Hvað segir Biblían um hungursneyðir nú á dögum?
„Ekkert hungur“ var markmið þjóðarleiðtoga til að leysa eitt stærsta vandamál mannkynsins – að sjá öllum jarðarbúum fyrir fæðu.a En verður heimurinn einhvern tíma laus við hungur? Hvað segir Biblían?
Biblían sagði fyrir hungursneyðir á okkar tímum
Í Biblíunni er spáð að hungursneyðir myndu verða á okkar dögum, á tímabili sem kallast ‚síðustu dagar‘. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Það er ekki Guð sem ber ábyrgð á hungursneyðum en hann varaði við þeim. (Jakobsbréfið 1:13) Skoðum tvo spádóma í Biblíunni.
„Það verða hungursneyðir … á einum stað eftir annan.“ (Matteus 24:7) Þessi spádómur sagði fyrir að það yrðu víða hallæri. Í nýlegri frétt frá þeim sem rannsaka framleiðslu og dreifingu matvæla segir: Staðan í heiminum í sambandi við hungursneyðir, næringarskort og fæðuöryggi hefur versnað.b Hundruð milljóna manna í mörgum löndum skortir fæðu. Því miður dregur það marga til dauða.
„Ég sá svartan hest og sá sem sat á honum hélt á vogarskálum í hendinni.“ (Opinberunarbókin 6:5) Í þessum spádómi tákna hesturinn og sá sem á honum situr hungursneyðir á síðustu dögunum.c Vogarskálarnar í höndum reiðmannsins tákna hvernig þarf að skammta takmarka fæðu. (Opinberunarbókin 6:6) Þetta er nákvæm lýsing á alþjóðlegum fæðuvanda nú á dögum þegar milljarðar manna hafa ekki aðgang að eða efni á næringarríkum mat.
Hvernig verður bundinn endi á hungursneyðir?
Sérfræðingar segja að jörðin gefi af sér meiri fæðu en þarf til að brauðfæða alla jarðarbúa. Hvað er þá að? Og hvað segir Biblían að skapari okkar, Jehóva,d muni gera til að leysa þessi vandamál?
Vandmál: Ríkisstjórnir geta ekki útrýmt fátækt og ójöfnuði sem viðheldur hungri í heiminum.
Lausn: Fullkomin ríkisstjórn, Guðsríki, kemur í stað ófullkominna ríkisstjórna manna. (Daníel 2:44; Matteus 6:10) Nú á dögum á margt fátækt fólk í erfiðleikum með að kaupa mat en undir stjórn Guðsríkis verður breyting á því. Biblían segir um Jesú Krist, konung Guðsríkis: „Hann bjargar hinum fátæka sem hrópar á hjálp, hinum bágstadda og þeim sem enginn hjálpar … Gnóttir korns verða á jörðinni, jafnvel á fjallatindunum vex það í ríkum mæli.“ – Sálmur 72:12, 16.
Vandamál: Stríð hafa í för með sér eyðileggingu og efnahagslegan óstöðugleika sem gerir fólki erfitt fyrir að verða sér út um nauðsynlega fæðu.
Lausn: „[Jehóva] stöðvar stríð um alla jörð. Hann brýtur bogann, mölvar spjótið, brennir stríðsvagna í eldi.“ (Sálmur 46:9) Guð mun eyðileggja stríðsvopn og taka þá úr umferð sem standa á bak við stríð. Fyrir vikið munu allir búa við fæðuöryggi. Biblían lofar: ‚Hinn réttláti blómstrar og friðurinn verður allsráðandi‘. – Sálmur 72:7.
Vandamál: Öfgar í veðri og náttúruhamfarir eyðileggja uppskerur og drepa búfénað.
Lausn: Guð mun stjórna náttúruöflum jarðarinnar þannig að aðstæður verða góðar til matvælaframleiðslu. Biblían segir: „[Jehóva] stillir storminn og öldur hafsins lægir … Hann breytir eyðimörkinni í sefgrónar tjarnir og lætur uppsprettur myndast í þurru landi. Hann lætur hina hungruðu setjast þar að … Þeir sá í akra og planta víngarða sem gefa ríkulega uppskeru.“ – Sálmur 107:29, 35–37.
Vandamál: Gráðugir og spilltir menn framleiða óhollan mat eða koma í veg fyrir að matur komist til þeirra sem þurfa hann.
Lausn: Guðsríki mun losa mannkynið við alla sem eru óheiðarlegir og spilltir. (Sálmur 37:10, 11; Jesaja 61:8) Biblían lýsir Jehóva Guði þannig: „Hann sem tryggir þeim réttlæti sem hafa verið sviknir, hann sem gefur hungruðum brauð.“ – Sálmur 146:7.
Vandamál: Einum þriðja hluta matar er hent eða hann týnist á hverju ári.
Lausn: Í Guðsríki verður góð umsjón með matarbirgðum. Þegar Jesús var á jörðinni forðaðist hann matarsóun. Hann gaf til dæmis meira en 5.000 manns að borða fyrir kraftaverk. Síðar sagði hann lærisveinum sínum: „Safnið leifunum saman svo að ekkert fari til spillis.“ – Jóhannes 6:5–13.
Guðsríki mun uppræta það sem veldur hungri og fyrir vikið munu allir fá næga góða og holla fæðu. (Jesaja 25:6) Sjá greinina „Hvenær mun ríki Guðs fara með stjórn yfir jörðinni?“ til að sjá hvenær Guðsríki kemur þessu til leiðar.
a Sjálfbærnismarkmið sem öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samþykktu árið 2015 og gilda til ársins 2030.
b Sameiginleg skýrsla Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðasjóðs um þróun landbúnaðar, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
c Hægt er að lesa meira um riddarana fjóra í greininni „Riddararnir fjórir – hverjir eru þeir?“
d Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar. (Sálmur 83:18) Sjá greinina „Hver er Jehóva?“