Munum við endurtaka það? — Enn er lýst eftir aðstoðarbrautryðjendum
1 Endurtaka hvað? Verðum við aðstoðarbrautryðjendur á tímanum kringum minningarhátíðina? Feitletruð fyrirsögn í viðauka Ríkisþjónustunnar í febrúar í fyrra vakti athygli okkar: „Þrjátíu aðstoðarbrautryðjendur óskast.“ Við vorum þess fullvissir að þú tækir þetta kall alvarlega. Þegar skýrslunum fyrir marsmánuð var safnað saman kom á daginn að 24 höfðu skráð sig sem aðstoðarbrautryðjendur. Ef við bætum við þetta reglulegu brautryðjendunum 13 og sérbrautryðjendunum 7 þann mánuð, þá kemur í ljós að 14 prósent boðberanna voru í brautryðjandastarfi. Munum við endurtaka þetta kringum minningarhátíðina í ár? Í Bandaríkjunum var lýst eftir 100.000 aðstoðarbrautryðjendum og 116.335 svöruðu kallinu.
2 Við viljum hrósa öllum sem lögðu hart að sér til að auka þátttöku sína í boðunarstarfinu á síðasta vori. Þið voruð augljóslega knúin af óeigingjörnum kærleika til Jehóva Guðs og náungans. (Lúk. 10:27; 2. Pét. 1:5-8) Boðberar, sem búa við alls konar aðstæður, hagræddu málum sínum svo að þeir gætu verið aðstoðarbrautryðjendur. Í einum söfnuði erlendis var 51 boðberi í brautryðjandastarfi í sama mánuðinum. Þar á meðal voru flestir öldungarnir, móðir með 15 mánaða gamla dóttur, systir sem hætti fyrra starfi og fann sér vinnu hluta úr degi til að geta verið brautryðjandi, og öldruð systir sem hafði aldrei áður verið brautryðjandi. Farandhirðirinn skrifaði: „Verið er að gera gríðarlegt átak í prédikunarstarfinu. . . . Þetta hefur mikil áhrif á starfssvæðið og söfnuðirnir eru fullir af eldmóði. Bræðurnir njóta þess að kynnast hver öðrum betur og að sjá góðan árangur af boðunarstarfinu.“
3 Unga fólkið varð ekki útundan síðastliðið vor. Þrettán ára stúlku í Bandaríkjunum, sem var óskírður boðberi, hafði hlakkað til að geta látið skírast. Eftir skírn sína í febrúar skrifaði hún um löngun sína til að vera aðstoðarbrautryðjandi í mars: „Ég lagði þegar inn umsókn því að nú var ekkert sem hindraði mig. Við hefðum aldrei orðið allrar þessarar ánægjulegu reynslu aðnjótandi ef þið hefðuð ekki sent kærleiksríkt boð ykkar um að taka þátt í brautryðjandastarfinu. Ég er Jehóva þakklát að hafa haft þau sérréttindi að vera meðal þeirra 100.000 sem svöruðu kallinu.“ Hún ætlar að endurtaka það.
4 Varst þú einn hinna 24 sem voru aðstoðarbrautryðjendur í mars eða einn af 21 í apríl eða einn af 14 í maí. Ætlarðu að endurtaka það á þessu ári? Ef þú gast ekki verið aðstoðarbrautryðjandi síðastliðið vor, hvernig eru þá aðstæðurnar í ár? Gætum við orðið fleiri en 33 í apríl á þessu ári, en það var tala aðstoðarbrautryðjenda í apríl 1992 sem er hæsta tala á síðari árum?
5 Einbeitum okkur að apríl og maí: Á þessu ári ber minningarhátíðina upp á laugardaginn 11. apríl. Því er kjörið að auka starfið í apríl. (2. Kor. 5:14, 15) Fyrstu 11 daga mánaðarins munum við huga að því að bjóða eins mörgum áhugasömum á minningarhátíðina og unnt er. Ef þú hyggst vera aðstoðarbrautryðjandi væri æskilegt að þú legðir inn umsókn þína með góðum fyrirvara. — 1. Kor. 14:40.
6 Í maí eru fimm helgar og því gæti boðberum, sem stunda skóla eða eru í fullri veraldlegri vinnu, þótt auðveldara að vera aðstoðarbrautryðjendur í þeim mánuði. Ef þú áætlar tíu stunda starf um hverja af helgunum fimm þarftu aðeins að starfa tíu tíma til viðbótar til að ná 60 tíma markinu.
7 Í apríl og maí bjóðum við einstök tölublöð af Varðturninum og Vaknið! Það ætti að hvetja enn fleiri okkar til að gerast brautryðjendur. Hvers vegna segjum við það? Því auðvelt er að bjóða blöðin og ánægjulegt að nota þau í boðunarstarfinu. Þau henta vel í öllum starfsgreinum — í starfinu hús úr húsi, í fyrirtækjastarfinu og eins þegar við tökum fólk tali á götum úti, á bílastæðum og við aðrar óformlegar aðstæður. Umfram allt eru Varðturninn og Vaknið! málsvarar sannleikans um Guðsríki. Þau beina athyglinni að uppfyllingu spádóma Biblíunnar og sanna að Guðsríki er við völd. Þau snerta líka líf lesandans þar sem þau fjalla um raunverulegar þarfir fólks. Ef við hugleiðum áhrifin, sem þessi blöð hafa haft á líf okkar, knýr það okkur til að eiga þátt í að dreifa þeim sem víðast í apríl og maí.
8 Þegar þú undirbýrð þig fyrir aukið blaðastarf væri gott að fara aftur yfir eftirfarandi greinar: „Varðturninn og Vaknið — sannleiksrit á réttum tíma“ (Varðturninn, 1. janúar 1994), „Nýttu blöðin sem best“ (Ríkisþjónusta okkar, september 1995), „Semdu þína eigin blaðakynningu“ (Ríkisþjónusta okkar, október 1996).
9 Öldungar taka forystuna: Síðastliðið vor löguðu öldungar eins safnaðar sig að þörfum brautryðjendanna með því að auglýsa einn laugardag mánaðarins sem sérstakan starfsdag fyrir allan söfnuðinn. Þann dag voru ráðstafanir gerðar til að hittast nokkrum sinnum á mismunandi tímum. Þannig gafst öllum í söfnuðinum kostur á að taka þátt í mismunandi starfsgreinum. Farið var í fyrirtækjastarf, götustarf, hús úr húsi, endurheimsóknir, bréf voru skrifuð og síminn notaður. Viðbrögðin voru framar öllum vonum því að 117 boðberar tóku þátt í boðunarstarfinu þann dag. Til samans notuðu þeir 521 klukkutíma í þjónustunni og dreifðu 617 blöðum, bæklingum og bókum! Ákafi þessa laugardags hélt áfram á sunnudeginum þegar aðsókn á opinbera fyrirlesturinn og Varðturnsnámið var nálægt meti.
10 Minna ætti söfnuðinn á stund og stað samansafnana vikunnar á hverri þjónustusamkomu í apríl og maí, einkum ef um aukasamansafnanir er að ræða. Reglulegir brautryðjendur og boðberar, sem ekki eru aðstoðarbrautryðjendur, eru hvattir til að styðja þessar samansafnanir eftir því sem aðstæður þeirra leyfa.
11 Starfshirðirinn þarf að eiga samráð við bróðurinn sem úthlutar starfssvæðum til að hægt verði að starfa á svæðum sem ekki er oft farið yfir. Leggja má aukna áherslu á að hitta þá sem ekki voru heima, vitna á götum úti og í verslunum. Hvetja má til aukins kvöldstarfs, enda er daginn farið að lengja. Þar sem vænst er aukins starfs í apríl og maí skal panta nægar birgðir af blöðunum.
12 Margir boðberar eru hæfir: Fyrsta setningin á umsóknareyðublaði fyrir aðstoðarbrautryðjendur hljóðar svo: „Vegna kærleika míns til Jehóva og löngunar til að hjálpa öðrum að læra um hann og kærleiksríkan tilgang hans, langar mig til að auka þátttöku mína í þjónustunni á akrinum með því að gerast aðstoðarbrautryðjandi.“ Kærleikurinn til Jehóva og löngunin til að hjálpa öðrum andlega eru grundvallarástæður vígslu okkar. (1. Tím. 4:8, 10) Þeir sem eru skírðir og eru í góðu áliti og í aðstöðu til að verja 60 klukkustundum í mánuðinum til þjónustunnar teljast hæfir til að verða aðstoðarbrautryðjendur. Þegar hvert og eitt okkar skoðar aðstæður sínar má vera að einhverjir, sem aldrei áður hafa verið brautryðjendur, geti verið það í apríl eða maí á þessu ári.
13 Margir safnaðarmenn gera sér kannski ljóst að þeir geta verið brautryðjendur þegar þeir sjá aðra skrá sig sem búa við svipaðar aðstæður. Skólafólki, öldruðum, fólki sem vinnur fulla vinnu, þar með taldir öldungar og safnaðarþjónar, hefur tekist að vera aðstoðarbrautryðjendur. Húsmóðir og tveggja barna móðir, sem vann fulla vinnu, náði 60 klukkutímum, dreifði 108 blöðum og hóf 3 biblíunámskeið mánuðinn sem hún var aðstoðarbrautryðjandi. Hvernig fór hún að því? Hún notaði matartímann á vinnustað til að prédika á nálægu svæði, bar vitni með bréfaskriftum, starfaði á bílastæðum og á götum úti. Hún notfærði sér líka frídaginn sinn í viku hverri og starfaði þá með söfnuðinum. Þótt hún hafi í fyrstu álitið að brautryðjandastarfið væri utan seilingar þá gat hún sigrast á hindrununum með hvatningu frá öðrum og með því að gera sér raunhæfa stundaskrá.
14 Jesús fullvissaði lærisveina sína um að ‚ok sitt væri ljúft og byrði sín létt.‘ (Matt. 11:30) Þetta var fyrirsögn uppörvandi greinar í Námsgreinum úr enska Varðturninum árið 1995, 1. hluta. Þar segir frá systur sem vann allan daginn í krefjandi veraldlegu starfi. Fannst henni aðstoðarbrautryðjandastarfið vera utan seilingar? Nei. Henni tókst reyndar að vera aðstoðarbrautryðjandi í hverjum mánuði. Hvers vegna? Vegna þess að henni fannst brautryðjandastarfið í rauninni hjálpa sér að halda jafnvægi. Mesta gleðin í öllu annríkinu hjá henni var að aðstoða fólk við að kynnast sannleika Biblíunnar og sjá það breyta líferni sínu til að öðlast velþóknun Guðs. — Orðskv. 10:22.
15 Hverjar þær fórnir og tilhliðranir, sem gera þarf til að geta verið brautryðjandi, eru endurgoldnar og vel það með þeirri blessun sem menn njóta. Systir nokkur skrifaði um reynslu sína af aðstoðarbrautryðjandastarfi: „Það hjálpaði mér að hugsa minna um sjálfa mig og einbeita mér að því að hjálpa öðrum. . . . Ég mæli með því við alla sem geta.“
16 Það útheimtir góða stundaskrá: Á öftustu síðu þessa viðauka finnurðu stundaskrár líkar þeim sem voru í Ríkisþjónustu okkar í febrúar í fyrra. Vera má að einhver þeirra henti þér. Þegar þú kannar þær skaltu hugleiða þína venjubundnu mánaðaráætlun. Hvaða verkefni heima fyrir gætirðu unnið áður en þú gerist brautryðjandi eða geymt þar til eftir á? Geturðu fórnað einhverju af tímanum sem þú notar í skemmtanir, afþreyingu og aðrar tómstundir? Í stað þess að einblína á allar 60 stundirnar, sem krafist er, skaltu skipuleggja stundaskrá þína á daglegum eða vikulegum grundvelli. Aðeins þarf að starfa 2 tíma á dag eða 15 tíma á viku til að vera aðstoðarbrautryðjandi. Taktu þér blýant í hönd og athugaðu stundaskrártillögurnar til að athuga hvort þú getir gert stundarskrá fyrir boðunarstarfið sem hentar þér og fjölskyldu þinni.
17 Góð viðbrögð og aukinn stuðningur safnaðarins við boðunarstarfið síðastliðið vor jók eldmóð reglulegs brautryðjanda sem skrifaði: „Innilegar þakkir fyrir kærleiksríka hvatningu ykkar um að leggja sig sérstaklega fram um að styðja aðstoðarbrautryðjandastarfið. . . . Tillögur ykkar að stundaskrám sýndu mörgum sem höfðu aldrei áður verið brautryðjendur fram á að þeir gætu þetta. . . . Ég er svo ánægð að tilheyra skipulagi Jehóva og fylgja ánægjulegri og ástríkri handleiðslu hins trúa og hyggna þjóns.“
18 Orðskviðirnir 21:5 fullvissa okkur „Fyrirætlanir iðjumannsins reynast fésamar vel.“ Orðskviðirnir 16:3 hvetja okkur til að ‚fela Jehóva verk okkar, þá mun áformum okkar framgengt verða.‘ Já, ef við í bænarhug höfum Jehóva með í ákvarðanatöku okkar og treystum því fyllilega að hann hjálpi okkur getum við verið jákvæð í áætlunum okkar um aðstoðarbrautryðjandastarf. Vera má að við komumst að því að áætlunin dugi svo vel að eftir eins til tveggja mánaða aðstoðarbrautryðjandastarf getum við merkt við reitinn á umsóknareyðublaðinu sem hljóðar svo: „Merktu við hér ef þú vilt þjóna samfellt sem aðstoðarbrautryðjandi uns annað er tekið fram.“ Við getum að minnsta kosti hlakkað til þess að starfa aftur sem aðstoðarbrautryðjendur í ágúst en þá eru fimm helgar. Í síðasta mánuði þjónustuársins gerum við samstillt átak til að allir geti tekið sem mestan þátt í boðunarstarfinu.
19 Jesús spáði: „Sá sem trúir á mig, mun einnig gjöra þau verk, sem ég gjöri. Og hann mun gjöra meiri verk en þau.“ (Jóh. 14:12) Það eru ánægjuleg sérréttindi okkar að þjóna sem samverkamenn Guðs að uppfyllingu þessa einstaka spádóms. Nú er tíminn til að prédika fagnaðarerindið af meiri krafti en nokkru sinni fyrr og að nota hverja stund til þess. (1. Kor. 3:9; Kól. 4:5) Kjörin leið til að gera okkar hlut sem boðberar Guðsríkis er að taka eins oft þátt í aðstoðarbrautryðjandastarfinu og við getum. Við bíðum spennt eftir að sjá hve kröftugur lofsöngurinn frá aðstoðarbrautryðjendunum verður í kringum þessa minningarhátíð. (Sálm. 27:6) Þegar við leiðum hugann að góðum árangri síðastliðins vors veltum við því fyrir okkur hvort takist að endurtaka átakið. Við erum þess fullvissir að svo verði!
[Rammi á blaðsíðu 3]
Getur þú verið aðstoðarbrautryðjandi?
„Óháð aðstæðum geta skírðir boðberar í góðu áliti, sem geta varið 60 klukkustundum á mánuði til boðunarstarfsins og telja sig geta verið aðstoðarbrautryðjendur einn mánuð eða fleiri, sótt um þátttöku í slíku starfi, og öldungar safnaðarins taka slíka umsókn fúslega til athugunar.“ — Skipulagðir til að fullna þjónustuna, bls. 114.
[Rammi á blaðsíðu 6]
Stundaskrá aðstoðarbrautryðjanda
Dæmi um hvernig nota má 15 klukkustundir í viku til boðunarstarfs
Virkir dagar að morgni og laugardagur
Nota má sunnudag í stað laugardags
Dagur Tími Stundir
Mánudagur Morgunn 2
Þriðjudagur Morgunn 2
Miðvikudagur Morgunn 2
Fimmtudagur Morgunn 2
Föstudagur Morgunn 2
Laugardagur Heill dagur 5
Klukkustundir alls: 15
Tveir heilir dagar
Veldu einhverja tvo daga vikunnar
Dagur Tími Stundir
Miðvikudagur Heill dagur 71⁄2
Laugardagur Heill dagur 71⁄2
Klukkustundir alls: 15
Tvö kvöld og helgi
Veldu einhver tvö kvöld vikunnar
Dagur Tími Stundir
Mánudagur Kvöld 11⁄2
Miðvikudagur Kvöld 11⁄2
Laugardagur Heill dagur 8
Sunnudagur Hálfur dagur 4
Klukkustundir alls: 15
Virkir dagar síðdegis og laugardagur
Nota má sunnudag í stað einhvers annars dags
Dagur Tími Stundir
Mánudagur Síðdegi 2
Þriðjudagur Síðdegi 2
Miðvikudagur Síðdegi 2
Fimmtudagur Síðdegi 2
Föstudagur Síðdegi 2
Laugardagur Heill dagur 5
Klukkustundir alls: 15
Stundaskráin mín
Veldu stundafjölda fyrir hverja dagstund
Dagur Tími Stundir
Mánudagur
Þriðjudagur
Miðvikudagur
Fimmtudagur
Föstudagur
Laugardagur
Sunnudagur
Klukkustundir alls: 15