Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g86 8.4. bls. 16-20
  • Tæknin – áhrif hennar á okkur

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Tæknin – áhrif hennar á okkur
  • Vaknið! – 1986
  • Svipað efni
  • Tæknin – þræll eða húsbóndi?
    Vaknið! – 1986
  • Kynning
    Vaknið! – 2021
  • Í þessu tölublaði
    Vaknið! – 2021
  • Hvernig getum við nýtt okkur tæknina af skynsemi?
    Góð ráð handa fjölskyldunni
Sjá meira
Vaknið! – 1986
g86 8.4. bls. 16-20

Tæknin – áhrif hennar á okkur

Í ævintýri Goethes, Lærisveinn galdramannsins, alkunnugt í gegnum samnefnt tónverk Paul Dukas og kvikmynd Walts Disneys Fantasía, datt lærisveininum það snjallræði í hug að beita kynjamætti húsbónda síns til að létta sér störf. Hann lét strákúst bera fyrir sig vatn úr brunninum. Hann kunni hins vegar ekki að stjórna kústinum og uppgötvaði brátt að þessi fúsi en hugsunarlausi þræll bar svo mikið vatn í húsi að allt fór á flot. Sagan endaði auðvitað vel — meistarinn kom til bjargar.

Tæknin er í flestu öflugt verkfæri eins og kústur lærisveinsins. Henni má beita til að létta af okkur störf, auka afköst, og kannski jafnvel gera verkin ánægjulegri. En sé tækninni ekki rétt stjórnað eða jafnvel misbeitt getur hún líka breist í afl sem hefur skelfilegar, jafnvel banvænar afleiðingar.

Bifreiðin er kjörið dæmi um slíkt. Enginn vafi leikur á að bifreiðin hefur margt til síns ágætist fyrir þjóðfélagið í heild. Enginn getur þó borið á móti skaðlegum aukaverkunum svo sem loft- og hljóðmengun, banaslysum og meiðslum af völdum mannlegra mistaka og kæruleysis. Þessi uppfinning er því tvíeggjuð blessun.

En áhrif tækninnar ná miklu lengra en þetta. Svo mjög gagnsýrir tæknin heiminn að hún er að breyta ekki aðeins starfs- og lífsháttum okkar, heldur líka gildismati okkar, sjáfsmati og viðhorfi til þjóðfélagsins í heild. Sú spurning vaknar því hvort við höfum beitt tækninni viturlega og gagnlega, eða hvort tæknin hafi drottnað yfir okkur til tjóns.

Enginn vafi leikur á því að flestir núlifandi menn hafa á einn eða annan veg notið góðs af framförum vísinda og tækni. Jafnt í þróunarlöndunum sem hinum háþróuðu hefur tæknin haft í för með sér margvíslegt efnalegt hagræði á nánast öllum sviðum lífsins. Í allra fyrsta lagi hefur notkun véla, tilbúins áburðar, plágueyðandi efna og betra útsæðis aukið matvælaframboð víðast hvar í heiminum. Framfarir í læknavísindum hafa haft í för með sér bætta heilsu og lengri ævi fyrir fjölmarga. Bifreiðin og flugvélin, ásamt framförum í gerð rafeindabúnaðar, tölva og gervihnatta. hefur gert mönnum kleift að ferðast og hafa samband hver við annan um heiminn þveran og endilangan með tiltölulega auðveldum hætti. Tæknin hefur enn fremur losað okkur við verulegan hluta niðurdrepandi þrældóms og stritvinnu bæði heima og heiman.

Þótt menn eigi til, í hinum tæknivæddu þjóðfélögum, að tala um ‚hina gömlu góðu daga‘ eru fáir reiðubúnir til að segja skilið við hin mörgu tæki, sem spara tíma og erfiði, sem þeir telja orðið sjálfsagðan hlut eða eru orðnir vanir í sínu daglega lífi. Tæknin er svo sannarlega orðin nýtur þræll og hefur, eins og maður okkur komst að orði, gert venjulegu nútímafólki kleift að lifa „eins og konungar fyrri aldar gátu aldrei gert.“

En myndin er ekki í alla staði björt og fögur. „Enda þótt hin umfangsmikla tæknivæðing þjóðfélagsins undanfarna fáeina áratugi hafi haft ómælanlegt gagn í för með sér,“ segir Colin Norman, rannsóknavísindamaður við Worldwatch-stofnunina, „verður æ ljósara að sumar tækniframfarir geta aukið í stað þess að leysa mörg aðkallandi þjóðfélags- og umhverfisvandamál.“

Lítum fyrst á áhrif tækninnar á umhverfið. Fyrrum innanríkisráðherra Bandaríkjanna, Stewart Udall, talaði um „hljóðu kreppuna“ og lýsti ástandinu í Bandaríkjunum sem svo:

„Þessi þjóð er sú auðugasta og voldugasta í heimi, en hún gengur líka á undan í því að spilla heimkynni mannsins. Við eigum flestar bifreiðar og verstu ruslahaugana. Við ferðumst mest af öllum jarðarbúum og megum þola verstu umferðaröngþveitin. Við framleiðum mestu orkuna og höfum óhreinasta andrúmsloftið. Verksmiðjur okkar eru með þeim afkastamestu og árnar okkar mengaðastar. Við höfum mestan varning til að selja og ófegurstu ummerkin til að auglýsa gildi þeirra.“

Embættismenn og almenningur er því farinn að taka eftir því háa verði sem við þurfum að greiða fyrir hinn öra vöxt tækninnar sem við ljáum svo fúslega fylgi. Stjórnvöld gætu hins vegar komið í veg fyrir frekara tjón á umhverfinu með því einfaldlega að grípa til aðgerða gegn þeim sem menguninni valda. En verksmiðjur og fyrirtæki sjá mönnum fyrir atvinnu, efla hag þeirra byggðarlega þar sem þau eru og tryggja stjórnvöldum skatttekjur. Einkum á þetta við um þróunarlöndin. Þannig er því haldið fram að hinn efnalegi hagur, sem tæknin skapar, sé þyngri á metunum en gjaldið sem þarf að greiða í hreinu andrúmslofti, vatni og jarðvegi.

Önnur málsvörn tækninnar er sú að fyrr eða síðar muni hún koma fram með lausn á vandamálunum. Sannleikurinn er sá að tæknileg þekking er þegar fyrir hendi til að stöðva eða jafnvel snúa við miklu af því tjóni sem orðið er. En slíkt myndi kosta fé, mikið fé. Til dæmis myndi þurfa 7,5 til 10 milljarða dollara sjóð aðeins til að hreinsa þá 786 sorphauga fyrir hættulegan efnaúrgang sem bandarísk stjórnvöld telja ógna umhverfinu — það er upphæð sem enginn er óðfús að greiða.

Áhrif tækninnar á störf og atvinnutækifæri hefur verið mjög umdeilt mál allt frá öndverðu. Menn hafa alltaf óttast að nýjar vélar myndu valda atvinnuleysi. Snemma á dögum iðnbyltingarinnar fannst starfsmönnum vefnaðariðnaðarins sér ógnað svo mjög að þeir eyðilögðu hinar nýtilkomnu vélar í hundraðatali, í hinum alræmdu uppþotum á árunum 1811 og 12 undir forystu Neds Ludds.

Þegar á það er litið hvernig iðnbyltingin fór kann slíkt að virðast fáránlegt. En nú hefur tilkoma tölvustýringar, sjálfvirkni og vélmenna á skrifstofum og í verksmiðjum vakið aftur upp ótta í ýmsum herbúðum. Sumir vísa slíkum áhyggjum þó á bug með því að benda á að tölvutæknin skapi ný störf — tæknistörf við stjórn, hönnun og forritun tölva — sem muni taka við þeim verkamönnum sem þurfa að víkja fyrir vélunum. En aðrir, vopnaðir talnaskýrslum um mikið atvinnuleysi í heiminum, færa rök að því að hátæknin hafi ekki staðið við gefin loforð í þessu efni.

Athuganir, sem gerðar voru fyrir skömmu við Stanford-háskóla, leiddu í ljós að „ekki aðeins þarf mannafl að víkja fyrir tækninýjungum, heldur ræður iðnaðurinn sjálfur líka tiltölulega fátt fólk til starfa.“ Þeir sem að rannsókninni unnu benda á að fólki finnist oft mikið til um hin mörgu nýju störf sem tölvuiðnaðurinn hafi skapað. Í rauninni eru þau þó aðeins örlítið brot af heildarvinnumarkaðinum. Bandaríska vinnumálahagstofan áætlar til dæmis að á árabilinu 1972 til 1982 hafi skapast í Bandaríkjunum um það bil 600.000 störf á sviði hátækniiðnaðar. Sú tala nemur þó aðeins um 5 af hundraði heildarvaxtarins á vinnumarkaðinum á því tímabili. Hátækniiðnaðurinn tók með öðrum orðum til sín aðeins einn af hverjum 20 verkamönnum á vinnumarkaðinum.

Ef sumum þykir tækninni hafa gengið illa að skapa ný atvinnutækifæri þykir þeim henni hafa mistekist enn hrapallegar að uppfylla vonir manna um að hefja eðli vinnunnar upp á æðra stig. Flestir ímynda sér hátæknistörfin sem flókin og fjölbreytt. En sérfræðingur á sviði atvinnumála lét hafa eftir sér, að enda þótt sum slík störf „auðgi mannsandann og geri kröfur til hugans“ séu þau flest „hreint ótrúlega sljóvgandi og leiðinleg.“ Í stað þess að losa menn við niðurdrepandi einhæfni eru flest störf í hátækniiðnaði einhæf, undir ströngu eftirliti og útheimta litla tæknikunnáttu. Ólíkt hinum hefðbundu störfum, sem þau koma í staðinn fyrir, skila mörg þeirra innan við meðallaunum.

Af öllu því sem tæknin er sögð hafa gert veldur kannski mestum áhyggjum það sem hún hefur gert við okkur sem manneskjur. Oft er kvartað undan því að fjöldaframleiðslutækni og tölvustýrð sjálfvirkni dragi úr gildi einstaklingseðlis, dómgreindar og reynslu verkamannsins. Þetta sjónarmið kemur fram hjá Karen Nussbaum, sem er framkvæmdastjóri stéttarfélags, en hún heldur því fram að afkastanna vegna séu „störf undir ströngu eftirliti og verði sífellt sérhæfðari — en það merkir að hver verkamaður vinnur sífellt smærra og smærra brot af stóru verki. Fólk er notað eins og framlenging vélanna. Þetta sviptir það mannlegum eiginleikum.“

Þetta veldur oft kvíðablandinni einangrunarkennd, þeirri tilfinningu að ekki sé erfitt með að þroska með sér ósvikinn áhuga á starfi sínu þegar þeir vinna daginn út og daginn inn á stórri stofnun við einhæfa ákvæðisvinnu. Þeir sjá sjaldan lokaárangur erfiðis síns og fá ekki hlut í hagnaðinum, nema þá þeim sem birtist í launaumslaginu. Þetta mun, að því er Murray Touroff, prófessor við Tæknistofnunina í New Jersey, heldur fram, gefa af sér „kynslóð launþega sem finnur til engrar hollustu við fyrirtækið og eru að jafnaði áhugalausir.“

Jafnvel þótt menn starfi ekki í tæknivæddu umhverfi eru þeir ekki lausir undan áhrifum tækninnar. Víða er tæknin orðin svo samofin daglegu lífi manna — í mynd heimilis- og flutningatækja, á sviði skemmtunar og svo framvegis — að margir ættu sennilega erfitt með að bjarga sér í þjóðfélagi þar sem tæknivæðing væri á lægra stigi. Jacques Ellul segir í bók sinni La Technique að „tæknilegt verðmætamat drottni algerlega yfir hugarástandi nútímamannsins, og að markmið hans birtist einvörðungu í gegnum árangur og hamingju sem fæst með tæknibeitingu.“ Að áliti prófessors Clarks, sem áður er getið, „höfum við tekið upp mjög stundlegt kerfi í ákafri sókn okkar að höndla tæknina: nautnaþjóðfélag sem hefur eð engu framtíðina.“

Margt hefur verið sagt um gereyðingarógnunina sem blasir við mannkyninu núna. Enginn mælir því mót að hana má að verulegu leyti rekja til tækniframfara sem hafa gefið af sér ógnvekjandi stríðsvopn — allt frá lásboganum til leysigeislageimvopna. Slík þróun náði vafalaust hástigi sínu þegar vísinda- og tæknimönnum tókst að smíða fyrstu kjarnorkusprengjuna á aðeins þrem árum, frá júní 1942 til júlí 1945.

En hvað hefur þetta tækniafrek, sem á sér enga hliðstæður fyrr né síðar, veitt okkur? Það hleypti af stað og kynti undir stjórnlausu vígbúnaðarkapphlaupi sem hefur skapað það ástand að gagnkvæm gereyðing er gulltryggð. Það er kannski jafnvel enn meira áhyggjuefni að æ fleiri þjóðir eru að ná tökum á þeirri tækni sem þarf til að smíða kjarnorkuvopn.

„Augljóst er að eitthvað hefur farið úrskeiðis á síðustu áratugum,“ sagði hinn kunni vísindamaður og umhverfisfræðingur René Dubos. „Aukið vald yfir náttúrunni færir mönnum ekki öryggi og hugarró; efnaleg velmegum gerir fólk ekki heilbrigðara og hamingusamara; tækninýjungar skapa sín eigin vandamál sem útheimta að stöðugt sé verið að þróa nýja gagntækni.“ Hann bætir við: „Sú tilfinning er almenn að vísindamenn hafa enn ekki lært að beina athygli sinni að þeim þjakandi hliðum nútímaheimsins sem eiga upptök sín í vísindum og tækni.“

Biblían talar um slíka stjórn: „Á dögum þessara konunga mun Guð himnanna hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki [sem standa núna], en sjálft mun það standa að eilífu.“ (Daníel 2:44) Þetta ríki er ekkert annað en Messíasarríki Guðs í höndum Jesú Krists.

Undir friðarstjórn Guðsríkis mun verða að veruleika það sem tækni nútímans getur í mesta lagi vonast til að áorka. Eyðimerkur og sólbrunnar auðnir munu breytast í frjóa jörð. Þar munu verða nytsöm og áhugaverð störf fyrir alla. Blindir, farlama, mállausir og heyrnarlausir munu læknast af meinum sínum. Og sjálfur dauðinn verður yfirbugaður. — Sjá Jesaja 35:1, 5-7; 65:21-23.

[Innskot á blaðsíðu 18]

„Fólk er notað eins og framlenging vélanna. Þetta sviptir það mannlegum eiginleikum.“

[Innskot á blaðsíðu 20]

„Augljóst er að eitthvað hefur farið úrskeiðis á undanförnum áratugum.“

[Myndar á blaðsíðu 17]

Er efnalegur hagur þyngri á metunum en það gjald sem þarf að greiða í hreinu lofti, vatni, jarðvegi — og heilsu þinni?

[Rétthafi]

Ljósm. WHO

[Mynd á blaðsíðu 19]

Flest hátæknistörf eru „hreint ótrúlega sljóvgandi og leiðinleg.“

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila