Boðunarstarfið hjálpar okkur að vera sterk í trúnni
1. Hvaða gagn höfum við af boðunarstarfinu?
1 Þegar við tökum virkan þátt í boðunarstarfinu styrkjumst við í trúnni og verðum hamingjusamari. En við gerum það auðvitað fyrst og fremst til að gleðja Jehóva. Með því að hlýða fyrirmælunum um að ‚prédika orðið‘ fáum við blessun hans og höfum auk þess mikið gagn af því sjálf. (2. Tím. 4:2; Jes. 48:17, 18) En hvernig getur boðunarstarfið styrkt okkur og aukið hamingju okkar?
2. Hvernig styrkir boðunarstarfið okkur?
2 Við styrkjumst og fáum blessun: Boðunarstarfið hjálpar okkur að einblína á blessanir Guðsríkis frekar en þau vandamál sem steðja að okkur nú á tímum. (2. Kor. 4:18) Þegar við segjum öðrum frá kenningum Biblíunnar styrkist trú okkar á loforð Jehóva og við fyllumst þakklæti fyrir að hafa kynnst sannleikanum. (Jes. 65:13, 14) Um leið og við hjálpum öðrum að taka framförum í trúnni svo að þeir haldi sér frá heiminum, styrkir það okkar eigin afstöðu um að vera „ekki af heiminum“. — Jóh. 17:14, 16; Rómv. 12:2.
3. Hvernig hjálpar boðunarstarfið okkur að þroska kristna eiginleika?
3 Þátttaka í boðunarstarfinu hjálpar okkur að þroska kristna eiginleika. Þegar við til dæmis leggjum okkur fram um að ‚vera öllum allt‘ temjum við okkur lítillæti. (1. Kor. 9:19-23) Þegar við tölum við þá sem eru „hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir er engan hirði hafa“ hljótum við að þroska með okkur samúð og hluttekningu. (Matt. 9:36) Við lærum að vera þolgóð þegar við höldum áfram þrátt fyrir áhugaleysi og andstöðu. Við verðum glaðari þegar við notum líf okkar til að hjálpa öðrum. — Post. 20:35.
4. Hvað finnst þér um boðunarstarfið?
4 Það er mikil blessun að geta tekið þátt í starfi sem lofar þann eina Guð sem er verður tilbeiðslu okkar. Boðunarstarfið styrkir okkur vissulega! Ef við leggjum okkur fram um að bera fagnaðarerindinu rækilega vitni munum við uppskera ríkulega blessun. — Post. 20:24.