Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • km 2.97 bls. 3-5
  • Þrjátíu aðstoðarbrautryðjendur óskast

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Þrjátíu aðstoðarbrautryðjendur óskast
  • Ríkisþjónusta okkar – 1997
  • Svipað efni
  • Verðugt markmið fyrir næsta þjónustuár
    Ríkisþjónusta okkar – 2007
  • Munum við endurtaka það?
    Ríkisþjónusta okkar – 1998
  • Víðfrægjum dáðir Jehóva
    Ríkisþjónusta okkar – 2007
  • Spurningakassinn
    Ríkisþjónusta okkar – 1993
Sjá meira
Ríkisþjónusta okkar – 1997
km 2.97 bls. 3-5

Þrjátíu aðstoðarbrautryðjendur óskast

Getur þú verið aðstoðarbrautryðjandi í mars? apríl? maí?

1 „Þúsund prédikarar óskast,“ hét grein sem birtist í Varðturninum í apríl árið 1881. Þar voru allir vígðir karlar og konur, „sem Drottinn hefur veitt þekkingu á sannleika sínum,“ hvött til að nota allan þann tíma sem þau gætu til að útbreiða sannleika Biblíunnar. Þau sem gátu varið helmingi af tíma sínum eða meiru til verks Drottins voru hvött til að bjóða sig fram til farandbóksölustarfs, en það var undanfari brautryðjandastarfs nútímans.

2 Enda þótt margt hafi breyst á einni öld stendur ein staðreynd óhögguð — vígðir þjónar Guðs vilja halda áfram að nota allan þann tíma sem þeir geta til að útbreiða fagnaðarerindið. Með aðstoðarbrautryðjandastarfi verja safnaðarboðberar meiri tíma til þjónustu Guðsríkis og auka þar með afköst sín og skilvirkni. — Kól. 4:17, NW; 2. Tím. 4:5.

3 Hundruð þúsunda bræðra og systra hafa tekið þátt í aðstoðarbrautryðjandastarfi síðan það hófst. Svo mikill varð áhuginn fyrir þessari grein brautryðjandastarfsins að meira en 30 boðberar gerðust aðstoðarbrautryðjendur hér á landi í aprílmánuði árið 1989. Tvívegis eftir það hafa aðstoðarbrautryðjendur orðið 30 eða fleiri í aprílmánuði — árið 1992 og 1993. Það er vissulega færi á að endurtaka það vorið 1997.

4 Við hvetjum til að þið setjið ykkur það markmið að gerast aðstoðarbrautryðjendur í mars, apríl eða maí, annaðhvort einn mánuð eða fleiri. Hvers vegna stingum við líka upp á mars? Vegna þess að í ár ber minningarhátíðina um dauða Krists upp á sunnudaginn 23. mars. Við getum ekki notað vikurnar fyrir minningarhátíðina betur en með því að taka duglega til hendinni við prédikun Guðsríkis sem Drottinn okkar og frelsari, Jesús Kristur, kom af stað. Með kröftugum vitnisburði í mars getum við boðið mörgum áhugasömum með okkur að sækja minningarhátíðina um dauða Krists. Í marsmánuði bjóðum við líka í fyrsta sinn bókina Spurningar unga fólksins — svör sem duga. Og í mars eru fimm laugardagar og fimm sunnudagar sem býður upp á öflugt starf um helgar. Með kostgæfni í boðunarstarfinu í apríl og maí getum við auðvitað fylgt eftir þeim áhuga sem við finnum og hafið ný biblíunámskeið. Við förum líka rækilega yfir starfssvæði okkar, einkum um helgar, með nýjustu tölublöð Varðturnsins og Vaknið!

5 Hverjir eru hæfir til að starfa sem aðstoðarbrautryðjendur?: Bókin Skipulagðir til að fullna þjónustuna segir á bls. 14: „Óháð aðstæðum geta skírðir boðberar í góðu áliti, sem geta varið 60 klukkustundum á mánuði til boðunarstarfsins og telja sig geta verið aðstoðarbrautryðjendur einn mánuð eða fleiri, sótt um þátttöku í slíku starfi, og öldungar safnaðarins taka slíka umsókn fúslega til athugunar.“ Getur þú skapað þér svigrúm til slíks starfs í mars, apríl og/eða maí?

6 Jákvæð afstaða öldungaráðsins, ásamt hugheilum stuðningi annarra boðbera, ætti að gera okkur fyllilega kleift að ná því takmarki að hafa 30 aðstoðarbrautryðjendur starfandi í vor. (Hebr. 13:7) Allir sem eiga fyrir fjölskyldu að sjá eru hvattir til að athuga hve margir í fjölskyldunni geti gerst aðstoðarbrautryðjendur einn eða fleiri mánuði í vor. — Sálm. 148:12, 13; samanber Postulasöguna 21:8, 9.

7 Vertu ekki of fljótur á þér að hugsa sem svo að aðstoðarbrautryðjandastarfið sé utan seilingar fyrir þig, því að þú sért í fullri vinnu, í skóla, þurfir að annast fjölskyldu eða berir aðrar biblíulegar skyldur. Sumir geta að vísu átt erfitt með að taka þátt í þessari starfsgrein, en með góðri skipulagningu og blessun Jehóva tekst það. (Sálm. 37:5; Orðskv. 16:3) Láttu löngunina til að taka þátt í brautryðjandastarfi ráða aðstæðum þínum, en ekki aðstæðurnar ráða löngun þinni. (Orðskv. 13:19a) Sterkur kærleikur til Jehóva og náungans gerir mörgum kleift að hagræða vanagangi vikunnar þannig að þeir geti aukið boðunarstarf sitt um eins mánaðar skeið. (Lúk. 10:27, 28) Þeir sem leggja sig kappsamlega fram í þjónustu Guðsríkis eiga mikla blessun í vændum. — 1. Tím. 4:10.

8 Aðstoðarbrautryðjandastarf kemur miklu til leiðar: Hugheil viðleitni þúsunda þjóna Jehóva til að taka þátt í aðstoðarbrautryðjandastarfi er Jehóva til mikils lofs. Þegar þessir boðberar Guðsríkis leggja sig kappsamlega fram við að koma fagnaðarerindinu á framfæri við fleiri, styrkja þeir tengsl sín við Jehóva vegna þess að þeir læra að reiða sig meira á anda hans og blessun.

9 Starf aðstoðarbrautryðjenda, reglulegra brautryðjenda og sérbrautryðjenda er mjög upplífgandi og hressandi fyrir söfnuðinn. Eldmóður þeirra er smitandi þegar þeir segja frásögur úr boðunarstarfinu. Það hvetur aðra til að hugleiða á ný hvað þeir láti ganga fyrir í lífinu og möguleika sína á aukinni þátttöku í hinu þýðingarmikla boðunarstarfi. Systir, sem skírðist sjötug að aldri, gerðist reglulegur aðstoðarbrautryðjandi strax eftir skírn. Aðspurð nokkrum árum síðar hvers vegna hún, svona gömul, legði svona mikið á sig í boðunarstarfinu í hverjum mánuði svaraði hún að sér fyndist hún hafa sóað fyrstu 70 árum ævinnar og að hún vildi ekki sóa þeim árum sem eftir væru!

10 Hver einasti aðstoðarbrautryðjandi eykur færni sína í boðunarstarfinu. Ungur vottur viðurkenndi: ‚Sem lítill drengur tók ég venjulega þátt í prédikunarstarfinu með foreldrum mínum. Það var gaman að vera í starfinu. En seinna meir rann upp fyrir mér að ég skar mig úr fjöldanum í skólanum. Þá fannst mér vandræðalegt að tala við skólafélagana um sannleikann. Það var ægileg tilhugsun að hitta kannski einhvern sem ég þekkti úr skólanum þegar ég starfaði hús úr húsi. Ég held að vandamálið hjá mér hafi verið ótti við menn. [Orðskv. 29:25] Eftir að ég var búinn í skóla ákvað ég að reyna brautryðjandastarf um stundarsakir. Árangurinn varð sá að prédikunarstarfið varð miklu skemmtilegra en það hafði nokkurn tíma verið. Nú var það ekki lengur bara gaman og ekki heldur þung byrði. Þegar ég sá biblíunemendur mína taka framförum í sannleikanum fann ég til djúprar ánægjukenndar yfir því að sjá Jehóva Guð styðja við bakið á mér.‘ Þessi unglingur varð síðan reglulegur brautryðjandi.

11 Þegar margir taka þátt í aðstoðarbrautryðjandastarfi er farið rækilega yfir starfssvæðið. Bróðirinn, sem úthlutar starfssvæðum, getur beðið aðstoðarbrautryðjendurna um hjálp við að fara yfir svæði sem sjaldan er starfað á. Með því að taka með sér nesti og starfa heilan dag samfleytt er hægt að komast yfir jafnvel afskekkta hluta starfssvæðisins.

12 Undirbúningur af hálfu öldunganna: Næstu þrjá mánuði ætti að skipuleggja boðunarstarf á ýmsum tímum vikunnar, meðal annars að áliðnu síðdegi og snemma kvölds, þannig að sem flestir geti tekið þátt í því. Hafið á dagskrá starf á götum úti og á viðskiptasvæðum og heimsækið þá sem hafa ekki verið heima, auk þess að starfa reglulega hús úr húsi. Með því hjálpa öldungarnir brautryðjendum að starfa með söfnuðinum þegar þeim hentar best og það skilar mestum árangri. Söfnuðurinn ætti að fá greinagóðar upplýsingar um fyrirkomulag boðunarstarfsins. Samkomur fyrir boðunarstarfið ættu að vera vel skipulagðar. Auk þess ætti nægilegt starfssvæði að vera fyrir hendi og panta þarf nóg af blöðum og öðrum ritum í tíma.

13 Gerðu þér stundaskrá fyrir boðunarstarfið: Bróðir, sem var í fyrstu kvíðinn gagnvart aðstoðarbrautryðjandastarfinu, segir: „Það er í rauninni miklu auðveldara en ég hélt. Maður þarf bara að hafa góða stundaskrá.“ Á öftustu síðu þessa viðauka finnurðu nokkrar tillögur að stundaskrám handa aðstoðarbrautryðjendum. Gæti einhver þeirra hentað þér? Það þarf ekki nema fimmtán klukkustundir í viku til að starfa sem aðstoðarbrautryðjandi.

14 Húsmæður og kvöldvinnufólk getur ef til vill notað síðdegi, hádegi og einhverja morgna til boðunarstarfsins. Skólafólk og næturvinnufólk getur yfirleitt tekið þátt í prédikunarstarfinu að áliðnum degi. Fólk sem er í fullri vinnu hefur stundum getað fengið frí einn dag í viku eða notað allar helgarnar til boðunarstarfsins, auk þess að starfa á kvöldin. Margir, sem starfa aðallega um helgar, velja sér mánuði með fimm heilum helgum. Bæði mars, ágúst og nóvember á þessu ári hafa fimm helgar. Notaðu óútfylltu stundaskrána á bls. 6 og hugleiddu vandlega og í bænarhug hvað sé raunhæf og hentug stundaskrá fyrir þig.

15 Einn aðalkostur aðstoðarbrautryðjandastarfsins er sveigjanleikinn. Þú getur valið hvaða mánuð þú starfar sem brautryðjandi og gert það eins oft og þú vilt. Ef þig langar til að starfa sem aðstoðarbrautryðjandi að staðaldri en hefur ekki tök á því, hefur þér þá dottið í hug að gera það annan hvern mánuð? Sumir geta aftur á móti starfað sem aðstoðarbrautryðjendur að staðaldri um langt skeið.

16 Upphitun fyrir fullt brautryðjandastarf: Margir hafa brautryðjandaanda og langar til að vera reglulegir brautryðjendur en efast um að aðstæður leyfi og þeir hafi tíma eða úthald til þess. Flestir, sem eru reglulegir brautryðjendur núna, hafa eflaust hitað sig upp fyrir það með aðstoðarbrautryðjandastarfi. Ekki þarf að bæta við nema einni klukkustund á dag eða einum degi í viku til að ná tímatakmarki reglulegs brautryðjanda. Hvernig væri að láta á það reyna hvort þú getur það með því að reyna að starfa 90 klukkustundir eða meira einn eða fleiri mánuði sem þú tekur þátt í aðstoðarbrautryðjandastarfinu? Um leið ertu að safna þér endurheimsóknum og hefja biblíunámskeið þannig að starf þitt sem brautryðjandi verði fjölbreytt og jafnvægi sé milli starfsgreina.

17 Systir nokkur starfaði í sex ár samfleytt sem aðstoðarbrautryðjandi. Allan tímann hafði hún það markmið að gerast reglulegur brautryðjandi. Í því augnamiði prófaði hún fjögur mismunandi veraldleg störf í von um að skapa sér aðstæður til að ná 90 klukkustunda markinu sem reglulegum brautryðjendum er sett. Í hverjum mánuði gerði hún sér eina eða tvær stundaskrár í þeim tilgangi að reikna út hvort hún næði tímatakmarkinu. En þegar hún virti þær fyrir sér fannst henni fullt brautryðjandastarf utan seilingar. Hún hélt samt áfram að biðja Jehóva um leiðsögn. Dag einn, þegar hún var að búa sig undir þjónustusamkomuna, las hún grein í Ríkisþjónustu okkar fyrir september 1991 þar sem sagði: „Í stað þess að leggja of mikla áherslu á þann stundafjölda sem krafist er, gætum við beint athygli okkar fyrst og fremst að því hvort við höfum ekki tækifæri til að auka þátttöku okkar og virkni í uppskerustarfinu? (Jóh. 4:35, 36)“ Hún segir: „Ég las þessa setningu fimm eða sex sinnum og var alveg viss um að þetta væri svar Jehóva. Ég ákvað samstundis að gerast reglulegur brautryðjandi.“ Hún var í hlutastarfi og vinnutími hennar alls ekki hentugur, en hún sótti samt um reglulegt brautryðjandastarf. Viku síðar var vinnutíma hennar breytt þannig að hann hentaði henni mjög vel. Hún segir: „Er þetta ekki hönd Jehóva að verki?“ og bætir svo við: „Þegar maður biður um leiðsögn Jehóva og fær hana, þá færist maður ekki undan heldur þiggur hana.“ Ef það er einlæg löngun þín að gerast reglulegur brautryðjandi, þá sannfæristu kannski um að þú getir það eftir að hafa starfað sem brautryðjandi í mars, apríl og maí.

18 Við erum vissir um að Jehóva blessi kostgæfni og viðleitni þjóna sinna er þeir boða fagnaðarerindi hjálpræðisins með auknu starfi nú á vormánuðum. (Jes. 52:7; Rómv. 10:15) Ætlar þú að svara beiðninni um þrjátíu aðstoðarbrautryðjendur með því að taka þátt í þeirri starfsgrein í mars, apríl og/eða maí? Við hvetjum þig til að gera áætlanir þínar tímanlega því að það auðveldar öldungunum að skipuleggja nauðsynlegar samkomur fyrir boðunarstarfið og hafa fyrirliggjandi nægar birgðir blaða og annarra rita.

[Rammi á blaðsíðu 3]

Velheppnað aðstoðarbrautryðjandastarf

■ Vertu ákveðinn í að láta það heppnast.

■ Biddu Jehóva að blessa viðleitni þína.

■ Hvettu annan boðbera til að gerast aðstoðarbrautryðjandi með þér.

■ Gerðu þér raunhæfa stundaskrá.

■ Pantaðu nóg af blöðum.

■ Styddu samkomur safnaðarins fyrir boðunarstarfið.

■ Leitaðu færis á að bera óformlega vitni.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila