Ný svæðismótsdagskrá
Hvernig er hægt að standa stöðugur gegn hörðum andstæðingum sannrar tilbeiðslu? Hvernig má sigra þau öfl sem reyna sífellt að draga okkur aftur út í þennan guðlausa heim? Þessum mikilvægu spurningum verður svarað á svæðismótinu fyrir þjónustuárið 2009. Stefið er „Sigra þú illt með góðu“. (Rómv. 12:21) Lítum nánar á dagskrána.
Umdæmishirðirinn flytur ræðurnar „Fáum styrk til að sigra illt með góðu“, „Treystu ekki um of á sjálfan þig“, „Öll illska er brátt á enda“ og „Styrkjum trúna svo að við getum sigrað heiminn“. Farandhirðirinn fjallar um efnið „Það er mikilvægt að halda vöku sinni núna“, byggt á Rómverjabréfinu 13:11-13, og „Látum ekki hugfallast á degi neyðarinnar“, byggt á Orðskviðunum 24:10. Við hlökkum líka til þess að heyra hann fjalla um efnið „Hugað að þörfum farandsvæðisins“. Annar mjög áhugaverður dagskrárliður verður ræðan „Geturðu gegnt þjónustunni sem brautryðjandi?“ Fyrri ræðusyrpan af tveimur nefnist „Stöndumst vélabrögð djöfulsins“. Hún hjálpar okkur að koma auga á og forðast lúmsk brögð Satans á sviði tækni, afþreyingar og menntunar. Ræðusyrpan „Fáum styrk til að standast á þessum ‚vonda degi‘“ kennir okkur að fara betur eftir innblásnu ráðunum í Efesusbréfinu 6:10-18.
Það er beint samband milli þess að boða fagnaðarerindið um ríkið og sigra hið illa og frumkvöðul þess. (Opinb. 12:17) Það er ekki að furða að Satan skuli gera linnulausar árásir á votta Jehóva. (Jes. 43:10, 12) En honum mun mistakast hrapallega því að við erum staðráðin í að sigra illt með góðu. Gerum ráðstafanir til að njóta góðs af öllu mótinu frá upphafi til enda.