Sérstakur dagur til að bjóða biblíunámskeið
1 Frá og með janúar næstkomandi ætti hver söfnuður að nota eina helgi í hverjum mánuði, kannski þá fyrstu, til að einbeita sér að því að bjóða biblíunámskeið. Til greina kemur annaðhvort laugardagur eða sunnudagur eftir því hvor dagurinn hentar betur fyrir svæðið. Ef húsráðendur afþakka boðið geta boðberar samt boðið bókina Hvað kennir Biblían? eða nýjustu blöðin. Allir öldungar og safnaðarþjónar ættu að gera ráðstafanir til að taka eins mikinn þátt í þessu starfi og þeir geta og aðstoða boðbera við að hefja námskeið.
2 Starfsnefnd safnaðarins ákveður hvaða helgi verður notuð til þess að bjóða biblíunámskeið. Það ætti að minna á hana við og við svo að boðberar geti undirbúið sig og lagt sig sérstaklega fram um að bjóða námskeið hús úr húsi og þegar þeir heimsækja þá sem áður hafa sýnt áhuga.
3 Undirbúningur: Við getum séð tillögur um hvernig megi hefja biblíunámskeið í viðauka Ríkisþjónustu okkar í janúar 2006 og í bæklingnum Hvernig hefja má biblíusamræður og halda þeim áfram, bls. 5. Einhverjir vilja kannski nota smárit eins og Viltu vita svörin? Í Ríkisþjónustu okkar í ágúst 2007, bls. 3, eru uppástungur um hvernig hefja megi námskeið þegar við heimsækjum þá sem þáðu ritin. Öldungum og safnaðarþjónum verður úthlutað að stjórna stuttum 10–15 mínútna samansöfnunum fyrir boðunarstarfið. Þar verða ræddar eða sýndar ein eða tvær tillögur um hvernig hægt er að hefja námskeið.
4 Að sjálfsögðu þiggja ekki allir biblíunámskeið né halda náminu áfram til lengdar. Það ætti ekki að halda aftur af okkur þar sem það er Jehóva sem dregur auðmjúka menn til safnaðar síns. (Jóh. 6:44) Ábyrgð okkar felst ekki aðeins í því að sá sannleiksfræjum heldur einnig að hlúa að þeim og vökva þau sem hafa fest rætur. Það felur í sér að aðstoða fólk með rétt hugarfar við að kynnast Biblíunni. Þá erum við samverkamenn Guðs. — 1. Kor. 3:9.