Aukið starf í kringum minningarhátíðina
1. Hvaða áhrif höfðu „löghátíðir Drottins“ á guðhrædda Ísraelsmenn?
1 Á vissum árstímum héldu Ísraelsmenn til forna „löghátíðir Drottins“. (3. Mós. 23:2) Þeir tóku frá tíma til að hugleiða gæsku Guðs og það gaf þeim mikla gleði og gerði þá kappsfulla gagnvart hreinni tilbeiðslu. — 2. Kron. 30:21–31:2.
2, 3. Af hverju er viðeigandi að taka meiri þátt í boðunarstarfinu vikurnar í kringum minningarhátíðina og hvenær verður minningarhátíðin haldin?
2 Á hverju ári í kringum minningarhátíðina er auknum krafti hleypt í boðunarstarfið. Á þeim tíma hugleiðum við vandlega þýðingu þeirrar ómetanlegu gjafar sem Jehóva gaf okkur — eingetinn son sinn. (Jóh. 3:16; 1. Pét. 1:18, 19) Þegar við hugsum um þann kærleika, sem Guð og sonur hans sýndu, langar okkur að lofa Guð og leggja okkur enn betur fram við að gera vilja hans. — 2. Kor. 5:14, 15.
3 Á þessu ári verður kvöldmáltíð Drottins haldin eftir sólsetur fimmtudaginn 24. mars. Hvernig getum við tekið meiri þátt í boðunarstarfinu í mars, apríl og maí?
4, 5. (a) Hvernig hafa sumir náð að prédika fyrir fleira fólki? (b) Hvað hefur reynst vel á svæðinu þínu?
4 Náum til fleira fólks: Leitaðu leiða til að ná til eins margra og þú getur í boðunarstarfinu. Gætirðu skipulagt að fara í starfið hús úr húsi þegar fleiri eru heima, til dæmis seinni part dags eða á kvöldin? Ef nokkrir úr bóknámshópnum vilja fara í starfið fyrir bóknám gæti umsjónarmaðurinn skipulagt stutta samansöfnun svo hægt sé að fara í starfið í nágrenninu.
5 Önnur leið til að ná til margra er að prédika á almannafæri. Systur nokkra í Japan langaði til að vera aðstoðarbrautryðjandi þótt hún væri í fullri vinnu. Öldungur lagði til að hún færi í götustarfið í grennd við lestarstöð á hverjum degi áður en hún færi í vinnuna. Fyrst þurfti hún að sigrast á feimni og leiða hjá sér spott frá fólki á leið í vinnu. Eftir það tókst henni að koma af stað blaðaleið hjá 40 manns, þar á meðal hjá fólki sem notar lestina og þeim sem vinna á lestarstöðinni eða í verslunum í kring. Hún dreifði að meðaltali 235 blöðum á mánuði og kom af stað sex biblíunámskeiðum með því að ræða við fólk um biblíulegt efni í nokkrar mínútur á dag.
6. Hvernig gæti ungt fólk tekið meiri þátt í starfinu?
6 Nýtum tækifæri til að prédika: Margir boðberar á skólaaldri eru í fríi á vissum árstímum. Það gæti gefið þeim tækifæri til að gerast aðstoðarbrautryðjendur. Kristnir unglingar geta einnig tekið meiri þátt í starfinu með því að vitna í skólanum. Það gæti komið þér á óvart hve forvitnir bekkjarfélagarnir eru um trú þína. Af hverju ekki að grípa tækifærið til að vitna þegar umræður skapast í bekknum eða þegar þú skrifar ritgerð? Sumir hafa nýtt sér myndböndin okkar. Ungt fólk hefur jafnvel komið af stað biblíunámskeiðum hjá bekkjarfélögum og hjálpað þeim að ná því markmiði að vígjast og skírast. Þetta eru góðar leiðir til að lofa nafn Jehóva. — Sálm. 148:12, 13.
7. (a) Hvaða tækifæri nýtti bróðir nokkur til að vitna fyrir öðrum? (b) Hefur þú reynslu af einhverju slíku?
7 Reyndu að finna leiðir til að tala við þá sem verða á vegi þínum og segja þeim frá Guði og stórkostlegum fyrirheitum hans. Bróðir nokkur, sem ferðast með sömu lestum á hverjum degi, vitnar fyrir öðrum farþegum þegar það á við. Hann vitnaði til dæmis á hverjum degi fyrir ungum manni í um fimm mínútur á meðan hann beið eftir næstu lest. Það varð til þess að ungi maðurinn og vinnufélagi hans þáðu biblíunámskeið. Námskeiðið fór fram í lestinni. Nokkru síðar kom eldri kona að máli við bróðurinn og bað einnig um biblíunámskeið en hún hafði verið að hlusta á samræður þeirra. Biblíunámskeið hennar fer einnig fram í lestinni á þeim dögum sem hún ferðast með henni. Með þessum hætti hefur bróðirinn aðstoðað tíu farþega í lestinni við biblíunám.
8. Hvernig geta þeir sem eru takmörk sett vegna aldurs eða heilsuleysis tekið meiri þátt í boðunarstarfinu?
8 En hvað ef þér eru takmörk sett vegna aldurs eða heilsuleysis? Engu að síður gætirðu fundið leiðir til að lofa Jehóva í ríkari mæli. Hefurðu prófað símastarf? Ef þú ert ekki viss um hvernig þú átt að fara að geturðu spurt bóknámsumsjónarmanninn. Hann gæti beðið boðbera, sem nota þessa aðferð, að starfa með þér. Ef þið vinnið saman getið þið lært hvert af öðru og hjálpast að við að prédika á árangursríkan hátt. Finna má góðar tillögur um símastarf í Ríkisþjónustu okkar fyrir febrúar 2001, á blaðsíðu 5-6.
9. Hvernig getum við hjálpað biblíunemendum að verða hæfir til að taka þátt í boðunarstarfinu með söfnuðinum?
9 Þegar nýir koma á minningarhátíðina gætu þeir fundið hjá sér löngun til að lofa Jehóva í ríkari mæli. Ef þeir eru smeykir við að taka formlega þátt í boðunarstarfinu gætirðu hjálpað þeim að sigrast á því. Það gætirðu gert með því að segja jákvæðar frásögur úr boðunarstarfinu og kenna þeim smám saman að útskýra kenningar Biblíunnar og svara fyrir trú sína. (1. Pét. 3:15) Ef biblíunemandi lætur í ljós löngun til að prédika fagnaðarerindið skaltu tala við umsjónarmann í forsæti. Hann getur skipulagt viðtal við biblíunemandann til að skera úr um hvort hann sé hæfur til að taka þátt í boðunarstarfinu með söfnuðinum. Jehóva gleðst svo sannarlega þegar hann sér nýja taka afstöðu með sér í deilunni um drottinvaldið yfir alheiminum. — Orðskv. 27:11.
10. (a) Hvernig getur góð stundaskrá hjálpað þér að taka þátt í aðstoðarbrautryðjandastarfinu? (b) Hafðirðu tækifæri til að vera aðstoðarbrautryðjandi á síðasta ári í kringum minningarhátíðina? Hvernig fórstu að?
10 Geturðu verið aðstoðarbrautryðjandi? Fimmtíu stunda tímatakmark aðstoðarbrautryðjenda ber að taka alvarlega. (Matt. 5:37) Þetta þýðir að þú þarft að nota að meðaltali 12 klukkustundir í boðunarstarfinu í hverri viku. Passar ein tillagan á blaðsíðu 5 við stundaskrá þína? Ef ekki, geturðu þá samið stundaskrá sem gerir þér kleift að vera aðstoðarbrautryðjandi í mars, apríl eða maí? Biddu Jehóva að blessa viðleitni þína til að taka meiri þátt í starfinu. — Orðskv. 16:3.
11. Hvernig geta öldungar og safnaðarþjónar stutt við bakið á þeim sem ætla að vera aðstoðarbrautryðjendur?
11 Öldungar og safnaðarþjónar munu styðja þig ef þú ákveður að lofa Jehóva í enn ríkari mæli í kringum minningarhátíðina. Hugsanlega verða margir þeirra aðstoðarbrautryðjendur. Eftir því sem þörf krefur munu öldungarnir skipuleggja aukasamansafnanir seinni part dags, á kvöldin í miðri viku og um helgar. Þegar þeir ákveða hvar og hvenær eigi að halda samansafnanir geta þeir talað við þá sem ætla að vera aðstoðarbrautryðjendur eða eru að íhuga það. Þannig sjá þeir einnig hverjir geta stjórnað samansöfnunum. Þeir gætu reynt að skipuleggja samansafnanir þannig að þú fáir samstarf á þeim dögum og tímum sem þú hefur tekið frá fyrir starfið. Þá fá áform framgang og hægt er að koma ýmsu góðu til leiðar. — Orðskv. 20:18.
12. Hvað fær okkur til að lofa Jehóva öllum stundum?
12 Gerðu þitt besta: Ef aðstæður þínar gera þér ekki kleift að vera aðstoðarbrautryðjandi skaltu muna að Jehóva kann að meta það sem við leggjum á okkur og fórnirnar sem við færum. Í hans augum ‚er hver þóknanlegur með það sem hann á til og hann fer ekki fram á það sem hann á ekki til‘. (2. Kor. 8:12) Við eigum Jehóva svo margt að þakka. Davíð hafði góða ástæðu til að skrifa: „Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni.“ (Sálm. 34:2) Þetta ætti að vera ásetningur okkar vikurnar í kringum minningarhátíðina.
[Rammi á blaðsíðu 3]
Hvernig getur þú tekið meiri þátt í boðunarstarfinu?
◼ Farðu í boðunarstarfið þegar fólk er heima.
◼ Prédikaðu á almannafæri.
◼ Vitnaðu í vinnunni eða skólanum.
◼ Notaðu símann.
◼ Taktu þátt í aðstoðarbrautryðjandastarfinu.