Verðugt markmið fyrir næsta þjónustuár
1. Hvaða markmið gætum við sett okkur fyrir næsta þjónustuár?
1 Við verðum að setja okkur markmið ef við viljum taka framförum í trúnni. Hvaða markmið hefurðu sett þér fyrir næsta þjónustuár? Gott markmið er að vera aðstoðarbrautryðjandi í einn eða fleiri mánuði. Núna er einmitt tíminn til að byrja að hugsa um þetta því að aðstoðarbrautryðjandastarfið útheimtir oftast nær einhverja skipulagningu. Af hverju er það verðugt markmið að vera aðstoðarbrautryðjandi?
2. Hvers vegna ættum við að hugsa um að gerast aðstoðarbrautryðjendur?
2 Hvers vegna að gerast aðstoðarbrautryðjandi? Með því að gerast aðstoðarbrautryðjandi getum við glatt föður okkar á himnum ‚enn meira‘ því að við verjum auknum tíma til boðunarstarfsins. (1. Þess. 4:1) Þegar við hugleiðum allt sem Jehóva hefur gert fyrir okkur knýr hjartað okkur til að segja öðrum frá honum. (Sálm. 34:2, 3) Jehóva tekur eftir og kann að meta allar þær fórnir sem við færum til að geta gert meira í þjónustunni. (Hebr. 6:10) Og sú vitneskja að dugnaður okkar gleður Jehóva færir okkur ómælda gleði. — 1. Kron. 29:9.
3, 4. Hvernig njótum við góðs af aðstoðarbrautryðjandastarfinu?
3 Oftast er það þannig að því meira sem maður gerir eitthvað þeim auðveldara og ánægjulegra verður það. Með því að taka meiri þátt í boðunarstarfinu færðu aukið öryggi þegar þú talar við húsráðendur. Þú verður færari í að hefja samræður og nota Biblíuna. Því meira sem þú talar um trúna þeim mun sterkari verður hún. Mörgum sem eru ekki með biblíunámskeið tekst að koma af stað nýju námskeiði meðan þeir eru aðstoðarbrautryðjendur.
4 Aðstoðarbrautryðjandastarfið gæti líka verið sú hvatning sem þarf til að komast upp úr ákveðinni lægð. Fyrrverandi brautryðjanda fannst hann leggja of mikla áherslu á vinnuna og ákvað að gerast aðstoðarbrautryðjandi í einn mánuð. Hann sagði: „Það var ótrúlegt hvernig þessi eini mánuður hressti mig við í trúnni. Ég ákvað að halda aðstoðarbrautryðjandastarfinu áfram og það varð til þess að ég gerðist brautryðjandi á nýjan leik.“
5. Hvernig getum við sigrast á minnimáttarkennd?
5 Að yfirstíga hindranir: Sumir eru hikandi við að sækja um því að þeim finnst þeir ekki vera nógu færir í boðunarstarfinu. Ef þetta heldur aftur af þér getur Jehóva hjálpað þér rétt eins og hann hjálpaði Jeremía. (Jer. 1:6-10) Móse var „tregt um málfæri og tungutak“ en Jehóva notaði hann samt sem áður til að koma vilja sínum í framkvæmd. (2. Mós. 4:10-12) Ef þú finnur til minnimáttarkenndar skaltu biðja Jehóva um að gefa þér hugrekki.
6. Hvernig er ef til vill hægt að vera aðstoðarbrautryðjandi þrátt fyrir heilsubrest eða annríki?
6 Hikarðu við að sækja um að vera aðstoðarbrautryðjandi vegna þess að þú ert heilsulítill eða önnum kafinn? Ef þú ert heilsulítill er mikilvægt að finna þann takt sem getur gert þér kleift að vera aðstoðarbrautryðjandi. Ef þú ert önnum kafinn gætirðu ef til vill hliðrað aðeins til og frestað ónauðsynlegum hlutum til annars mánaðar. Sumir sem eru í fullri vinnu hafa getað skapað sér svigrúm til að vera aðstoðarbrautryðjendur með því að taka sér frí frá vinnu í einn eða tvo daga. — Kól. 4:5.
7. Hvers vegna er gott að gera aðstoðarbrautryðjandastarfið að bænarefni?
7 Hvernig ættirðu að fara að? Segðu Jehóva í bæn að þig langi til að gerast aðstoðarbrautryðjandi. Biddu hann um að blessa viðleitni þína til að taka aukinn þátt í boðunarstarfinu. (Rómv. 12:11, 12) Hann getur hjálpað þér að taka skynsamlegar ákvarðanir til að aðlaga stundaskrá þína. (Jak. 1:5) Ef löngunin er ekki til staðar biddu þá Jehóva að hjálpa þér að hafa meiri ánægju af boðunarstarfinu. — Lúk. 10:1, 17.
8. Hvernig gætu ráðin í Orðskviðunum 15:22 gert þér kleift að gerast aðstoðarbrautryðjandi?
8 Ræðið í fjölskyldunni um það markmið að taka þátt í aðstoðarbrautryðjandastarfinu. (Orðskv. 15:22) Kannski getur eitt ykkar gerst aðstoðarbrautryðjandi með stuðningi hinna á heimilinu. Talaðu við aðra í söfnuðinum um löngun þína til að verða aðstoðarbrautryðjandi, sérstaklega þá sem eru í svipaðri stöðu og þú. Þetta getur ýtt undir áhuga á aðstoðarbrautryðjandastarfi innan safnaðarins.
9. Hvaða mánuðir gætu hentað vel til þess að vera aðstoðarbrautryðjandi?
9 Skoðaðu dagskrá þína fyrir starfið á næsta þjónustuári. Hvenær heldurðu að þú getir verið aðstoðarbrautryðjandi? Ef þú vinnur fulla vinnu eða ert í skóla ættirðu kannski að hugsa um mánuði sem eru með frídögum eða fimm laugardögum eða sunnudögum. Í september, desember, mars og ágúst eru til að mynda fimm heilar helgar. Í maí eru fimm laugardagar og í júní fimm sunnudagar. Ef þú átt við heilsubrest að stríða skaltu miða við mánuði þegar búast má við góðu veðri. Þú gætir hugleitt að gerast aðstoðarbrautryðjandi í þeim mánuði sem farandhirðirinn heimsækir söfnuðinn. Á meðan á heimsókninni stendur býðst þér að vera viðstaddur fyrri hluta fundar sem haldinn er með brautryðjendum. Þar sem minningarhátíðin verður haldin hinn 22. mars á næsta ári eru mars, apríl og maí einnig tilvaldir til að vera aðstoðarbrautryðjandi. Þegar þú ert búinn að velja einn eða fleiri mánuði skaltu gera þér stundaskrá sem hjálpar þér að ná tímakröfunni.
10. Hvað geturðu gert ef þú hefur ekki möguleika á að vera aðstoðarbrautryðjandi?
10 Þótt þér finnist þú ekki getað tekið þátt í aðstoðarbrautryðjandastarfi á komandi þjónustuári geturðu samt sem áður verið brennandi í andanum. Haltu áfram að gera þitt ýtrasta í boðunarstarfinu og treystu að Jehóva sé ánægður þegar þú leggur þig heilshugar fram um að gera þitt besta. (Gal. 6:4) Þú getur stutt og hvatt þá sem geta verið aðstoðarbrautryðjendur. Þú getur ef til vill gert breytingar á stundaskrá þinni og notað einn dag aukalega til að starfa með þeim.
11. Hvers vegna er mikilvægt að hafa í huga að tíminn er orðinn stuttur?
11 Vottar Jehóva vita hvað tímanum líður. Við höfum verk að vinna — að boða fagnaðarerindið. Mannslíf eru í húfi og tíminn er orðinn stuttur. (1. Kor. 7:29-31) Kærleikur til Guðs og náungans knýr okkur til að gera okkar ýtrasta í boðunarstarfinu. Með því að leggja okkur fram og skipuleggja tímann vel getum við kannski verið aðstoðarbrautryðjendur í að minnsta kosti einn mánuð á næsta þjónustuári. Það er sannarlega verðugt markmið!