Hvað lætur þú ganga fyrir?
1 Mörg trúfélög leggja áherslu á góðgerðastarfsemi eins og það að fjármagna byggingu skóla eða spítala. Vottar Jehóva gleyma ekki „velgjörðarseminni og hjálpseminni“ en fyrst og fremst láta þeir sér annt um andlegar þarfir fólks. — Hebr. 13:16.
2 Fyrirmyndir frá fyrstu öldinni: Á meðan Jesús þjónaði hér á jörðinni gerði hann mörg góðverk, en aðalstarf hans var að bera sannleikanum vitni. (Lúk. 4:43; Jóh. 18:37; Post. 10:38) Hann gaf fylgjendum sínum fyrirmæli um að ‚fara og gera allar þjóðir að lærisveinum og kenna þeim.‘ (Matt. 28:19, 20) Hann benti einnig á að þeir sem iðkuðu trú á hann ættu eftir að vinna meiri verk en hann í boðunarstarfinu sem hann kom af stað. (Jóh. 14:12) Jesús setti boðunarstarfið í fyrsta sæti vegna þess að það hjálpar fólki að þekkja veginn til hjálpræðis. — Jóh. 17:3.
3 Páll postuli leit á boðunarstarfið sem „skyldukvöð“ — kröfu sem hann gat ekki skotið sér undan. (1. Kor. 9:16, 17) Ef hann þurfti að færa fórnir eða þola ofsóknir og erfiðleika til að fullna þjónustu sína, þá var hann fús til þess. (Post. 20:22-24) Pétur postuli og félagar hans sýndu sama viðhorf. Þótt þeir ættu fangavist og barsmíðar yfir höfði sér „létu þeir eigi af að kenna dag hvern . . . og boða fagnaðarerindið um, að Jesús sé Kristur.“ — Post. 5:40-42.
4 Hvað um okkur? Lítum við svo á að prédikun fagnaðarerindisins og það að gera fólk að lærisveinum sé mikilvægara en nokkuð annað? Berum við, líkt og Jesús, umhyggju fyrir þeim sem eru „hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa“? (Matt. 9:36) Framvinda heimsmála og spádómar Biblíunnar sýna greinilega fram á að tími þessa illa heimskerfis er brátt á enda. Ef við höfum mikilvægi boðunarstarfsins efst í huga fær það okkur til að halda áfram að prédika af krafti.
5 Endurskoðaðu aðstæður þínar: Aðstæður manna breytast sífellt. Það er því gott að íhuga öðru hverju hvort við getum skapað okkur tækifæri til að verja meiri tíma til boðunarstarfsins. Systir ein hafði verið reglulegur brautryðjandi á sjötta, sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, en þurfti svo að hætta vegna slæmrar heilsu. En með tímanum skánaði heilsan. Nýlega endurskoðaði hún aðstæður sínar og komst að þeirri niðurstöðu að hún gæti byrjað aftur sem brautryðjandi. Hugsaðu þér gleði hennar að geta sótt Brautryðjandaskólann 90 ára að aldri! Hvað með þig? Ertu farinn að nálgast eftirlaunaaldurinn eða útskrifast þú bráðum úr skóla? Gætirðu gerst brautryðjandi vegna þess að aðstæður þínar hafa breyst?
6 Jesús tók eftir því að Marta „lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu“ og minnti hana því á að hún uppskæri meiri blessun ef hún einfaldaði hlutina. (Lúk. 10:40-42) Getur þú einfaldað líf þitt? Þurfið þið hjónin bæði að vinna úti? Getur fjölskyldan lifað á tekjum annars ykkar ef þið gerið einhverjar breytingar? Margir hafa hlotið andlega blessun af því að hagræða lífi sínu til að geta aukið þátttöku sína í boðunarstarfinu.
7 Við skulum því öll fylgja fordæmi Jesú og postulanna. Við getum verið viss um að Jehóva blessar einlæga viðleitni okkar til að gera allt sem við getum í því lífsnauðsynlega starfi að boða fagnaðarerindið um Guðsríki. — Lúk. 9:57-62.