Að finna sér tíma fyrir nám og lestur
1 Margir kvarta undan annríki og tímaskorti. Sagt hefur verið að tíminn sé bæði það mikilvægasta og hverfulasta sem við eigum. Hvernig getum við þá haft tíma til að sinna því sem máli skiptir eins og að lesa og ígrunda orð Guðs? — Fil. 1:10.
2 Lykillinn er ekki fólginn í því að finna sér tíma heldur að ákveða hvað við viljum gera við þann tíma sem við höfum. Öll höfum við 168 klukkustundir á viku til umráða og af því fara kannski um 100 klukkustundir í vinnu og svefn. Hvernig getum við nýtt sem best þann tíma sem eftir er? Efesusbréfið 5:15-17 hvetur okkur: „Breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir. Notið hverja stund . . . reynið að skilja, hver sé vilji [Jehóva].“ Þetta gefur til kynna að við verðum að nota til fulls hvert tækifæri, sem við fáum, til að gera það sem Jehóva segir að skipti máli.
3 Jesús líkti okkar dögum við daga Nóa. (Lúk. 17:26, 27) Fólk á þeim tíma var upptekið við hið daglega amstur lífsins. En Nói gaf sér tíma til að smíða gríðarstóra örk og til að prédika. (Hebr. 11:7; 2. Pét. 2:5) Hvernig fór hann að því? Með því að láta vilja Guðs ganga fyrir og gera allt „eins og Guð bauð honum.“ — 1. Mós. 6:22.
4 Hvað ætti að hafa forgang? Jesús sagði: „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.“ (Matt. 4:4) Í hverri viku fáum við skammt af andlegri fæðu „á réttum tíma.“ (Lúk. 12:42) Við verðum að stunda reglulegt einkanám og biblíulestur til að ná að melta alla andlegu fæðuna og hafa gagn af henni. Ef við erum þakklát fyrir það sem við fáum lítum við ekki á það sem eins konar skyndibitamat, sem við borðum á hlaupum, heldur gefum við okkur tíma til að lesa það vandlega og njóta þess.
5 Að lesa og tileinka sér andlegu fæðuna getur leitt til eilífs lífs. (Jóh. 17:3) Það ætti að hafa forgang í daglegu lífi okkar. Getum við gefið okkur tíma til að lesa í Biblíunni á hverjum degi og undirbúa okkur fyrir samkomur? Já, við getum það. Að þekkja Guð og gera hans vilja hefur „mikil laun í för með sér.“ — Sálm. 19:8-12.