Geymið
Árangursrík biblíunámskeið
Þessi viðauki er samantekt helstu atriða úr greinaröðinni um árangursrík biblíunámskeið í Ríkisþjónustu okkar. Allir eru hvattir til að geyma þennan viðauka og hafa hann til hliðsjónar þegar þeir halda biblíunámskeið. Auk þess má nota atriði úr honum í samansöfnunum og starfshirðar geta notað hann sem grunn að ræðum sem þeir flytja þegar þeir heimsækja bóknámshópana.
1. hluti: Hvað er biblíunámskeið?
Ef þú talar um biblíuleg málefni við einhvern á reglulegum grundvelli, þó ekki sé nema stutta stund í senn, og notar Biblíuna ásamt námsriti ertu að halda biblíunámskeið. Skrá má námskeiðið á starfsskýrsluna ef það hefur verið haldið í tvö skipti og ástæða er til að ætla að það muni halda áfram. — km 7.04 bls. 1.
Rit sem mælt er með að nota
◼ Hvers krefst Guð af okkur?
◼ Þekking sem leiðir til eilífs lífs
◼ Sameinuð í tilbeiðslu á hinum eina sanna Guði
2. hluti: Undirbúningur fyrir námskeiðið
Við þurfum að setja efnið fram á þann hátt að það nái til hjarta nemandans. Það þýðir að við verðum að undirbúa okkur vel með þennan ákveðna nemanda í huga. — km 8.04 bls. 1.
Hvernig á að undirbúa sig?
◼ Skoðaðu stuttlega heiti kaflans, millifyrirsagnir og myndir.
◼ Finndu svörin við spurningunum og merktu aðeins við lykilorð og –orðasambönd.
◼ Finndu ritningastaði úr námsritinu sem þú vilt lesa með nemandanum. Skrifaðu minnispunkta á spássíu námsritsins.
◼ Undirbúðu stutta upprifjun á aðalatriðunum.
Lagaðu efnið að þörfum nemandans
◼ Biddu til Jehóva og hafðu nemandann og þarfir hans í huga.
◼ Reyndu að sjá fyrir hvað hann gæti átt erfitt með að skilja eða meðtaka.
◼ Hugleiddu: Hvað þarf hann að skilja eða gera til að byggja upp trú sína? Hvernig get ég náð til hjarta hans?
◼ Hugsaðu upp líkingu, útskýrðu málið nánar eða undirbúðu spurningar ef þess er þörf til að hjálpa nemandanum að skilja betur ritningastað eða eitthvert ákveðið atriði.
3. hluti: Notum Biblíuna á áhrifaríkan hátt
Markmiðið með biblíunámskeiðum er að gera menn að lærisveinum. Það gerum við með því að hjálpa þeim að viðurkenna og skilja kenningar í orði Guðs og fara síðan eftir þeim. (Matt. 28:19, 20; 1. Þess. 2:13) Biblían ætti því að vera þungamiðjan í kennslu okkar. — km 11.04 bls. 4.
Kennum frá orði Guðs
◼ Hjálpaðu nemandanum að finna ákveðna ritningastaði í sinni eigin biblíu.
◼ Lestu og ræddu um ritningastaðina sem sýna fram á að trú okkar er byggð á Biblíunni.
◼ Notaðu spurningar. Í stað þess að útskýra ritningastaðina fyrir nemandanum skaltu láta hann útskýra þá fyrir þér.
◼ Hafðu kennsluna einfalda. Reyndu ekki að útskýra allar hliðar á hverjum einasta ritningastað í námsefninu. Veittu aðeins upplýsingar sem leggja áherslu á það sem er til umfjöllunar.
◼ Heimfærðu efnið. Leiddu nemandanum fyrir sjónir hvernig ritningastaðir eiga við hann persónulega.
4. hluti: Kennum nemendum að undirbúa sig
Nemandi tekur skjótum framförum í trúnni ef hann les námsefnið fyrir fram, strikar undir svörin og hugsar um hvernig hann geti svarað með eigin orðum. Þegar reglulegu biblíunámskeiði hefur verið komið af stað getur verið gott að fara með nemandanum yfir efnið fyrir næstu námsstund til þess að sýna honum hvernig hann geti undirbúið sig. Flestir nemendur hafa gagn af því að farið sé yfir heilan kafla sameiginlega. — km 12.04 bls. 1.
Athugasemdir og undirstrikun
◼ Útskýrðu hvernig hægt sé að finna bein svör við spurningunum.
◼ Sýndu nemandanum að þú hefur eingöngu merkt við lykilorð og -setningar í þínu námsriti.
◼ Leiddu honum fyrir sjónir að sérhver biblíutilvísun styður atriði sem kemur fram í efnisgreininni. Sýndu honum hvernig hægt er að gera stuttar athugasemdir á spássíu námsritsins.
Yfirlit og upprifjun
◼ Bentu nemandanum á að skoða stuttlega kaflaheitið, millifyrirsagnirnar og myndirnar áður en hann fer að undirbúa námsefnið ítarlega.
◼ Hvettu hann til að renna stuttlega yfir aðalatriði efnisins áður en hann lýkur við undirbúninginn.
5. hluti: Hvað á að fara yfir mikið efni í hverri námsstund?
Það fer töluvert eftir getu og aðstæðum kennarans og nemandans á hvaða hraða sé best að fara yfir námsefnið. — km 1.05 bls. 1.
Byggðu upp sterka trú
◼ Það skiptir meira máli að nemandinn skilji efnið vel en að hann komist yfir það á sem skemmstum tíma.
◼ Notaðu þann tíma sem þarf til að hjálpa honum að skilja og taka við því sem hann lærir af orði Guðs.
◼ Gefðu þér nægan tíma til að ræða um helstu ritningastaðina sem kennslan byggist á.
Farðu ekki út af sporinu
◼ Ef nemandanum hættir til að tala of mikið um persónuleg mál gætum við þurft að sjá til þess að það sé gert eftir námsstundina.
◼ Talaðu ekki of mikið í námsstundinni. Takmarkaðu viðbótarefni eða frásögur þannig að það komi ekki í veg fyrir að nemandinn fái nákvæma þekkingu á grundvallarkenningum Biblíunnar.
6. hluti: Þegar nemandi spyr spurninga
Þegar búið er að koma biblíunámskeiði af stað er yfirleitt betra að fara skipulega yfir efnið en að flakka milli efnisatriða. Það hjálpar nemandanum að öðlast nákvæma þekkingu og taka framförum í trúnni. — km 2.05 bls. 6.
Vertu skarpskyggn
◼ Spurningum, sem vakna og tengjast efninu, er yfirleitt hægt að svara um leið og þær koma upp.
◼ Ef spurningin tengist ekki námsefninu eða krefst rannsóknar er ef til vill betra að ræða málið við annað tækifæri. Það gæti verið gott að skrifa spurninguna niður.
◼ Ef nemandinn á erfitt með að viðurkenna ákveðna kenningu getur verið gagnlegt að taka fyrir aukaefni sem fjallar ítarlega um málið.
◼ Ef nemandinn lætur samt ekki sannfærast er gott að geyma spurninguna til betri tíma og halda áfram með námsefnið.
Vertu hæverskur
◼ Ef þú ert ekki með svar við spurningu á reiðum höndum skaltu ekki láta freistast til að giska á það.
◼ Sýndu nemandanum smám saman hvernig hann getur sjálfur leitað svara.
7. hluti: Bænir fluttar á biblíunámskeiði
Til þess að biblíunemandi taki andlegum framförum er nauðsynlegt fyrir hann að fá blessun Jehóva. Það er því rétt að fara með bæn í upphafi og lok námsstundar. — km 3.05 bls. 4.
Hvenær ætti að byrja að fara með bæn?
◼ Ef fólk er trúað er oft hægt að fara með bæn í fyrstu kennslustund.
◼ Í öðrum tilfellum gætum við þurft að vera vakandi fyrir því hvenær heppilegt sé að fara með bæn í fyrsta sinn.
◼ Hægt er að vitna í Sálm 25:4, 5 og í 1. Jóhannesarbréf 5:14 til þess að útskýra hvers vegna við förum með bænir.
◼ Hægt er að vitna í Jóhannes 15:16 til að útskýra hve mikilvægt sé að biðja til Jehóva fyrir milligöngu Jesú Krists.
Bænarefnið
◼ Það er viðeigandi að lofa Jehóva sem fræðara okkar.
◼ Við getum minnst á hve einlægan áhuga við höfum á nemandanum.
◼ Við getum minnst á hve þakklát við erum fyrir söfnuðinn sem Jehóva notar.
◼ Biddu Jehóva að blessa viðleitni nemandans til að fara eftir því sem hann lærir.
8. hluti: Að leiða biblíunemandann til safnaðarins
Markmiðið með biblíunámskeiðum er ekki aðeins að veita fræðilegar upplýsingar heldur einnig að leiða nemandann til kristna safnaðarins. Taktu þér fáeinar mínútur í hverri námsstund til að segja frá einhverju um söfnuð Jehóva. — km 4.05 bls. 8.
Safnaðarsamkomur
◼ Lýstu hverri safnaðarsamkomu fyrir sig. Bjóddu nemandanum á samkomu strax í fyrstu biblíunámsstund.
◼ Segðu honum frá athyglisverðum upplýsingum sem komu fram á samkomunum.
◼ Vektu áhuga hans á minningarhátiðinni, mótum og farandhirðisheimsóknum.
◼ Notaðu myndir í ritum okkar svo að hann geti séð fyrir sér hvernig þær fara fram.
◼ Hvettu biblíunemandann til að lesa bæklinginn Vottar Jehóva — Hverjir eru þeir? Hverju trúa þeir?
Notaðu myndbönd til að vekja þakklæti
◼ Jehovah’s Witnesses—The Organization Behind the Name
◼ Our Whole Association of Brothers
◼ United by Divine Teaching
◼ To the Ends of the Earth
9. hluti: Búðu nemandann undir að vitna óformlega
Þegar biblíunemendur taka trú á það sem þeir eru að læra finna þeir hjá sér sterka löngun til að tala um það. — km 5.05 bls. 1.
Hvettu nemandann til að vitna
◼ Gæti hann boðið vinum eða ættingjum að vera með á biblíunámskeiðinu?
◼ Hafa einhverjir vinnufélagar hans, skólafélagar eða aðrir kunningjar sýnt áhuga?
Þjálfaðu nemandann í því að segja öðrum frá trú sinni
◼ Spyrðu hann þegar komið er að ákveðnum efnisatriðum í námsstundinni: „Hvernig myndirðu nota Biblíuna til að útskýra þennan sannleika fyrir ættingjum þínum?“
◼ Gerðu honum grein fyrir því að það er nauðsynlegt að vera kurteis og vingjarnlegur þegar hann segir öðrum frá Jehóva Guði og fyrirætlunum hans.
◼ Bæklingurinn Vottar Jehóva — Hverjir eru þeir? Hverju trúa þeir? getur gert honum kleift að hjálpa vinum og ættingjum að skilja biblíulegar trúarskoðanir okkar og starf.
10. hluti: Þjálfaðu nemandann í boðunarstarfinu
Þegar öldungarnir telja biblíunemanda hæfan til að verða óskírður boðberi getur hann byrjað að taka þátt í boðunarstarfinu með söfnuðinum. — km 6.05 bls. 1.
Undirbúið ykkur saman
◼ Sýndu nýja boðberanum hvar hann getur fundið tillögur að kynningarorðum.
◼ Hjálpaðu honum að velja einföld kynningarorð sem henta á svæðinu.
◼ Hvettu hann til að nota Biblíuna í starfinu.
◼ Æfið ykkur saman. Sýndu honum hvernig hann getur brugðist háttvíslega við algengum viðbrögðum.
Farið saman út í starfið
◼ Leyfðu nemandanum að fylgjast með á meðan þú notar kynninguna sem þið undirbjugguð saman.
◼ Taktu mið af persónuleika og getu nemandans. Stundum gæti verið betra að fá hann til að fara einungis með hluta af kynningunni.
◼ Hjálpaðu nýja boðberanum að búa sér til fasta stundaskrá fyrir boðunarstarfið.
11. hluti: Nýjum boðberum hjálpað að fara í endurheimsóknir
Undirbúningur fyrir endurheimsókn hefst í fyrstu heimsókninni. Hvettu nemandann til að sýna viðmælendunum einlægan áhuga. Þjálfaðu hann smám saman í að fá þá til að tjá sig, hlusta á athugasemdir þeirra og taka eftir því sem þeim er umhugað um. — km 7.05 bls. 1.
Undirbúningur fyrir endurheimsókn
◼ Rifjaðu upp fyrstu heimsóknina og sýndu nemandanum hvernig farið er að því að velja efni sem höfðar til húsráðanda.
◼ Undirbúið saman stutta kynningu með ritningarstað ásamt efnisgrein í námsriti.
◼ Undirbúið saman spurningu sem hægt er að varpa fram í lok samræðnanna.
Fylgdu áhuganum dyggilega eftir
◼ Hvettu nemandann til að fara fljótt aftur til allra sem sýna áhuga.
◼ Bentu nemandanum á nauðsyn þess að halda áfram að reyna að hitta fólk sem er sjaldan heima.
◼ Kenndu nemandanum að ákveða tíma fyrir næstu heimsókn og brýndu fyrir honum hve nauðsynlegt sé að koma aftur eins og lofað var.
12. hluti: Hjálpaðu nemandanum að hefja og halda biblíunámskeið
Það er mjög mikilvægt að þú líkir eftir Jesú með því að setja sjálfur gott fordæmi í boðunarstarfinu. Þegar nemandinn fylgist með þér í starfinu skilur hann að markmiðið með endurheimsóknum er að hefja biblíunámskeið. — km 8.05 bls. 1.
Að bjóða biblíunámskeið
◼ Útskýrðu fyrir nemandanum að venjulega er ekki nauðsynlegt að lýsa fyrirkomulagi biblíunámskeiðsins í smáatriðum.
◼ Oft er best að sýna hvernig námskeiðið fer fram með því að nota eina eða tvær greinar úr námsefninu.
◼ Farið yfir og æfið eina af tillögunum um hvernig hefja megi biblíunámskeið. — km 8.05 bls. 8; km 1.02 bls. 6.
Að þjálfa nemandann til að verða kennari
◼ Hvettu hann til að skrá sig í Boðunarskólann.
◼ Leyfðu nýja boðberanum að koma með þér til annars biblíunemanda og taka einhvern þátt í kennslunni.