Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g86 8.10. bls. 7-9
  • Er stjörnuspeki skaðlaus skemmtun?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Er stjörnuspeki skaðlaus skemmtun?
  • Vaknið! – 1986
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ‚Það er stjörnunum að kenna!‘
  • Aflið að baki spásagnargáfunni
  • Er stjörnuspeki trúarbrögð?
  • Getur stjörnuspeki varpað ljósi á framtíð þína?
    Vaknið! – 2005
  • Stjörnuspekin nær aftur vinsældum
    Vaknið! – 1986
  • Stjörnuspeki og spásagnir – innsýn í framtíðina?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (almenn útgáfa) – 2018
  • Er framtíðin skrifuð í stjörnurnar?
    Vaknið! – 1986
Sjá meira
Vaknið! – 1986
g86 8.10. bls. 7-9

Er stjörnuspeki skaðlaus skemmtun?

BRESKUR stjörnufræðingur að nafni Patrick Moore sagði fyrir nokkru: „Það er fáránlegt að halda að líf og örlög manna ráðist af stjörnunum . . . [Stjörnuspeki] er svo sem ósköp skaðlaus, en sem vísindi á hún sér engan grundvöll.“

Séu áhrif stjörnuspekinnar á líf fólks athuguð hljótum við þó að neyðast til að viðurkenna að hún sé allt annað en skaðlaus.

‚Það er stjörnunum að kenna!‘

Einhver augljósasta hættan af stjörnuspekinni er sú að hún hvetur fólk til að taka ekki ábyrgð á gerðum sínum. Lítum á hjónabandið sem dæmi. Suður-afrískur stjörnuspekingur segir viðvíkjandi hjónum með stjörnumerki sem eiga ekki saman: „Ég hef sagt allmörgum að hjónaband þeirra sé glatað og að best sé fyrir þau að skilja.“

En hugleiddu þetta: Er skynsamlegt að slíta hjónabandi fyrir þá sök að fastastjörnur og reikistjörnur eiga að fara illa saman? Væri ekki betra fyrir hjón, sem eiga við vandamál að glíma, að taka ábyrgð á gerðum sínum og leita hjálpar? Biblían hefur að geyma mikið af hagnýtum leiðbeiningum til lausnar á sambúðarvandamálum. (Sjá til dæmis Efesusbréfið 5:22-25.) Margir sem hafa fylgt ráðum hennar hafa uppgötvað að það var einmitt það sem þurfti til að bjarga hjónabandi þeirra. Það er margfalt betra en að skella skuldinni á stjörnurnar!

Og hvað um hin mörgu mistök sem okkur verða á? Er það heilbrigt að reyna að réttlæta þau með afstöðu stjarnanna? Fyrir nokkrum árum var maður í Miami í Flórida ákærður fyrir rán, nauðgun og líkamsárás. Sér til varnar safnaði hann saman þrem stjörnuspekingum sem fullyrtu að hann hefði ekki ráðið við þetta sökum „slæmrar afstöðu reikistjarnanna.“ Slíkar fullyrðingar eru líklegastar til að forherða afbrotamann á sinni röngu braut.

Hugsaðu þér líka hvernig færi ef menn, sem bera mikla ábyrgð svo sem þjóðaleiðtogar, færu að leita sér leiðsagnar í stjörnuspekinni. Í bókinni Human Destiny — The Psychology of Astrology (Örlög mannsins — sálfræði stjörnuspekinnar) minnir Gwyn Turner á þessa óhugnanlegu staðreynd: „Konungar og valdhafar fortíðar höfðu alltaf stjörnuspeking sér við hlið, og svo seint sem í síðari heimsstyrjöldinni notaði breska hermálaráðuneytið ungverskan stjörnuspeking, Louis de Wohl töluvert.“ Hann spáði fyrir um hvernig vissum foringjum myndi vegna og um sigra í vissum orustum. Hann gat líka upplýst breska hermálaráðuneytið um það hvaða ráð Hitler fengi frá sínum stjörnuspáfræðingum samkvæmt stjörnukorti hans. Sumir halda jafnvel fram að fjölmargir stjórnmálamenn leiti enn þann dag í dag leiðsagnar í stjörnunum.

Virðist það þér skaðlaust að teknar séu ákvarðanir, sem varða líf og dauða, út af afstöðu himintunglanna?

Aflið að baki spásagnargáfunni

Stundum rætast spár stjörnuspámanna. En stafar það af því að þeir hafi getað lesið framtíðina í stjörnunum? Sálfræðingurinn Vernon Clarke, sem nú er látinn, prófaði hæfni nokkurra stjörnuspekinga fyrir fáeinum árum. Stjörnuspekingarnir fengu tíu mannlýsingar sem þeir áttu að flokka með öðru af tveim stjörnuspákortum. Stjörnuspekingunum tókst býsna vel upp og þrír þeirra náðu öllum réttum!

Bandarískur stjörnuspekingur að nafni Dal Lee náði sjö af tíu réttum. Hvernig náði hann þeim árangri? Svo virðist sem þar hafi komið fleira til en aðeins það að lesa stjörnurnar. „Það hefði átt að taka stjörnuspeking að minnsta kosti háftíma að leggja mat á hvert verkefni, það er að segja alls tíu stundir,“ var haft eftir Lee. Hann var hins vegar önnum kafinn um þetta leyti og eyddi „aðeins mínútu í hvert verkefni.“ Árangurinn var því ekki byggður „eingöngu á stjörnuspeki.“ Lee viðurkenndi: „Ég held frekar að um hafi verið að ræða ‚yfirskilvitlega skynjun.‘“

Athygli vekur að fjölmargir stjörnuspekingar viðurkenna að þeir styðjist við einhvers konar dulræn öfl. Það skiptir verulegu máli þá sem vilja þóknast Guði. Í Jesaja 1:13 segir Guð: „Ég fæ ekki þolað að ill öfl séu ákölluð.“ (New World Translation) Hvers vegna? Biblían sýnir að þeir sem geta sagt framtíðina fyrir eru oft undir stjórn eða áhrifum illra anda. (Samanber Postulasöguna 16:16-18.) Því má vera að stjörnuspár séu stundum hreinlega runnar frá illum öndum — svörnum óvinum Guðs og þeirra sem þjóna honum! Að leita leiðsagnar illra anda getur einungis verið til tjóns!

Er stjörnuspeki trúarbrögð?

Sumir segjast lítinn trúnað leggja á stjörnuspár og lesa þær einungis „til gamans.“ En það sem byrjar með yfirborðslegum áhuga getur með tímanum breyst í allt að trúardýrkun. Einn vísindamannanna, sem undirritaði yfirlýsinguna gegn stjörnuspeki sem minnst var á hér áðan, sagði: „Fyrir suma er stjörnuspekin vafalaust einhvers konar flótti . . . fyrir aðra er hún orðin guðleg opinberun, ómengaður sannleikur — það er að segja trúarbrögð í orðsins fyllstu merkingu.“ Heimildarmenn segja að sumir hafi tilhneigingu til að láta það sem stjörnuspáin þeirra segir vera spádóm sem þeir uppfylla. Ráði stjörnuspekin lífi manna í slíkum mæli er hún sannarlega orðin að trúarbrögðum þeirra.

Stjörnuspekin var reyndar opinber þáttur í trúarbrögðum Babýloníumanna til forna. En reyndust þessi trúarbrögð Babýlon blessun? Nei, síður en svo. Biblían hefur að geyma þennan dóm yfir Babýlon fortíðar: „Þú ert orðin þreytt á hinum mörgu fyrirætlunum þínum. Lát því himinfræðingana og stjörnuskoðarana koma og hjálpa þér, þá er á mánuði hverjum boða þér, hvað yfir þig á að koma.“ (Jesaja 47:13) Spár stjörnuspekinganna í Babýlon megnuðu ekki að bjarga borginni frá því að leggjast í eyði fyrir fullt og allt. — Jesaja 13:19, 20.

Athyglisvert er þó að trúarbrögð Babýlonar skyldu lifa borgina. Bókin A History of Astrology (Saga stjörnuspekinnar) segir: „Kaldear fluttu stjörnuspekina frá Babýlon til Egyptalands og síðar til Grikklands sem hafði enn meiri þýðingu.“

Það er því hættulegt að aðhyllast þau trúarbrögð sem stjörnuspekin er. Hvers vegna? Vegna þess að Biblían segir öll trúarbrögð, sem eiga rætur sínar að rekja til Babýlonar, eiga að tortímast. Meira að segja fall hinnar fornu Babýlonar er fyrirboði þessarar eyðingar. Í Opinberunarbókinni 18:4 fáum við þessa aðvörun: „Gangið út, mitt fólk, út úr henni [babýlonsku skipulagi], svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar.“

Stjörnuspeki verður því tæplega kölluð ‚skaðlaus skemmtun.‘ (Sjá 5. Mósebók 18:10-12.) Áhugi á stjörnuspeki gæti verið fyrsta skrefið í þá átt að komast undir hættuleg áhrif illra anda og glata vináttusambandi sínu við Guð! (2. Korintubréf 6:17, 18) Að vísu höfum við öll þörf fyrir leiðsögn, en það er miklu öruggara og betra að leita hennar í Biblíunni. (Sálmur 119:105) Þeir sem fara eftir orði Guðs fá raunhæfa hjálp til að takast á við vandamál lífsins, og það er hlutur sem stjörnuspekin er ófær um að veita.

[Mynd á blaðsíðu 8]

Suður-afrískur stjörnuspekingur sagði: „Ég hef sagt allmörgum að hjónaband þeirra væri glatað og að þau ættu að skilja.“

[Mynd á blaðsíðu 9]

Tiltrú Babýlonar til forna á stjörnuspekina megnaði ekki að bjarga henni frá falli.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila