12. hluti: Árangursrík biblíunámskeið
Hjálpaðu nemandanum að hefja og halda biblíunámskeið
1 Þegar biblíunemendur okkar fara að taka þátt í boðunarstarfinu gæti það vaxið þeim í augum að stofna og halda sín eigin biblíunámskeið. Hvernig getum við stuðlað að því að þeir séu jákvæðir gagnvart þessum mikilvæga þætti þjónustunnar? — Matt. 24:14; 28:19, 20.
2 Þegar biblíunemandi er orðinn hæfur til að verða óskírður boðberi er hann líklega farinn að taka þátt í Boðunarskólanum. Þjálfunin, sem hann hlýtur þegar hann undirbýr og flytur nemendaverkefni, hjálpar honum að verða fær í að kenna öðrum. Þannig getur hann orðið „verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans“. — 2. Tím. 2:15.
3 Kenndu með fordæmi þínu: Jesús kenndi lærisveinum sínum með því að gefa þeim skýrar leiðbeiningar og setja þeim gott fordæmi. Hann sagði: „Hver sem er fullnuma, verður eins og meistari hans.“ (Lúk. 6:40) Það er mjög mikilvægt að þú líkir eftir Jesú með því að setja sjálfur gott fordæmi í boðunarstarfinu. Þegar nemandinn fylgist með þér í starfinu skilur hann að markmiðið með endurheimsóknum er að hefja biblíunámskeið.
4 Útskýrðu fyrir nemandanum að þegar við bjóðum fólki biblíunámskeið er venjulega ekki nauðsynlegt að lýsa fyrirkomulagi þess í smáatriðum. Oft er best að sýna hvernig námskeiðið fer fram með því að nota eina eða tvær greinar úr námsefninu. Finna má gagnlegar tillögur um þetta á bls. 8 í þessu tölublaði Ríkisþjónustu okkar og í janúar 2002 á bls. 6. Bentu nemandanum á að hann megi skrá biblíunámskeið í starfsskýrsluna þegar það hefur verið haldið í tvö skipti eftir að hann sýndi námsaðferðina og ástæða er að ætla að það muni halda áfram.
5 Eftir því sem við á getur þú boðið nemandanum að koma með þér eða öðrum reyndum boðbera til biblíunemanda. Hann gæti komið með athugasemdir í tengslum við ákveðna grein eða lykilritningarstað. Með því að fylgjast með getur nemandinn lært mikið um það hvernig halda eigi árangursrík biblíunámskeið. (Orðskv. 27:17; 2. Tím. 2:2) Hrósaðu honum og ræddu við hann um hvernig hann getur tekið framförum.
6 Þegar nýir boðberar fá þjálfun í að kenna orð Guðs verða þeir færir um að sinna því mikilvæga starfi að hefja og halda biblíunámskeið. (2. Tím. 3:17) Það er ánægjulegt að starfa með þeim að því að bjóða öðrum „ókeypis lífsins vatn“. — Opinb. 22:17.