Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g86 8.1. bls. 28-29
  • „Helgu lindirnar“ á Írlandi

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • „Helgu lindirnar“ á Írlandi
  • Vaknið! – 1986
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Keltar
  • Frá drúídum til „kristni“
  • Hvað myndi þeim finnast?
  • Biblía Bedells
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2015
  • Guð, ríkið og þú
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1996
  • Hungursneyðin mikla á Írlandi — saga landflótta og dauða
    Vaknið! – 2003
Vaknið! – 1986
g86 8.1. bls. 28-29

„Helgu lindirnar“ á Írlandi

Eftir fréttaritara „Vaknið!“ á Írlandi

GAMLI maðurinn titraði örlítið. Hönd hans skalf þegar hann jós vatni í lófa sér upp úr brunninum og néri því á veikburða ökklann. Hann var kominn þangað, eins og margir aðrir, til að reyna að vinna gegn áhrifum ellinnar með því að leita lækningar í þessari „helgu lind.“

Lindin, sem er að finna á mómýrasvæði í Donegal, er ein af 3000 slíkum „helgum lindum“ á Írlandi. Leiðsögubók segir að pílagrímar komi til þessa staðar „vonglaðir og kátir og noti hið blessaða vatn sér til andlegrar betrunar.“ En þeir eru að sækjast eftir meiru. Bæklingurinn heldur áfram: „Í gegnum árin hafa óteljandi sögur verið sagðar af því hvernig fólk hafi læknast af alls konar meinum þar á staðnum, og hvernig farlama og fatlaðir pílagrímar hafa getað skilið eftir stafi sína, hækjur og umbúðir.“

Við efuðumst ekki um að pílagrímarnir væru bæði trúaðir og vongóðir, en það sem fyrir augu bar vakti upp ýmsar spurningar í hugum okkar. Hversu mikla „andlega betrun“ færir pílagrímsferð til „helgrar lindar“ fólki? Ef undraverðar lækningar hafa átt sér stað, voru þær frá Guði?

Þegar við horfðum á gamla manninn biðjast fyrir við lindina kom okkur einnig í hug hvort honum væri kunnugt að hann væri að gera hið sama og forfeður hans fyrir þúsundum ára. Trú á „helgar lindir“ er ævaforn á Írlandi og nær allt aftur í trú kelta fyrir daga kristninnar.

Keltar

Keltar komu til Írlands mörgum öldum fyrir fæðingu Jesú Krists. Þeir voru mjög trúhneigðir og þungamiðjan í guðsdýrkun þeirra var sú að ár, uppsprettur og lindir væru heilagar. Þeir trúðu að þar gætu þeir ákallað guði sína og gyðjur til að veita sér lækningu.

Anne Ross, virtur heimildarmaður um þetta efni, lýsir trú og trúarathöfnum kelta svo: „Prestarnir, drúídarnir, eru álitnir hafa framkvæmt trúarathafnir sínar og fært guðunum fórnir aðeins úti í náttúrunni, án nokkurra bygginga — til dæmis í trjálundum sem öðlast höfðu helgi vegna þess að þeir höfðu lengi verið tengdir guðunum, eða hjá helgum lindum, en álitið var að vatnið úr þeim væri búið sérstökum mætti og að í gegnum það væri hægt að komast í samband við verndarguðinn.“ — Everyday Life of the Pagan Celts, bls. 136.

Við gátum séð fyrir okkur þessa heiðnu kelta samankomna á slíkum stað til að leita hylli guða sinna. En fólkið, sem við sáum núna, áleit sig kristið. Hvað var það að gera þarna?

Frá drúídum til „kristni“

Í upphafi reyndu yfirvöld hinnar frumkaþólsku kirkju á Írlandi mjög að uppræta þessa gömlu, heiðnu trú. Síðar breyttu þau um aðferð. Anne Ross segir: „Síðar, undir umsjón hinnar kristnu kirkju, véku þessir guðir staðarins fyrir dýrlingum staðarins sem oft báru sama nafn og hinir heiðnu forverar; og dýrkun lindanna hélt áfram eins og ekkert hefði í skorist.“

Annar kunnur rithöfundur bætir við um írskar erfðavenjur: „Margar þessara hjátrúarhugmynda eiga sér svo djúpar rætur að margra alda barátta hinnar kristnu kirkju hefur ekki megnað að bæla þær niður, og jafnvel þótt hún hafi hrakið sumar þessara iðkana í felur hefur hún neyðst til að taka aðrar undir verndarvæng sinn. Það á til dæmis við um dýrkun hinna helgu linda.“ —Irish Heritage eftir E. Estyn Evans, bls. 163.

Því fór svo að lokum að kaþólska kirkjan innlimaði þessa fornu hjátrú. Anne Ross segir: „Þjóðtrúin lifði og hinir gömlu guðir og gyðjur, sem nú voru kannski dýrkaðir í laumi eða aðeins minnst í sögum sem sagðar voru við arininn, breyttust fyrir tilverknað [nú] skilningsríkrar írskrar kirkju í afreksmenn og kvenhetjur og djöfla dalanna og loftsins, og með þessum smávægilegu breytingum var þjóðtrúnni haldið við.“ —Pagan Celtic Britain eftir Anne Ross, bls. 384.

Hvað myndi þeim finnast?

Við veltum því fyrir okkur hvað þessum pílagrímum nútímans myndi finnast um allt þetta. Myndu þeir vera steini lostnir yfir heiðnum uppruna þess sem þeir voru að gera? Myndu þessir einlægu pílagrímar, sem skildu eftir peninga eða aðrar fórnir í brunninum eða í námunda við hann, verða furðu lostnir að uppgötva að þeir skyldu vera að líkja eftir hinni fornu iðkun að skilja eftir áheitafórnir til hinna keltnesku guða?

Hvað um tvær miðaldra konur sem höfðu ferðast tæplega hundrað kílómetra leið til þessa staðar — ferðalag sem þær höfðu lagt á sig margsinnis í gegnum tíðina? Þegar þær gengu réttsælis í kringum brunninn um leið og þær báðu bæna sinna, var þeim þá ljóst að þær voru að líkja eftir því sem keltneskir ættfeður þeirra höfðu gert í margar aldir fyrir fæðingu Krists? Og móðirin með litla barnið sem við sáum spölkorn frá lindinni biðja bæna sinna um leið og hún gekk í kringum gamlan þyrnirunn sem var þakinn flíkum, sárabindum og öðrum minjagripum um fyrri óskir annarra pílagríma — vissi hún að þyrnirunnurinn var heilagur í augum hinna heiðnu kelta?

Rithöfundurinn Patrick Logan segir að slíkar lindir „geymi oft merki um trúarskoðanir og -athafnir frá því fyrir daga kristninnar, og stundum er hið kristna yfirbragð gagnsætt.“ (The Holy Wells of Ireland, bls. 62) En sú spurning vaknar hvort það skipti máli. Eins og einn pílagrímanna sagði við okkur með sínum aðlaðandi írska málhreim: „Ég hef komið hingað í mörg ár og ekki haft illt af!“

Ef enginn skaði er að slíku, hvers vegna reyndi kirkjan í fyrstu að uppræta þennan sið? Kannski þekktu leiðtogar kirkjunnar á þeim tíma orð Jeremía sem hann mælti um trúarathafnir hinna heiðnu þjóða umhverfis Ísrael: „Venjið yður ekki á sið heiðingjanna.“ — Jeremía 10:2.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila