Áhlaup riddaraliðs sem snertir þig
1, 2. Hvernig snertir uppfylling spádómssýnarinnar, sem skráð er í Opinberunarbókinni 9:13-19, þjóna Guðs?
1 „Sjötti engillinn básúnaði.“ Þá komu eins og þrumugnýr ‚herfylkingar riddaraliðsins‘ sem voru „tveim sinnum tíu þúsundir tíu þúsunda“ að tölu. Þetta er ekki neinn venjulegur her. „Höfuð hestanna [eru] eins og höfuð ljóna.“ Eldur, reykur og brennisteinn gengur út af munnum þeirra og „tögl þeirra eru lík höggormum“. Þetta táknræna áhlaup riddaraliðsins hefur í för með sér eyðingu. (Opinb. 9:13-19) Veistu hvernig uppfylling þessarar mikilfenglegu spádómssýnar snertir þig?
2 Andasmurðu leifarnar og félagar þeirra, aðrir sauðir, eru einhuga um að gera kunnan dóm Guðs. Þetta leiðir til þess að það er flett ofan af kristna heiminum og í ljós kemur að hann er andlega dauður. Við ætlum að líta nánar á tvo þætti spádómssýnarinnar sem varpa ljósi á hvers vegna boðunarstarf þjóna Guðs er svo árangursríkt.
3. Hvaða kennslu og þjálfun hefur þú fengið í að prédika boðskap Guðs?
3 Uppfrædd og undirbúin til að prédika boðskap Guðs: Í Boðunarskólanum og á öðrum safnaðarsamkomum fá boðberar Guðs kennslu og þjálfun í að tala með djörfung um boðskap hans. Þeir feta í fótspor Jesú og lærisveina hans og leita að verðugum og prédika fyrir þeim hvar sem fólk er að finna. (Matt. 10:11; Mark. 1:16; Lúk. 4:15; Post. 20:18-20) Þessi aðferð, sem er grundvölluð á Biblíunni, hefur reynst mjög árangursrík.
4. Hvaða hjálpargögn geta margir boðberar fengið sem auðvelda þeim að inna starf sitt af hendi?
4 Kristnir boðberar hafa dreift biblíum, bókum, bæklingum og öðrum ritum í milljarðatali í boðunarstarfinu sem Guð hefur falið þeim. Þessi rit hafa verið gefin út á um 400 tungumálum og fjalla um fjölbreytt efni og eru þannig úr garði gerð að þau höfða til margs konar fólks. Notar þú þessi rit á áhrifaríkan hátt?
5, 6. Hvað bendir til þess að fólk Jehóva fái stuðning frá honum?
5 Leiðbeiningar og stuðningur frá Guði: Spádómssýnin leiðir einnig greinilega í ljós að Guð stendur að baki því sem hið táknræna áhlaup riddaraliðsins áorkar. (Opinb. 9:13-15) Boðunarstarfið út um allan heim er unnið fyrir atbeina anda Guðs en ekki mannlegrar visku né kraftar. (Sak. 4:6) Jehóva notar englana til að stjórna þessu verki. (Opinb. 14:6) Á þann hátt veitir hann himneskan stuðning, ásamt viðleitni mennskra votta sinna, til þess að draga til sín auðmjúkt fólk. — Jóh. 6:45, 65.
6 Fólk Jehóva er óstöðvandi þar sem það er þjálfað og vel undirbúið til að flytja boðskap hans og starfar undir leiðsögn engla. Við skulum halda áfram að leggja okkar af mörkum eftir því sem þessi spennandi spádómssýn rætist.