Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g86 8.10. bls. 3-4
  • Stjörnuspekin nær aftur vinsældum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Stjörnuspekin nær aftur vinsældum
  • Vaknið! – 1986
  • Svipað efni
  • Er stjörnuspeki skaðlaus skemmtun?
    Vaknið! – 1986
  • Getur stjörnuspeki varpað ljósi á framtíð þína?
    Vaknið! – 2005
  • Stjörnuspeki og spásagnir – innsýn í framtíðina?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (almenn útgáfa) – 2018
  • Er framtíðin skrifuð í stjörnurnar?
    Vaknið! – 1986
Sjá meira
Vaknið! – 1986
g86 8.10. bls. 3-4

Stjörnuspekin nær aftur vinsældum

Ástmey hans hátignar var látin. Hinn harmþrungni konungur lét kalla fyrir sig stjörnuspekinginn sem hafði sagt fyrir þennan harmleik. Í morðhug sagði konungur: „Þú þykist vera svo snjall og lærður. Segðu mér hver örlög þín verða.“

„Herra,“ svaraði hann, „ég sé fyrir að ég muni deyja þrem dögum á undan yðar hátign.“ Þetta snarræði bjargaði lífi stjörnuspekingsins!

HVORT sem þessi saga er sönn eða ekki lýsir hún því vel að stjörnuspekingar voru á öldum áður teknir mjög alvarlega, meira að segja af konungum og tignarmennum. Sagnfræðingur segir um Loðvík XI Frakklandskonung: „Urmull stjörnuspámanna . . . gerðu sér mat úr ótta konungs — og lifðu á pyngju hans.“ Á 15. og 16. öld náðu vinsældir stjörnuspekinnar hámarki í Evrópu. Meira að segja kunnir vísindamenn lögðu trúnað á hana.

En hækkandi stjarna stjörnuspekinnar tók fljótt að falla. „Ein augnagota í gegnum stjörnusjónaukann,“ viðurkennir bókin Astrology — The Celestial Mirror (Stjörnuspeki — spegill himingeimsins), „olli því að heil heimsmynd þurrkaðist út. . . . Hinn vaxandi myndugleiki vísindalegra raka gerði stjörnuspekina útlæga.“ Háskólar í Evrópu lögðu bann við henni. Um síðustu aldamót lýsti sagnfræðingurinn Bouché-Leclercq vesturlenskri stjörnuspáfræði sem „endanlega dauðri.“

Fyrir rúmlega 30 árum leiddi Gallup-skoðanakönnun á Englandi í ljós að einungis sex af hundraði spurðra trúðu á stjörnuspáfræðina. Núna eru 80 af hundraði sagðar trúa á hana! Tímarit, dagblöð og aðrir fjölmiðlar skýra frá því að áhugi almennings á stjörnuspekinni sé vaxandi. „Það fyrsta sem ég les þegar ég opna dagblaðið,“ sagði suður-afrískur maður fréttaritara Vaknið!, „er stjörnuspáin.“

Hvers vegna hefur stjörnuspekin hlotið slíka viðreisn? Þegar ítölsk kona var að því spurð hvers vegna hún og fleiri leituðu til stjörnuspekinga svaraði hún: „Of margt er farið úrskeiðis í þessum heimi.“ Já, við lifum á ‚örðugum tímum.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Sumum finnst stjörnuspekin veita sér þá leiðsögn sem þeir þurfi. Stjarna stjörnuspekinnar er því risin á ný. Fjöldi bóka hefur verið gefinn út um þetta efni. Algengt er orðið að menn hefji samræður með því að spyrja: „Í hvaða stjörnumerki ertu?“ Sumir telja hjónaband ekki koma til greina nema stjörnumerki hlutaðeigandi eigi saman.a

Þrátt fyrir allar sínar vinsældir byggjast spár stjörnuspekinga þó á fremur vafasamri forsendu: Að lesa megi bæði persónuleika einstaklings og framtíð út úr stöðu sólar, tungls og reikistjarna á því augnabliki þegar hann fæðist. Stjörnuspáfræðingar hika þó ekki við að teikna stjörnuspákort sem eru allt frá fáeinum strikum upp í margar blaðsíður — eftir því hve háa fjárhæð sá sem þess æskir er fús til að greiða. Að sögn tímaritsins Psychology Today er eytt „milljónum dollara í stjörnuspákort.“ Bandaríski vísindamaðurinn John Wheeler barmaði sér nýverið yfir því að þjóð hans hefði „efni á 20.000 stjörnuspekingum en aðeins 2000 stjörnufræðingum.“

Vinsældir stjörnuspekinnar á Vesturlöndum eru orðnar slíkar að svissneski sálfræðingurinn Carl Jung, sem nú er látinn, sagði: „Hún knýr dyra hjá háskólunum þaðan sem hún var gerð útlæg fyrir um það bil 300 árum.“ Meira að segja bjóða nú fjölmargir háskólar á Vesturlöndum námsbrautir í stjörnuspáfræði. Því er eðlilegt að menn spyrji hvort ástæða sé til að taka stjörnuspekina alvarlega.

[Neðanmáls]

a Ár hvert er sólin álitin ganga í gegnum tólf stjörnumerki sem eru nefnd dýrahringur. Stjörnuspekingar segja mann fæddan í því stjörnumerki sem sólin á að vera í þegar hann fæðist.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila