BÝR HÖNNUN AÐ BAKI?
Bergmálsmiðun leðurblökunnar
Leðurblökur hafa að vísu sjón en flestar tegundir nota bergmálsmiðun til að skynja umhverfi sitt í næturmyrkri. Með henni skynja þær fjarlægð hlutar út frá því hversu fljótt hljóð bergmálar frá honum. Sumar leðurblökur geta greint á milli moskítóflugu og bjöllu út frá því hversu hratt skordýrið hreyfir vængina.
Hugleiddu þetta: Hjá flestum leðurblökum kemur hátíðnihljóð frá barkakýlinu út um munn eða nasir. Þær nota stór eyrun til að greina bergmálið þegar hljóðbylgjurnar endurkastast frá hlutum. Bergmálið gerir leðurblökunni kleift að draga upp þrívíddarmynd í heilanum af umhverfinu. Leðurblakan getur þannig reiknað út staðsetningu, hæð og fjarlægð hlutar, jafnvel í hóp annarra leðurblaka sem gefa líka frá sér hljóð.
Bergmálsmiðun leðurblökunnar þarf að vera gríðarlega nákvæm vegna þess að villa upp á eina millisekúndu (einn þúsundasta hluta úr sekúndu) gæti valdið því að leðurblakan missti marks um allt að 17 sentimetra. Sumir vísindamenn segja að nákvæmni upp á meira en eina millisekúndu „virðist ómöguleg“. Samt gefa rannsóknir til kynna að bergmálstími leðurblaka sé nákvæmur upp á 10 nanósekúndur (1/100.000.000 hluta úr sekúndu). Þetta gerir þeim kleift að ákvarða fjarlægð með millimetra nákvæmni eða jafnvel meiri.
Vísindamenn hafa þróað rafeindastaf með bergmálsmiðun til að auðvelda blindu fólki að sjá fyrir sér umhverfi sitt og forðast hindranir, þar á meðal þær sem eru í höfuðhæð, eins og trjágreinar. „Megininnblásturinn að þessu verki var stórmerkileg hæfni leðurblaka til að nota bergmálsmiðun,“ segja Brian Hoyle og Dean Waters, tveir af hönnuðum leðurblökustafsins svokallaða.
Hvað heldur þú? Þróaðist einstakur hæfileiki leðurblökunnar til að nota bergmálsmiðun? Eða býr hönnun að baki?