Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g86 8.1. bls. 20-25
  • Hinir undraverðu hvalir sem syngja

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hinir undraverðu hvalir sem syngja
  • Vaknið! – 1986
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Fiskinet úr loftbólum
  • „Fingraför“ hnúfubaksins
  • Öndun, köfun, fæðing
  • Blíðastur risa
  • Þessi dýrlegi söngur!
  • Hvalirnir eru komnir!
    Vaknið! – 2016
  • Bægsli hnúfubaksins
    Vaknið! – 2013
  • Hvað má læra af náttúrunni?
    Vaknið! – 2006
  • Syngjum af gleði
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2017
Vaknið! – 1986
g86 8.1. bls. 20-25

Hinir undraverðu hvalir sem syngja

Hverjir aðrir geta gert fiskinet úr loftbólum, tekið 40 tonna heljarstökk aftur á bak og haldið hljómleika neðansjávar?

„HAFIÐ AUGUN á ljósgræna flekknum hægra megin við bátinn!“ Farþegarnir þustu þeim megin í bátinn og ég náði þangað rétt tímanlega til að sjá stóru, gapandi gini skjóta upp í miðjum flekknum. Um leið og hvalurinn kom upp tók hann stóran gúlsopa af sjó svo að fellingapokinn undir neðri skoltinum belgdist út undan þunga sjávarins. Efri skolturinn með skíðunum, sem minntu einna helst á risastóran kúst, lokaðist síðan yfir sjóinn sem hann hafði sopið.

Ég hafði séð hnúfubak fá sér matarbita.

Tveim stundum áður hafði vélbáturinn Daunty II lagt úr höfn í Gloucester í Massachusetts með um 30 farþega innanborðs, ásamt áhöfn, til hvalaskoðunar. Mason Weinrich, forstöðumaður hvalrannsóknastöðvarinnar þar og höfundur bókarinnar Observations: The Humpback Whales of Stellwagen Bank, hafði veitt okkur ýmsar almennar upplýsingar um hnúfubakinn. Við höfðum séð nokkra hvali blása í fjarlægð og fáeinir höfðu komið upp nær okkur til að anda. Og hvað eru þessar hnúfur sem eru svo áberandi á höfði hnúfubaksins? Hársekkir, er okkur sagt. Úr hverjum sekk vaxa eitt eða tvö stutt hár sem talin eru skynhár líkt og veiðihár kattarins.

Þegar hér var komið sögu hrópaði Weinrich skyndilega upp yfir sig svo að spurningunum linnti og við þustum yfir á stjórnborða til að sjá í fyrsta sinn hnúfubak matast. Það var þó aðeins upphaf skemmtunarinnar því að það þarf nú nokkra munnbita til að fylla maga sem tekur yfir hálft tonn!

„Þar sem við erum, hérna á Stellwagenbanka,“ sagði Weinrich, „lifir hnúfubakurinn aðallega á sandsíli sem er smávaxinn, hraðsyndur fiskur. Til að veiða það í nægilegu magni beitir hnúfubakurinn sérstakri veiðiaðferð sem byggist á því að hann býr til loftbóluský. Hvalurinn fer þannig að því að hann blæs frá sér loftbólum neðansjávar sem koma upp á yfirborðið eins og stór, ljósgrænn flekkur. Ekki er vitað með vissu hvaða áhrif þetta hefur. Kannski ruglar það sandsílin, þjappar þeim saman í hóp eða felur hvalinn fyrir þeim. En svo mikið er víst að þetta veiðibragð hrífur. Um 10 eða 20 sekúndum eftir að loftbóluskýið birtist á yfirborðinu kemur hvalurinn upp í því miðju með gapandi ginið eins og þið sáuð núna rétt áðan.“

Weinrich útskýrði síðan það sem gerðist þar á eftir: „Þið sáuð fellingar undir neðri skoltinum opnast þegar hann fylltist af sjó. Þessar fellingar ná aftur á miðjan kvið og eru aðskildar frá búknum með vöðvavegg og tengivef. Þegar gúllinn þenst út um leið og sjórinn flæðir inn myndast mjög stór belgur fyrir bæði sjó og bráð. Þegar hvalurinn síðan lokar gininu til hálfs dregst gúlpokinn saman eins og harmóníkubelgur. Auk þess þrýstir hvalurinn á með tungunni svo að sjórinn streymir út á milli skoltanna. Skíðin koma hins vegar í veg fyrir að smáfiskurinn sleppi. Til gamans,“ bætti Weinrich við, „má nefna að þessar skíðisplötur voru einu sinni notaðar við gerð lífstykkja.“

Fiskinet úr loftbólum

„Loftbóluskýin, sem hnúfubakurinn gerir á Stellwagenbanka,“ sagði hann okkur, „myndu ekki koma að gagni úti af Alaska þar sem svifkrabbarnir eru ekki í þéttum torfum. Þar býr hnúfubakurinn til loftbólunet til að þjappa bráðinni saman og hremma í gildru.“

Síðar sá ég í tímaritinu National Geographic mynd af slíku loftbóluneti og lýsingu á hvernig það virkar. Hinn „hugvitsami hvalur kann lausnina á því að safna hinu tvístraða lostæti saman í gómsætan munnbita — hann blæs sér ‚net‘ úr loftbólum. Eins og risa-neðansjávarkónguló að spinna vef sinn byrjar hnúfubakurinn á ef til vill 50 feta [15 metra] dýpi og blæs lofti út um blástursopið um leið og hann syndir upp á við eftir gormlaga ferli. Fyrst rísa stórar loftbólur en á eftir þeim kemur þétt net örsmárra loftbóla sem mynda hringlaga skerm er þjappar svifkröbbunum og smáfisknum saman í þétta torfu. Loftbólurnar og bráðin koma upp á yfirborðið, og síðan kemur hvalurinn upp í miðju netinu með gapandi ginið.“

„Fingraför“ hnúfubaksins

En þessa stundina er ég í hvalaskoðunarleiðangri til að sjá og kynnast nánar hnúfubaknum á Stellwagenbanka. Eitt vakti sérstaka athygli mína. Þennan dag sáum við um 20 mismunandi dýr og Weinrich gat nefnt hvert einasta með nafni, svo framarlega sem hann gat séð neðri hliðina á sporðinum. Engir tveir hnúfubakar hafa sömu merkin á sporðinum. Þau eru jafneinkennandi fyrir hvert dýr eins og fingraför eru fyrir mann, en það kemur sér mjög vel fyrir þá sem stunda rannsóknir á hvölum. Þegar tekist hefur að ljósmynda hvalinn má þekkja hann með hjálp myndarinnar hvert sem hann fer, hvert sem hann kynni að flakka um heimshöfin.

Nokkur undanfarin ár hafa hnúfubakssporðar verið ljósmyndaðir í þúsundatali, skráðir, flokkaðir og settir í tölvuskrá við College of the Atlantic í Bar Harbor í Maine. Árið 1984 var búið að skrá yfir 3000 hvali. Bera má nýjar ljósmyndir af hvölum saman við skrána til þess annaðhvort að bera kennsl á hvalinn eða bæta við skrána.

Þennan dag sýndu hnúfubakarnir okkur ýmsar athyglisverðar brellur. Þeir lágu í kafi með aðeins sporðinn upp úr og slógu honum síðan aftur og aftur í sjóinn. Þeir lágu kyrrir með höfuðið upp úr og skimuðu í kring um sig. Þeir köfuðu ofan frá sjávarborðinu með tígurlegri sveigju á bolnum, og stór sporðurinn veifaði okkur í kveðjuskyni rétt eins og þeir væru að bregða upp svörtu og hvítu nafnspjaldi sínu áður en þeir hyrfu í kaf. Tilkomumest var þó að sjá þá stökkva skyndilega upp úr sjónum og detta svo niður aftur með gríðarlegum smelli og opna eitt andartak stóra geil í sjóinn!

Öndun, köfun, fæðing

Þessi hvalaskoðun örvaði fróðleikslöngun mína. Hvalir hafa ýmsa sérstaka hæfileika. Einn þeirra gerir þeim fært að anda meðan þeir sofa. Hvalir anda í gegnum blástursop ofan á höfðinu. Tvær sterkar varir halda opinu lokuðu þegar vöðvarnir eru slakir og koma í veg fyrir að sjór komist inn um nasirnar tvær. Til að anda þarf hvalurinn að opna blástursopið sjálfrátt — öndunin er ekki ósjálfráð eins og hjá landspendýrum. Hvað gerir þá hvalurinn þegar hann sefur, því að hann þarf að opna blástursopið fyrir hvern andardrátt? Hvernig getur hann sofið og andað samtímis? Weinrich svarar: „Nú er álitið að hvalir og höfrungar sofi með hálfum heilanum í einu, en hinn helmingurinn stýri hinni sjálfráðu öndun og flothæfni.“

Hvalir eru sérstakir að enn öðru leyti sem kemur í veg fyrir köfunarveiki þegar þeir kafa niður á mikið dýpi. Loftið í lungunum er samþjappað undir þrýstingi sjávarins sem veldur því að köfnunarefni getur síast yfir í blóðið. Þegar komið væri upp á yfirborðið aftur myndi þetta köfnunarefni mynda loftbólur í æðunum sem truflaði blóðrásina og ylli köfunarveiki. Til að draga úr hættunni á því eru lungu hvalanna tiltölulega smá og því er minna köfnunarefni þar en ella væri. Til að fá nægjanlegt súrefni skiptir hvalurinn þó um nær allt súrefni í lungum sér við hvern andardrátt. Hjá mönnum nema loftskiptin ef til vill ekki nema 15 til 20 af hundraði við hvern andardrátt, en hjá hvölum 85 til 90 af hundraði.

Hvalir geyma auk þess súrefni með öðrum hætti en menn. Menn geyma 34 af hundraði súrefnisins í lungunum, 41 af hundraði í blóðinu og aðeins 13 af hundraði í vöðvunum, að viðbættum 12 af hundraði í öðrum vefjum. Hvalirnir geyma hins vegar aðeins 9 af hundraði í lungunum en 41 af hundraði í vöðvunum þar sem það er tilbúið til tafarlausra nota. Af því súrefni, sem þá er eftir, er 41 af hundraði í blóðinu og 9 af hundraði í öðrum vefjum. Í langri köfun fá aðeins mikilvægustu líffærin súrefnismettað blóð. Stórlega hægir á annarri líkamsstarfsemi. Búrhvalurinn virðist eiga köfunarmetið. Hann fer niður á rúmlega 900 metra dýpi og getur verið í kafi í 90 mínútur. Hnúfubakurinn fer lengst niður á 370 metra dýpi.

Fæðing hjá hvölum er mjög sérstök. Hjá spendýrum fæðast ungarnir yfirleitt með höfuðið á undan, en hjá hvölum kemur sporðurinn á undan. Það er nauðsynlegt til að hinn nýfæddi kálfur dragi ekki að sér andann neðansjávar og drukkni. Þýðingarmesta mínútan í ævi hins nýfædda hvals er sú þegar hann fer upp á yfirborðið til að draga andann í fyrsta skipti. Við fæðingu er kálfurinn 3 metrar á lengd og vegur tæpt tonn.

Blíðastur risa

„Hnúfubakurinn hefur á sér orð fyrir að vera blíður, en 40 tonn eru nú 40 tonn!“ Með þetta í huganum renndi sjávarlíffræðingurinn Sylvia Earle sér kvíðin út í sjóinn til fyrsta fundar við hnúfubakinn á heimavelli. En þegar einn þessara tígurlegu risa renndi sér fram hjá henni og „gaut á hana stóru auganu“ hætti hún að gera sér áhyggjur af fundum við þessa ‚blíðustu risa.‘

Allir virðast á sama máli og hún. Deborah Glockner-Ferrari, sem stundar rannsóknir frá Maoi á Hawaiieyjum, kemst svo að orði um mildi og blíðu hnúfubaksins, einkum þá sem birtist í samskiptum móður og kálfs: „Þau hafa mjög næma tilfinningu hvort fyrir öðru. Snerting virðist þeim afar mikilvæg. Móðirin gælir við kálfinn með bægslinu og kálfurinn á til að hvíla við vanga móðurinnar.“ Jacques Cousteau hefur þessu við að bæta: „Jafnvel meðal risa hefur það yfir sér innileika fjölskyldunnar þegar kálfurinn sýgur. Meðan kálfurinn er að sjúga gegna bægsli móðurinnar svo stóru hlutverki að þau virðast næstum vera handleggir sem faðma kálfinn. Hvalurinn liggur á hliðinni og heldur kálfinum með bægslunum meðan hann sýgur.“ Og þessi bægsli, sem faðma ungann, eru 4,5 metrar á lengd, þau stærstu meðal hvala.

Þessir blíðu risar komast sannarlega leiðar sinnar. Þeir flytjast búferlum 6400 til 9700 kílómetra leið ár hvert. Sumir fullyrða að ferðir þeirra fylgi ekki alltaf ákveðnum norður-suður farleiðum, heldur séu hnúfubakarnir flökkudýr. Að sumri halda þeir sig í köldum sjó á norðurhluta Atlantshafs og Kyrrahafs, éta gráðuglega og safna á sig spiklagi. Að vetrarlagi halda þeir sig á grunnsævi í hitabeltinu, Karíbahafi, út af Kaliforníuskaga og við Hawaiieyjar þar sem þeir eru önnum kafnir við fæðingu, tilhugalíf, mökun og söng. Þeir éta ekkert í nokkra mánuði, en . . .

Þessi dýrlegi söngur!

Roger Payne var á litlum seglbáti með konu sinni að nóttu til langt frá landi og fann glöggt fyrir einsemd hafsins. Hann lét tvo neðansjávarhljóðnema síga niður í sjóinn, kveikti á mögnurunum og hlustaði á með heyrnartólum. „Við vorum ekki lengur ein! Við vorum umkringd miklum og gleðilegum kórsöng sem streymdi til okkar neðan úr sjónum. Hvelfingar hafdjúpsins bergmáluðu og drundu, eins og hljómleikahöll, af söng og ópum hvalanna — hljóðum sem drundu, bergmáluðu, mögnuðust og hurfu um leið og þau ófust saman í feikimikinn og flókinn vef dýrlegs tónaflóðs. Mér leið strax vel, öll einmanakennd hvarf út í buskann vegna ákefðarinnar sem greip mig. Alla þá nótt létum við berast á þessum unaðslegu, dansrænu, jóðlandi ómum; við sigldum á hafi ójarðneskrar tónlistar.“

Stundum er sunginn einsöngur, tvísöngur eða kórsöngur. Allir hvalirnir syngja sama lagið þótt söngurinn sé ekki alltaf samstilltur. Söngurinn er ekki vélrænn heldur semja þeir jafnhliða söngnum. Hvert ár er sunginn ólíkur söngur. Söngur þessa árs byrjar eins og söngur síðasta árs en síðan byrja hvalirnir að spinna við lagið svo að brátt er komið nýtt lag. Hvalirnir eru ekki bara söngvarar heldur líka tónskáld. Ár hvert flytja þeir nýjan söng — og hver hvalur syngur aðeins nýja sönginn. Þeir syngja aðeins meðan þeir hafa vetrardvöl í heitum sjó. Sumarmánuðina sex er ekkert sungið, en þegar næsta söngvertíð hefst byrja þeir með því að syngja sönginn frá síðasta ári — eftirtektarvert merki um minnisgáfu þeirra!

Þótt lögin breytist ár frá ári er uppbygging þeirra alltaf hin sama. Öll lögin hafa um sex stef og hvert stef nokkrar hendingar sem eru ýmist alveg eins eða taka hægum breytingum. Tvö til fimm hljóð eru í hverri hendingu. Hvalir í mismunandi höfum syngja ólík lög, en uppbyggingin er alls staðar sú sama.

Heilt lag getur tekið allt frá 6 mínútum upp í hálftíma, og stundum endurtekið í sífellu í heilan sólarhring. Hvalir í 30 til 50 kílómetra fjarlægð geta heyrt það. Vísindamenn hafa sagt um söng hvalanna: „Hugsanlega flóknasti söngur í dýraríkinu.“ „Margbrotnasta sýning í dýraríkinu.“

Þeir sem hafa kafað í námunda við hina syngjandi hvali segja svo frá reynslu sinni: „Niðri í sjónum er söngurinn svo sterkur að við gátum fundið fyrir hljóðbylgjunum þegar loftrúmin í höfði okkar og líkama sveifluðust með.“ „Í návígi er söngurinn ógleymanlegur — hljómmikill og taktfastur.“ „Hljóðið var hreint ótrúlegt, eins og trumbusláttur á brjósti mér.“ Hvernig hljóðið myndast er mönnum hulin ráðgáta. Hnúfubakurinn hefur engin raddbönd. Hann blæs ekki frá sér lofti meðan hann syngur. Ekki er vitað hvers vegna hann syngur þótt álitið sé að það kunni að vera tengt tilhugalífi og árásarhneigð karldýranna. Rannsóknir gefa til kynna að það séu karldýrin sem syngja.

Framtíð hvalanna er tvísýn. Er hnúfubakurinn í útrýmingarhættu? Fyrir einni öld taldi stofninn um 100 þúsund dýr, en hvalveiðimenn hafa gengið mjög nærri honum. Stofninn telur nú aðeins 7000 til 10.000 dýr. Þessum stórfenglegu sköpunarverum er slátrað til að verða hunda- og kattamatur. Það er vissulega hryggilegt! Smá vonarglæta birtist árið 1966 þegar Alþjóða hvalveiðiráðið friðaði þá. Kom friðunin of seint?

Ef hnúfubakurinn hverfur einn góðan veðurdag verða líka horfin fiskinet hans úr loftbólum, 40 tonna heljarstökk hans aftur á bak, blíða hans gagnvart ungviði sínu og manninum og ferðalög hans án sjókorta um höfin þver og endilöng. Þá verður líka horfinn hinn tryllti og annarlegi söngur hans sem áður ómaði um hafdjúpin.

Árið 1977 var geimflaugunum Voyager fyrsta og öðrum skotið á loft frá Kanaveralhöfða og báru þær með sér hljóðupptökur af söng hnúfubaksins. Verður það allt og sumt sem eftir verður af söng hans, siglandi þögult um ómælivíddir geimsins um milljarða ára án þess að nokkur heyri? Munu þessir undraverðu, syngjandi hvalir halda áfram að semja tónlist og halda söngtónleika í höfum heimsins, til að hrífa ókomnar kynslóðir sem munu meta að verðleikum hinar mörgu, stórfenglegu sköpunarverur sem prýða land og sjó. (Sálmur 104:24, 25) Tíminn einn fær úr því skorið. — Eftir fastan greinarhöfund Vaknið!

[Myndir á blaðsíðu 20]

Efri mynd: Útþaninn gúlpoki fullur af sjó og fiski.

Neðri mynd: Tunga hnúfubaksins (sést ekki á myndinni) þrýstir á þegar gúllinn dregst saman og sjórinn þrýstist út, en smáfiskurinn verður eftir.

[Rétthafi myndar á bls. 20]

Allar myndir með þessari grein eru birtar með leyfi Mason T. Weinrich, forstöðumanns hvalarannsóknastofnunarinnar í Glocester í Massachusetts í Bandaríkjunum.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Mávarnir koma til að tína upp „molana“ sem hrjóta af borði hnúfubaksins.

[Mynd á blaðsíðu 22]

Komið úr kafi til að krækja í matarbita.

[Myndir á blaðsíðu 23]

Efri mynd: Þetta er Beltane sem þekkist á hinu svarta og hvíta mynstri neðan á sporðinum.

Neðri mynd: Þetta er Mósaík sem þekkist af örum og rispum eftir háhyrninga.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Hnúfubakur skýst upp úr sjónum til stökks.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Sjórinn fossar af sterklegum sporði hnúfubaksins þegar hann sveiflar honum upp úr sjónum um leið og hann hverfur í djúpið.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila