Spurningakassinn
◼ Hverjir ættu að fylla út miða og senda beiðnir á Netinu?
Í ritum okkar er oft að finna miða sem hægt er að fylla út og senda til deildarskrifstofunnar með beiðni um að fá eintak af ákveðnu riti eða heimsókn af vottum Jehóva. Á heimasíðunni www.watchtower.org er einnig hægt að senda beiðni um biblíunámskeið. Þetta hefur hjálpað mörgum að kynnast sannleikanum. Hins vegar hafa komið upp vandamál þegar boðberar hafa notað þessar leiðir til að biðja um að ættingjar þeirra eða aðrir fái heimsókn eða rit.
Sumir sem hafa fengið send rit frá deildarskrifstofunni án þess að hafa beðið um þau hafa kvartað. Þeim finnst að verið sé að áreita sig og halda að þeir séu á einhvers konar póstlista hjá söfnuðinum. Boðberar hafa oft lent í óþægilegri aðstöðu þegar þeir hafa verið beðnir um að heimsækja einhvern sem ekki hefur sjálfur beðið um heimsókn og verður því pirraður. Þess vegna ættu boðberar ekki að senda beiðnir á heimasíðu okkar eða miðum fyrir hönd annarra heldur ætti beiðnin að koma frá einstaklingnum sjálfum. Þegar við tökum eftir að slíkar beiðnir eru sendar af einhverjum öðrum en viðkomandi er þeim vanalega ekki sinnt.
Hvernig getum við þá aðstoðað ættingja eða kunningja við að kynnast sannleikanum? Ef þú vilt að hann fái rit væri kannski ráð að þú sendir honum þau sjálfur að gjöf. Ef viðkomandi sýnir áhuga og óskar eftir að fá votta í heimsókn en þú veist ekki hvernig þú getur haft samband við öldungana í söfnuðinum þar sem hann býr ættirðu að fylla út eyðublaðið Vinsamlega fylgið eftir (S-43) og láta ritara safnaðar þíns fá það. Hann mun skoða það og senda áfram til deildarskrifstofunnar. Ef hinn áhugasami er hins vegar í fangelsi, á meðferðarstofnun eða á spítala ættirðu ekki að hafa samband við deildarskrifstofuna fyrir hans hönd. Þú ættir frekar að hvetja hann til að hafa samband við bræðurna sem heimsækja stofnunina eða benda honum á að skrifa deildarskrifstofunni sjálfur.