 Við sýnum gjarnan þakklæti fyrir góða gjöf, bæði í orði og verki. Páll postuli sagði um gæsku og góðvild Jehóva í garð mannkyns: „Þökk sé Guði fyrir sína óumræðilegu gjöf!“ Hvað er fólgið í þessari „gjöf“? Öll ‚yfirgnæfanleg náð Guðs‘ við okkur, ekki síst lausnargjaldið sem sonur hans greiddi fyrir syndir okkar. — 2. Kor. 9:14, 15; Jóh. 3:16.
2 Birtist þakklæti Páls aðeins í orðum? Alls ekki. Hann sýndi á marga vegu hve innilega þakklátur hann var. Honum var mjög umhugað um andlega velferð trúbræðra sinna og vildi gera það sem hann gat til að hjálpa þeim að njóta ástúðlegrar umhyggju Guðs til fulls. Hann sagði: „Slíkt kærleiksþel bárum vér til yðar, að vér vildum glaðir gefa yður ekki einungis fagnaðarerindi Guðs, heldur og vort eigið líf því að þér voruð orðnir oss ástfólgnir.“ (1. Þess. 2:8) Auk þess að hjálpa safnaðarmönnum að tryggja hjálpræði sitt vann Páll þrotlaust að boðun fagnaðarerindisins og ferðaðist þúsundir kílómetra landleiðis og sjóleiðis í leit að þeim „sem hneigðust til eilífs lífs.“ (Post. 13:48, NW) Hann mat mjög mikils allt sem Jehóva hafði gert fyrir hann og það kom honum til „að flytja Guðs orð óskorað.“ — Kól. 1:25.
3 Ætti ekki þakklæti fyrir allt sem Jehóva hefur gert að vera okkur hvöt til að veita hjálparþurfi safnaðarmönnum andlega aðstoð? (Gal. 6:10) Og ættum við ekki að finna okkur knúin til að eiga eins mikinn þátt og mögulegt er í boðun fagnaðarerindisins á starfssvæðinu? — Matt. 24:14.
4 Tækifæri til að sýna þakklæti: Á minningarhátíðinni um dauða Krists ár hvert fáum við sérstakt tækifæri til að sýna þakklæti fyrir það sem Jehóva og Jesús hafa gert fyrir okkur. Minningarhátíðin er ekki eins og hver önnur samkoma og er ekki aðeins haldin til að minnast atburðar. Jesús sagði: „Gjörið þetta í mína minningu.“ (Lúk. 22:19) Á hátíðinni er tækifæri til að hugleiða hvers konar maður Jesús var. Hún er tækifæri til að viðurkenna að hann er lifandi og starfandi og hefur þá dýrð og konungstign sem hann hlaut fyrir trúfesti sína og fórn. Á hátíðinni gefst einnig tækifæri til að sýna undirgefni okkar við forystu Krists sem stýrir málum og starfi kristna safnaðarins. (Kól. 1:17-20) Allt fólk Guðs ætti að sýna þá virðingu að vera viðstatt minningarhátíðina um dauða Krists. Í ár fer hún fram fimmtudaginn 28. mars, eftir sólsetur.
5 Í fyrra lögðu boðberar sig kappsamlega fram við að bjóða fólki á minningarhátíðina og 534 sóttu hana hér á landi. Aðsóknarmet var árið 1997 þegar hátíðargestir voru 624. Aðsóknin í ár er að miklu leyti undir því komin að við „leggjum á oss erfiði“ og hjálpum eins mörgum að koma og við getum. — 1. Tím. 4:10.
6 Auk þess að vera viðstödd kvöldmáltíð Drottins höfum við kannski tök á að gera meira í boðunarstarfinu. Búast má við að tugir bræðra og systra verði aðstoðarbrautryðjendur í einn mánuð eða fleiri. Undanfarin fimm ár hafa að jafnaði 49 boðberar tekið þátt í aðstoðarbrautryðjandastarfinu um minningarhátíðarleytið, frá mars til maí. Geturðu skapað þér svigrúm til að vera aðstoðarbrautryðjandi í ár? Það væri afbragðsleið til að tjá þakklæti þitt fyrir lausnarfórn Krists sem Guð hefur séð fyrir af kærleika sínum. Þú getur reitt þig á blessun Jehóva eins og eftirfarandi dæmi sýnir.
7 Systir í fullri vinnu sagði í bréfi frá reynslu sinni af aðstoðarbrautryðjandastarfinu í mars síðastliðnum: „Ríkisþjónusta okkar fyrir febrúar 2001 hvatti alla, sem tök höfðu á, til að gerast aðstoðarbrautryðjendur um minningarhátíðarleytið. Í mars voru fimm laugardagar sem féll vel að stundaskrá minni þannig að ég sótti um.“ Í mánaðarbyrjun setti hún sér það markmið að reyna að koma af stað heimabiblíunámskeiði. Tókst henni það? Já, á 52. starfstíma sínum í mánuðinum! Hún segir að lokum: „Við hljótum mikla blessun þegar við leggjum okkur sérstaklega fram.“
8 Hvernig njóta fjölskyldur góðs af því ef allir eru aðstoðarbrautryðjendur saman? Fjögurra manna fjölskylda var það í apríl síðastliðnum og átti eftirminnilegan mánuð. Móðirin segir: „Við vorum mjög jákvæð alla daga af því að við vorum sameinuð í þjónustunni. Matmálstímar voru einkar skemmtilegir af því að við ræddum þá saman um atburði dagsins. Sonurinn segir: „Ég hafði gaman af því að fara með pabba út í starfið á virkum dögum en þá er hann alla jafna í vinnunni.“ Faðirinn bætir við: „Það veitti mér ánægju, sem höfuð fjölskyldunnar, að vita að við tókum sameiginlega þátt í þýðingarmesta starfi okkar tíma.“ Geta allir í fjölskyldu þinni verið aðstoðarbrautryðjendur saman? Hví ekki að ræða málin og athuga hvort allir á heimilinu geti verið aðstoðarbrautryðjendur á komandi minningarhátíðartímabili?
9 Verður mars besti mánuðurinn til þessa? Í fyrra var mikið um að vera um minningarhátíðarleytið og mikill eldmóður hjá safnaðarboðberum gagnvart því að auka andlegt starf sitt. Ef allir leggja sig fram getum við bætt um betur í ár og gert mars 2002 að ‚besta mánuðinum til þessa.‘ En hvers vegna mars?
10 Það eru tvær ástæður fyrir því að mars ætti að vera sérstakur starfsmánuður. Í fyrsta lagi er minningarhátíðin í lok mars þannig að við höfum fjölmörg tækifæri fyrr í mánuðinum til að bjóða eins mörgum að koma og mögulegt er. Í öðru lagi eru fimm heilar helgar í mars að þessu sinni en það ætti að auðvelda þeim sem eru í vinnu eða skóla að gerast aðstoðarbrautryðjendur. Hví ekki að setjast niður og útbúa heppilega stundaskrá með hjálp dagatalsins í viðaukanum? Aðstoðarbrautryðjandastarf er kannski ekki eins erfitt og þú heldur. Með því að áætla til dæmis 8 tíma til boðunarstarfs hverja helgi í mars þarf aðeins að starfa 10 tíma samanlagt aðra daga mánaðarins til að ná 50 klukkustunda markinu sem til er ætlast.
11 Hvað geta öldungarnir gert til að hjálpa öllum safnaðarmönnum að „flytja Guðs orð óskorað“? Þeir geta vakið eldmóð þeirra í einkasamtölum og með kennslu sinni á samkomum. Bóknámsstjórar og aðstoðarmenn þeirra geta átt frumkvæðið að því að ræða við alla í hópnum sínum og bjóða fram persónulega aðstoð. Fáein hvatningarorð eða uppástungur er kannski allt sem til þarf. (Orðskv. 25:11) Margir eiga eftir að sjá sér fært að gerast aðstoðarbrautryðjendur með því að gera smávægilegar breytingar á stundaskrá sinni. Í mörgum söfnuðum hafa flestir, jafnvel allir, öldungar og safnaðarþjónar og eiginkonur þeirra verið öðrum gott fordæmi og verið aðstoðarbrautryðjendur um minningarhátíðarleytið. Það hefur hvatt fjölda boðbera til að slást í hóp með þeim. Sumir boðberar eru kannski ekki í aðstöðu til að vera brautryðjendur vegna veikinda eða annarra aðstæðna en það má hvetja þá til að sýna þakklæti sitt með því að gera eins mikið og þeir geta í boðunarstarfinu ásamt öðrum safnaðarmönnum.
12 Öldungarnir þurfa að skipuleggja málin vandlega til að allt heppnist vel. Finna þarf hentugan tíma fyrir samansafnanir vikunnar og ef hægt er ætti starfshirðirinn að vera búinn að fela hæfum bræðrum að stjórna þeim öllum. Góður undirbúningur er nauðsynlegur til að samansöfnun standi ekki lengur en 10 til 15 mínútur, og þá er innifalið að skipuleggja samstarf, úthluta starfssvæði og fara með bæn. (Sjá spurningakassann í Ríkisþjónustu okkar í september 2001.) Gera þarf söfnuðinum skýra grein fyrir starfsáætlun mánaðarins og setja hana á tilkynningatöfluna.
13 Starfssvæði þarf að vera nóg. Starfshirðirinn ætti að funda með svæðisþjóninum og gera ráðstafanir til að starfa á svæðum sem sjaldan er farið yfir. Leggja ætti áherslu á að hitta þá sem hafa ekki verið heima, fara í götustarf, fyrirtækjastarf og kvöldstarf. Þar sem við á má hjálpa sumum boðberum við símaboðun.
14 Hjálpið þeim að þjóna á ný: Eru einhverjir á safnaðarsvæðinu hættir að taka þátt í boðun fagnaðarerindisins? Þeir tilheyra enn þá söfnuðinum og eru hjálparþurfi. (Sálm. 119:176) Endir þessa gamla heims er mjög nærri og nýi heimurinn rétt framundan. Við höfum því ærna ástæðu til að leggja okkur heilshugar fram við að hjálpa óvirkum. (Rómv. 13:11, 12) Síðustu fjögur ár hefur 16 óvirkum boðberum verið hjálpað hér á landi og þeir hafa tekið að boða fagnaðarerindið á ný. Hvað er hægt að gera til að hjálpa enn fleirum að vekja aftur upp kærleikann og traustið sem þeir höfðu í upphafi? — Hebr. 3:12-14.
15 Öldungaráðið þarf að ræða hvernig það geti hjálpað þeim sem hafa orðið óvirkir undanfarin ár. (Matt. 18:12-14) Ritarinn ætti að fara yfir boðberakortin og skrá hjá sér nöfn allra hinna óvirku. Gera ætti sérstakt átak í hirðastarfinu til að veita þeim aðstoð. Öldungur gæti heimsótt ákveðinn boðbera, sem hann þekkir og hefur umgengist, eða leitað liðsinnis annarra boðbera, til dæmis þeirra sem leiddu hinn óvirka til skírnar og myndu fegnir vilja rétta honum hjálparhönd. Vonandi eiga margir hinna óvirku eftir að finna hjá sér hvöt til að flytja Guðs orð á ný. Séu þeir hæfir til er ekki hægt að hugsa sér betri tíma til að byrja aftur en um minningarhátíðarleytið. — Nánari upplýsingar er finna í spurningakassanum í Ríkisþjónustu okkar í nóvember 2000.
16 Eru aðrir hæfir til að prédika? Jehóva heldur áfram að blessa fólk sitt með því að safna saman ‚gersemum þjóðanna.‘ (Hagg. 2:7) Á hverju ári verða þúsundir manna hæfar til að gerast óskírðir boðberar — bæði vottabörn og framsæknir biblíunemendur. Hvernig sést að manneskja er hæf til að verða boðberi fagnaðarerindisins?
17 Börn votta Jehóva: Mörg börn hafa fylgt foreldrum sínum hús úr húsi um árabil en eru enn ekki boðberar. Marsmánuður er upplagður tími til að byrja. Hvernig veistu hvort barnið þitt er undir það búið? Organized to Accomplish Our Ministry (Þjónustubókin) segir á bls. 100 að barn sé hæft þegar það ‚sé til fyrirmyndar í hegðun og geti tjáð trú sína með því að tala við aðra um fagnaðarerindið, og finnur hvöt til þess í hjarta sér.‘ Ef þú heldur að barnið þitt uppfylli skilyrðin skaltu tala við einn af öldungunum í starfsnefnd safnaðarins.
18 Hæfir biblíunemendur: Þegar biblíunemandi hefur viðað að sér þekkingu og sótt samkomur um tíma vill hann kannski gerast boðberi. Ef þú stjórnar námskeiðinu skaltu íhuga þessar spurningar: Tekur hann framförum í samræmi við aldur og hæfni? Er hann byrjaður að segja öðrum frá trú sinni óformlega? Er hann að íklæðast ‚hinum nýja manni‘? (Kól. 3:10) Uppfyllir hann hæfniskröfurnar til óskírðra boðbera á bls. 97-9 í Þjónustubókinni? Ef svo er skaltu hafa samband við starfsnefnd safnaðarins svo að skipuleggja megi fund með þér, nemandanum og tveim öldungum. Uppfylli nemandinn kröfurnar tilkynna öldungarnir tveir honum að hann megi byrja að starfa meðal almennings.
19 Hvað um apríl og maí? Þetta verða einnig sérstakir mánuðir og tilvalið að auka þátttöku sína í boðunarstarfinu. Margir, sem eru aðstoðarbrautryðjendur í mars, geta kannski verið það aftur í apríl og/eða maí. Í apríl og maí verða Varðturninn og Vaknið! aðaltilboðsritin í boðunarstarfinu. Þau hafa haft mjög góð áhrif á líf þeirra sem lesa þau og átt stóran þátt í aukningunni um heim allan. Í apríl og maí leggjum við okkur sérstaklega fram um að bjóða eins mörgum og hægt er blöðin. Búðu þig núna undir að eiga ríkulegan þátt í því.
20 Þarftu að auka blaðapöntun þína í söfnuðinum fyrst áformað er að auka boðunarstarfið? Varðturninn og Vaknið! eru boðin á blaðastarfsdögum, alla laugardaga allt þjónustuárið um kring. Þar eð margir ætla sér að verða aðstoðarbrautryðjendur og blöðin verða boðin í tvo mánuði samfleytt er ekki ólíklegt að þú þurfir að auka blaðapöntun þína. Ef svo er skaltu láta blaðaþjóninn vita sem fyrst. Og bókaþjónar ættu að gæta þess að nóg sé til af smáritinu Langar þig að vita meira um Biblíuna?
21 Margir hafa látið í ljós þakklæti vegna rammagreinanna „Hvað geturðu sagt um blöðin?“ í Ríkisþjónustu okkar. Hefurðu notfært þér þær og lært þessar einföldu blaðakynningar? Hví ekki að nota smátíma í fjölskyldunáminu vikulega til að æfa þær?
22 Notið minningarhátíðartímabilið til hins ýtrasta: Sýnum Jehóva hve mikils við metum ‚óumræðilega gjöf hans,‘ líkt og Páll postuli, með því að eiga fullan þátt í hinu andlega starfi sem ráðgert er að vinna um minningarhátíðarleytið, meðal annars með því að (1) vera viðstödd mikilvægasta atburð ársins, kvöldmáltíð Drottins, fimmtudaginn 28. mars 2002, (2) hjálpa óvirkum að glæða ‚sinn fyrri kærleika‘ (Opinb. 2:4; Rómv. 12:11), (3) aðstoða börn okkar og hæfa biblíunemendur við að gerast óskírðir boðberar og (4) eiga eins mikinn þátt í boðunarstarfinu og við getum og jafnvel gerast aðstoðarbrautryðjendur í mars og mánuðina á eftir. — 2. Tím. 4:5.
23 Það er einlæg bæn okkar að við öll eigum ríkulegan þátt í boðun fagnaðarerindisins um Guðsríki núna um minningarhátíðarleytið, og sýnum þannig hve mikils við metum allt sem Jehóva hefur gert fyrir okkur.
[Rammi á blaðsíðu 6]
Starfsáætlun mín í mars 2002
Sunnudagur Mánudagur Þriðjudagur Miðvikudagur Fimmtudagur Föstudagur Laugardagur
1 2
Blaðastarfsdagur
3 4 5 6 7 8 9
Blaðastarfsdagur
10 11 12 13 14 15 16
Blaðastarfsdagur
17 18 19 20 21 22 23
Blaðastarfsdagur
24 25 26 27 28 29 30
MINNINGARHÁTÍÐ Blaðastarfsdagur
31 EFTIR SÓLSETUR
Geturðu varið 50 tímum til aðstoðarbrautryðjandastarfs í mars?