Segjum öðrum frá fagnaðarerindinu
1. Hvaða gleðitíðindi getum við miðlað öðrum?
1 Í heimi þar sem góðar fréttir heyrast sjaldan hefur okkur verið falið að segja öðrum frá „fagnaðarerindinu um Guðs náð“. (Post. 20:24) Það felur í sér að láta fólk vita að hinir ‚síðustu dagar‘ taki senn enda og víki fyrir réttlátum nýjum heimi þar sem „hið fyrra [verður] farið“. (2. Tím. 3:1-5; Opinb. 21:4) Þá heyra sjúkdómar sögunni til. (Jes. 33:24) Látnir ástvinir munu rísa upp úr gröfunum og sameinast fjölskyldum sínum og vinum. (Jóh. 5:28, 29) Öll jörðin verður gerð að dásamlegri paradís. (Jes. 65:21-23) Þetta eru aðeins nokkur dæmi um þau gleðitíðindi sem við getum miðlað öðrum.
2. Hvers vegna er tíminn í kringum minningarhátíðina kjörinn til að boða fagnaðarerindið?
2 Í mars, apríl og maí höfum við kjörið tækifæri til þess að boða fagnaðarerindið. Í mörgum heimshlutum hlýnar í veðri á þessum tíma ársins og daginn tekur að lengja. Þess vegna er upplagt að verja meiri tíma í boðunarstarfinu. Auk þess er mikilvægasta hátíð ársins, minningarhátíðin, haldin um allan heim eftir sólsetur laugardaginn 22. mars. Núna er tímabært að gera ráðstafanir til að geta farið meira í boðunarstarfið.
3. Hvað getur gert fjölskyldum kleift að taka meiri þátt í boðunarstarfinu?
3 Aðstoðarbrautryðjandastarf: Geturðu skipulagt þig þannig að þú getir verið aðstoðarbrautryðjandi einn, tvo eða jafnvel alla þrjá mánuðina? Væri hægt að ræða um þetta í næsta fjölskyldunámi? Með góðri samvinnu gæti kannski einn eða fleiri úr fjölskyldunni verið aðstoðarbrautryðjandi. (Orðskv. 15:22) Gerðu þetta að bænarefni og þá mun Jehóva blessa viðleitni þína. (Orðskv. 16:3) Jafnvel þótt enginn í fjölskyldunni geti verið aðstoðarbrautryðjandi geta samt allir reynt að taka meiri þátt í boðunarstarfinu og starfað með aðstoðarbrautryðjendum.
4. Hvernig geta aðstoðarbrautryðjendur nýtt tímann vel ef þeir vinna fulla vinnu?
4 Ef þú vinnur fulla vinnu getur góð stundaskrá gert þér kleift að vera aðstoðarbrautryðjandi. Þú getur ef til vill notað hluta úr hádegishléinu til þess að boða fagnaðarerindið eða fengið starfssvæði nálægt heimili þínu eða vinnustað og starfað í klukkutíma eða svo fyrir eða eftir vinnu. Þú gætir skapað þér aukinn tíma með því að láta lítilvægari hluti bíða til næsta mánaðar og starfað vel um helgar. Sumir hafa getað tekið einn eða tvo frídaga til að sinna boðunarstarfinu.
5. Hvaða aðstoð getum við boðið öldruðum og heilsulitlum svo að þeir geti verið aðstoðarbrautryðjendur?
5 Ef þú ert kominn á efri ár, ert heilsulítill eða hefur litla starfsorku gætirðu ef til vill verið aðstoðarbrautryðjandi með því að starfa örlítið á hverjum degi. Biddu Jehóva um að gefa þér „ofurmagn kraftarins“. (2. Kor. 4:7) Systir nokkur gat tekið þátt í aðstoðarbrautryðjandastarfinu þegar hún var 106 ára gömul. Með aðstoð ættingja í trúnni og annarra í söfnuðinum fór hún hús úr húsi, í endurheimsóknir, til biblíunemenda og tók auk þess þátt í öðrum greinum boðunarstarfsins. Hún hjálpaði til við að stofna tíu biblíunámskeið. Hún segir: „Þegar ég leiði hugann að þeirri blessun að hafa fengið að þjóna sem aðstoðarbrautryðjandi finn ég til mikils þakklætis og kærleika í garð Jehóva, sonar hans og safnaðarins. Mig langar til að segja: ‚Þakka þér fyrir, Jehóva.‘“
6. Hvernig geta skírðir unglingar verið aðstoðarbrautryðjendur þótt þeir séu enn þá í skóla?
6 Ef þú ert skírður unglingur og enn þá í skóla gætirðu einnig sótt um aðstoðarbrautryðjandastarfið. Þú munt líklega gera eins og þeir sem vinna fulla vinnu og nýta helgarnar vel til að starfa. Kannski geturðu líka starfað í klukkutíma eftir skóla suma daga. Geturðu notað skólafrí til að taka þátt í boðunarstarfinu? Ef þig langar til að vera aðstoðarbrautryðjandi skaltu tala við forelda þína um það.
7. Hvað geta öldungarnir gert til að glæða áhuga safnaðarins á boðunarstarfinu þegar dregur að minningarhátíðinni?
7 Glæðið áhugann: Öldungarnir geta glætt áhuga safnaðarins á boðunarstarfinu með fordæmi sínu. (1. Pét. 5:2, 3) Þeir gætu til dæmis bætt við samansöfnunum fyrir þá sem fara í starfið snemma morguns, eftir skóla eða eftir vinnu. Starfshirðirinn ætti að sjá til þess að reyndir boðberar stjórni þessum samansöfnunum og að til sé nóg starfssvæði. Einnig ætti hann að ganga úr skugga um að nóg sé til af blöðum og ritum fyrir mánuðina í kringum minningarhátíðina.
8. Hvað lærum við af reynslu eins safnaðar?
8 Í einum söfnuði byrjuðu öldungarnir að hvetja til aðstoðarbrautryðjandastarfs nokkrum mánuðum fyrir minningarhátíðina. Þeir létu söfnuðinn vita í hverri viku hve margar umsóknir fyrir aðstoðarbrautryðjandastarf hefðu verið samþykktar. Þetta hafði þau áhrif að þeir sem höfðu hug á því að starfa meira vissu að þeir myndu fá góðan stuðning. Bætt var við samansöfnunum snemma á morgnana og á kvöldin. Árangurinn var sá að 53 boðberar voru aðstoðarbrautryðjendur í apríl, næstum því helmingur safnaðarins.
9. Hvers vegna er tilvalið að verða boðberi í kringum minningarhátíðina ef maður er hæfur til þess?
9 Hjálpaðu öðrum að prédika: Þegar biblíunemendur og unga fólkið í söfnuðinum verða hæf til að byrja að boða fagnaðarerindið mætti bjóða þeim að starfa með reyndum boðberum. Mánuðirnir fyrir og eftir minningarhátíðina gætu gefið gott tækifæri til þess því að þá nota margir í söfnuðinum meiri tíma í starfinu. Ert þú með framsækinn biblíunemanda sem hefur fært líf sitt í samræmi við réttlátar siðferðiskröfur Jehóva? Áttu börn sem hegða sér vel og taka góðum framförum en eru ekki orðin boðberar? Ef þessir einstaklingar hafa látið í ljós að þá langi til að verða óskírðir boðberar og þú álítur þá hæfa til þess skaltu láta einn af öldungunum vita. Öldungur í forsæti mun fá tvo öldunga til að ræða við þig og barnið þitt eða biblíunemanda um þetta mál.
10. Hvað geta öldungar gert til að aðstoða þá sem eru óvirkir?
10 Komandi mánuðir eru einnig frábær tími fyrir óvirka til að byrja aftur að starfa með söfnuðinum. Bóknámsumsjónarmenn og aðrir öldungar ættu að gera samstillt átak í því að heimsækja óvirka og bjóðast nærgætnislega til að starfa með þeim. Ef þessir einstaklingar hafa verið óvirkir lengi ættu tveir öldungar að ræða fyrst við þá til að athuga hvort þeir uppfylli boðberakröfurnar. — km 11.00 bls. 3.
11. Hvert er besta dæmið um óverðskuldaða gæsku Guðs?
11 Búðu þig undir minningarhátíðina: Lausnargjaldið er besta dæmið um óverðskuldaða gæsku Guðs. (Post. 20:24) Milljónir manna um allan heim sýna þakklæti sitt með því að koma saman laugardaginn 22. mars eftir sólsetur til að minnast dauða Krists. Við viljum bjóða öllum hjartahreinum mönnum til að sækja þessa mikilvægu samkomu sem vitnar um þá óverðskulduðu gæsku sem Jehóva sýnir mannkyni.
12. Hverjum ættum við að bjóða á minningarhátíðina?
12 Búðu til lista yfir þá sem þú vilt bjóða. Vafalaust skráirðu hjá þér ættingja, nágranna, vinnufélaga, skólavini, fyrrverandi og núverandi biblíunemendur og alla aðra sem þú heimsækir reglulega. Ef einhverjir sem þú býður eru með spurningar um minningarhátíðina gætirðu notað viðaukann sem fjallar um kvöldmáltíð Drottins á bls. 206-8 í bókinni Hvað kennir Biblían? Þar sem þetta veitir þér tækifæri til að kynna þessa kennslubók gætirðu jafnvel stofnað biblíunámskeið með viðkomandi.
13. Hvernig blessaði Jehóva viðleitni tveggja boðbera sem lögðu sig fram um að bjóða öðrum á minningarhátíðina?
13 Systir nokkur útbjó lista yfir 48 fjölskyldur sem hún ætlaði að bjóða. Hún strikaði yfir nöfn þeirra sem hún var búin að bjóða og skrifaði niður hvenær hún hafði boðið þeim. Hún var himinlifandi þegar 26 þeirra sem hún bauð mættu á minningarhátíðina. Bróðir, sem er verslunareigandi, bauð starfsmanni á minningarhátíðina. Maðurinn, sem er fyrrverandi prestur, kom og sagði eftir á: „Ég fræddist meira um Biblíuna á einum klukkutíma en ég gerði á þeim 30 árum sem ég tilheyrði kaþólsku kirkjunni.“ Fljótlega eftir minningarhátíðina byrjaði hann að kynna sér Biblíuna með hjálp bókarinnar Hvað kennir Biblían?
14. Hvaða heimsátak hefst 1. mars?
14 Dreifingarátak: Sérstökum boðsmiðum verður dreift um allan heim og hefst átakið laugardaginn 1. mars og því lýkur 22. mars. Allir boðberar ættu að taka heilshugar þátt í þessu mikilvæga dreifingarátaki. Það er betra að afhenda húsráðanda boðsmiðann í eigin persónu en að skilja hann eftir í bréfalúgunni. Ef söfnuðurinn hefur hins vegar stórt starfssvæði gætu öldungarnir ákveðið að skilja megi eftir boðsmiða þar sem enginn er heima. Um helgar bjóðum við líka nýjustu blöðin.
15. Hvað getum við sagt þegar við gefum fólki boðsmiðann á minningarhátíðina?
15 Þar sem við höfum ekki ótakmarkaðan tíma til að dreifa boðsmiðunum er best að við séum stuttorð. Verum vingjarnleg og tölum af eldmóði. Við gætum sagt eitthvað á þessa leið: „Okkur langar til að bjóða þér, fjölskyldu þinni og vinum á mjög mikilvæga hátíð sem verður haldin 22. mars. Hér er boðsmiði handa þér. Nánari upplýsingar eru að finna á honum.“ Húsráðandinn gæti komið með spurningar. Hann gæti líka tekið við boðsmiðanum og jafnvel sagst ætla að koma. Skráðu hjá þér þá sem sýna áhuga og gerðu ráðstafanir til að fara aftur til þeirra.
16. Hvaða frásaga undirstrikar gildi þess að bjóða sem flestum á svæðinu á minningarhátíðina?
16 Á síðasta ári fann hermaður boðsmiða á minningarhátíðina í bréfalúgunni sinni. Hann ákvað að mæta en þurfti að fá leyfi hjá liðþjálfanum. Þegar hann sýndi liðþjálfanum boðsmiðann varð liðþjálfinn þögull en sagði síðan að foreldrar sínir væru vottar og að áður fyrr hefði hann verið vanur að fara með þeim á samkomur. Liðþjálfinn gaf hermanninum ekki aðeins leyfi til að fara á minningarhátíðina heldur slóst hann einnig í för með honum.
17. Hvernig sýnum við að við höfum ekki látið náð Guðs verða til einskis?
17 Sýnum þakklæti: Þegar dregur að minningarhátíðinni 2008 skulum við hvert og eitt okkar íhuga þá óverðskulduðu gæsku sem Jehóva hefur sýnt okkur. Páll postuli skrifaði: „Látið ekki náð Guðs, sem þér hafið þegið, verða til einskis.“ (2. Kor. 6:1) Hvernig sýnum við að við höfum ekki látið náð Guðs, eða óverðskuldaða gæsku hans, verða til einskis? Páll skrifaði: „Á allan hátt sýnum vér, að vér erum þjónar Guðs.“ (2. Kor. 6:4) Við sýnum því að við erum þakklát fyrir gjafir Jehóva með því að hegða okkur vel og prédika fagnaðarerindið af kappi. Tíminn í kringum minningarhátíðina er tilvalinn til að auka þátttöku okkar í starfinu og bera vitni um fagnaðarerindið.
[Rammi á blaðsíðu 3]
Hverjir gætu gerst aðstoðarbrautryðjendur?
◼ Fjölskyldur.
◼ Þeir sem eru í fullri vinnu.
◼ Aldraðir og heilsulitlir.
◼ Þeir sem eru í skóla.
[Rammi á blaðsíðu 4]
Dreifing boðsmiðanna:
◼ Vertu stuttorður; talaðu af eldmóði.
◼ Skráðu hjá þér þá sem sýndu áhuga og farðu aftur til þeirra.
◼ Bjóddu blöðin um helgar.