Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w15 1.11. bls. 11-13
  • Biblía Bedells

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Biblía Bedells
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2015
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ÍRSKAN MÆTIR ANDSTÖÐU
  • ÞÝÐINGARSTÖRF BEDELLS
  • GEFIN ÚT SEINT UM SÍÐIR
  • EITT LÍTIÐ EN MIKILVÆGT SKREF FRAM Á VIÐ
  • Hungursneyðin mikla á Írlandi — saga landflótta og dauða
    Vaknið! – 2003
  • Kol — brennandi deiluefni í fortíðinni
    Vaknið! – 1985
  • Horft á heiminn
    Vaknið! – 2011
  • „Helgu lindirnar“ á Írlandi
    Vaknið! – 1986
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2015
w15 1.11. bls. 11-13
Síða úr biblíu Bedells þar sem nafn Jehóva er auðkennt með upplýstum fleti.

Biblía Bedells – eitt lítið skref til betri skilnings á Biblíunni

ENSKI presturinn William Bedell hélt til Írlands árið 1627. Þegar þangað kom blasti við honum undarleg staða. Írar voru flestir kaþólskrar trúar en voru undir yfirráðum Breta sem voru mótmælendur. Siðbótarmenn mótmælenda voru búnir að þýða Biblíuna á margar þjóðtungur Evrópu en enginn virtist hafa áhuga á að þýða hana á írsku.

Bedell var eindregið þeirrar skoðunar að Írar „ættu ekki að sitja á hakanum þótt þeir kynnu ekki ensku“. Hann setti sér því það markmið að koma Biblíunni út á írsku. En framtak hans mætti heiftarlegri andstöðu, einkum af hendi mótmælenda. Hver var ástæðan?

ÍRSKAN MÆTIR ANDSTÖÐU

William Bedell

Bedell tók sér fyrir hendur að læra írsku. Þegar hann varð forstöðumaður Trinity-háskólans í Dyflinni hvatti hann stúdenta til að tala írsku og sömuleiðis eftir að hann var skipaður biskup í Kilmore. Þegar Elísabet fyrsta Englandsdrottning stofnaði Trinity-háskólann var markmiðið reyndar að mennta presta sem gætu kennt þegnum hennar boðskap Biblíunnar á móðurmálinu. Bedell reyndi að hrinda því í framkvæmd.

Langflestir sem tilheyrðu Kilmore-biskupsdæminu voru írskumælandi. Bedell fylgdi því fast fram að prestar þar töluðu írsku. Hann hafði sama hugarfar og Páll postuli sem segir í 1. Korintubréfi 14:19: „Á safnaðarsamkomu vil ég heldur tala fimm skiljanleg orð, sem geta frætt aðra, en tíu þúsund orð með tungum sem enginn skilur.“

En áhrifamiklir valdamenn reyndu að bregða fæti fyrir hann og svifust einskis. Sagnfræðingar segja að menn hafi fullyrt að það væri „hættulegt ríkinu“ að tala írsku og gengi „gegn hagsmunum stjórnarinnar“. Sumir töldu að það væri Englandi í hag að halda Írum í fjötrum fáfræðinnar. Meira að segja voru sett lög þess efnis að Írar skyldu leggja af tungu sína og menningu. Þeir skyldu læra ensku og taka upp enska siði og venjur.

ÞÝÐINGARSTÖRF BEDELLS

Bedell hélt sínu striki þrátt fyrir þessa ofríkistilburði. Upp úr 1630 hófst hann handa við að þýða yfir á írsku ensku biblíuna (King James Version frá 1611) sem þá var nýlega búið að gefa út. Það var ætlun hans að gefa út biblíu sem flestir gætu lesið og skilið. Hann var sannfærður um að írskt almúgafólk gæti ekki fundið leiðina til eilífs lífs meðan Biblían væri þeim eins og lokuð bók. – Jóhannes 17:3.

Bedell var ekki fyrstur manna til að átta sig á þessu. Um 30 árum áður hafði annar biskup, William Daniel, gert sér grein fyrir hve erfitt væri fyrir fólk að kynnast innihaldi Biblíunnar meðan það væri sveipað „skýjahulu óþekktrar tungu“, eins og hann komst að orði. Daniel hafði þýtt Grísku ritningarnar á írsku. Bedell hófst nú handa við að þýða Hebresku ritningarnar. Biblían, sem kennd er við Bedell, hefur að geyma þýðingu hans sjálfs ásamt þýðingu Daniels. Þetta var fyrsta heildarútgáfa Biblíunnar á írsku og svo fór að hún var eina írska þýðingin sem kom út næstu 300 árin.

Bedell, sem var menntaður hebreskufræðingur, fékk til liðs við sig tvo írskumælandi menn til að aðstoða við þýðingu Biblíunnar á írsku. Bedell fór vandlega yfir hvert einasta vers ásamt einum eða tveim dyggum aðstoðarmönnum. Þeir höfðu hliðsjón af ítalskri þýðingu, sem svissneski guðfræðingurinn Giovanni Diodati hafði gert, ásamt fornu hebresku biblíuhandriti og grísku Sjötíumannaþýðingunni.

Nafn Guðs stendur allvíða í biblíu Bedells. Þar fylgdu hann og aðstoðarmenn hans fyrirmynd þeirra sem þýddu King James-biblíuna en Bedell mun hafa þekkt marga þeirra. Sem dæmi má nefna 2. Mósebók 6:3 en þar er nafn Guðs þýtt Iehovah. Frumhandrit Bedells er varðveitt í Marsh-bókasafninu í Dyflinni. – Sjá rammann „Í minningu Bedells“.

GEFIN ÚT SEINT UM SÍÐIR

Bedell lauk verki sínu um 1640 en þýðing hans kom ekki út fyrr en mörgum árum síðar. Hvers vegna? Meðal annars vegna linnulausrar andstöðu. Mótstöðumenn ófrægðu aðalþýðanda Bedells og reyndu þannig að koma óorði á verk hans. Svo illskeyttir voru þeir að þeir fengu hann handtekinn og hnepptan í fangelsi. Til að bæta gráu ofan á svart braust út blóðug uppreisn gegn yfirráðum Englendinga árið 1641. Þótt Bedell væri enskur héldu heimamenn verndarhendi yfir honum um skeið því að þeir vissu að hann lét sér innilega annt um hagi þeirra. En að síðustu vörpuðu uppreisnarmenn honum í fangelsi. Aðstæður í fangelsinu voru bágbornar og það hefur eflaust átt sinn þátt í því að hann dó árið 1642. Hann lifði það ekki að sjá verk sitt koma út á prenti.

1. Titilsíða úr frumhandriti Bedells; 2. Biblía Bedells á prenti frá árinu 1685.

Titilsíða úr frumhandriti Bedells um 1640 og biblía Bedells á prenti, 1685.

Við lá að allt erfiði Bedells færi í súginn þegar menn fóru ránshendi um heimili hans og lögðu það í rúst. Til allrar hamingju tókst nánum vini hans að koma öllum handritum þýðingarinnar undan. Þau komust að lokum í hendur Narcissusar Marsh en hann varð síðar erkibiskup í Armagh og yfirbiskup írsku kirkjunnar. Hann sýndi það hugrekki að gefa biblíu Bedells út á prenti árið 1685 en vísindamaðurinn Robert Boyle studdi útgáfuna fjárhagslega.

EITT LÍTIÐ EN MIKILVÆGT SKREF FRAM Á VIÐ

Biblía Bedells varð aldrei heimsfræg. Hún var þó mikilvægt skref til betri skilnings á Biblíunni, ekki síst meðal írskumælandi fólks. En áhrifa hennar gætti ekki aðeins á Írlandi heldur einnig í Skotlandi og víðar. Nú gat fólk á þessum slóðum lesið orð Guðs á móðurmáli sínu og svalað andlegri þörf sinni. – Matteus 5:6.

„Þegar við lásum biblíu Bedells heyrðum við orð Guðs á móðurmáli okkar. Það var lykillinn að því að við fjölskyldan kynntumst þeim dásamlegu sannindum sem er að finna í Biblíunni.“

Biblía Bedells hefur hjálpað sannleiksleitandi fólki að svala andlegri þörf sinni allt fram á okkar daga. Írskumælandi maður, sem kynntist inntaki Biblíunnar ekki alls fyrir löngu, segir: „Þegar við lásum biblíu Bedells heyrðum við orð Guðs á móðurmáli okkar. Það var lykillinn að því að við fjölskyldan kynntumst þeim dásamlegu sannindum sem er að finna í Biblíunni.“

Í minningu Bedells

2. Mósebók 6:3 í Maynooth-biblíunni.

2. MÓSEBÓK 6:3 MAYNOOTH-BIBLÍAN

Biblía Bedells, sem kom út árið 1685, var eina heildarútgáfa Biblíunnar á írsku í næstum 300 ár. Árið 1981 gáfu kaþólskir fræðimenn út Maynooth-biblíuna sem var þýðing á nútímaírsku. Í formála hennar er viðurkennt „hið mikla afrek írsku kirkjunnar þegar hún gaf út biblíuþýðingu sína á 17. öld“. Hér er auðvitað átt við þýðingu Bedells þó að kaþólska kirkjan hafi reyndar bannað sóknarbörnum sínum lengst af að lesa hana.

2. Mósebók 6:3 í biblíu Bedells.

2. MÓSEBÓK 6:3 BIBLÍA BEDELLS

Fræðimennirnir, sem þýddu Maynooth-biblíuna, birtu hluta verksins til kynningar árið 1971. Þar á meðal voru fyrstu fimm bækur Biblíunnar, nefndar Pentatúc á írsku. Á innsíðu var vakin athygli á brautryðjandastarfi Bedells en þar stóð: „Í minningu Williams Bedells.“

Þýðendur Pentatúc birtu nafn Guðs, stafsett Iávé, víða þar sem nafnið kemur fyrir í Hebresku ritningunum, en þar er það ritað með fjórum samhljóðum sem má umrita JHVH. Finna má dæmi um það í 2. Mósebók 6:2-13. Þegar Maynooth-biblían kom út í heild sinni ákváðu útgefendur hennar því miður að fjarlægja nafn Guðs úr þýðingunni og setja titilinn an Tiarna (Drottinn) í staðinn. Það var þvert á stefnu Bedells.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila