Haltu ekki aftur af þér – þótt þú finnir til minnimáttarkenndar
1. Hvers vegna veigra sumir sér við að bjóða biblíunámskeið?
1 Efast þú um að þú sért fær um að halda biblíunámskeið svo vel sé og veigrar þér þar af leiðandi við að bjóða það? Trúföstum mönnum eins og Móse og Jeremía fannst þeir stundum ekki ráða við þau verkefni sem þeim voru falin. (2. Mós. 3:10, 11; 4:10; Jer. 1:4-6) Minnimáttarkennd er því ekki óalgeng. En hvernig er hægt að sigrast á henni?
2. Hvers vegna ættum við ekki einskorða starf okkar við að ganga í hús og láta aðra sjá um að halda biblíunámskeið?
2 Við megum ekki gleyma því að Jehóva biður okkur aldrei um að gera meira en við ráðum við. (Sálm. 103:14) Verkefni okkar að gera fólk að lærisveinum og kenna því er því eitthvað sem við getum vel sinnt. (Matt. 28:19, 20) Það er ekki bara verkefni þeirra reyndustu og færustu á meðal okkar. (1. Kor. 1:26, 27) Við ættum því ekki að einskorða starf okkar við að ganga í hús og láta svo aðra sjá um að halda biblíunámskeið.
3. Hvernig gerir Jehóva okkur hæf til að halda biblíunámskeið?
3 Jehóva gerir okkur hæf til starfa: Hæfni okkar til að gera fólk að lærisveinum er frá Jehóva. (2. Kor. 3:5) Fyrir atbeina safnaðarins hefur hann kennt okkur mörg biblíusannindi sem jafnvel hámenntað fólk þessa heims þekkir ekki. (1. Kor. 2:7, 8) Hann hefur látið varðveita guðspjöllin handa okkur svo að við getum lært af kennslutækni Jesú, kennarans mikla. Og hann sér okkur fyrir stöðugri þjálfun fyrir milligöngu safnaðarins. Auk þess þurfum við ekki sjálf að semja námsrit til að nota við biblíukennsluna. Jehóva hefur séð okkur fyrir námsritum, eins og til dæmis bókinni Hvað kennir Biblían? en hún útskýrir sannleikann á rökréttan og auðskilinn hátt. Kannski er það auðveldara en við höldum að stýra biblíunámskeiði.
4. Hvers vegna getum við verið viss um að Jehóva hjálpi okkur?
4 Móse og Jeremía gátu gert verkefnum sínum góð skil með hjálp Jehóva. (2. Mós. 4:11, 12; Jer. 1:7, 8) Við getum líka beðið Jehóva um hjálp. Þegar við höldum biblíunámskeið erum við að kenna fólki sannleikann um hann og hann hefur velþóknun á því. (1. Jóh. 3:22) Settu þér því það markmið að halda biblíunámskeið sem er einn ánægjulegasti og umbunarríkasti þáttur þjónustunnar.