Heilagleiki blóðsins - ævaforn deila
VOTTAR JEHÓVA eru kunnir fyrir það að vilja ekki láta gefa sér blóð. Hvers vegna hafa þeir tekið þessa afstöðu? Vegna þess að Biblían sýnir ótvírætt að blóðið táknar líf skepnunnar eða sál og er því heilagt. Þegar Nóa var leyft að neyta dýrakjöts eftir flóðið fékk hann alvarlega aðvörun: „Aðeins hold, sem sálin, það er blóðið, er í, skuluð þér ekki eta.“ (1. Mósebók 9:4) Þetta bann var endurtekið sérstaklega í lögmálinu sem Guð gaf Ísraelsþjóðinni. (3. Mósebók 17:10) Síðar kröfðust bæði heilagur andi og postularnir þess af kristnum mönnum að þeir ‚héldu sér frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og saurlifnaði.‘ — Postulasagan 15:28, 29.
Vottar Jehóva eru einn af þeim fáu hópum sem halda enn bann Guðs gegn neyslu blóðs. Er það óskynsamlegt af þeim? Svo virðist sem þeir einir álíti þetta bann ná til blóðgjafa. Eru þeir einu biblíunemendurnir sem hafa gert það í aldanna rás?
Neysla blóðs — viðhorf Guðs og manna
Við skulum ræða fyrri spurninguna fyrst: Sannleikurinn er sá að virðing fyrir heilagleika blóðsins hefur lengi greint þjóna Guðs frá þjóðunum í heild. Í gegnum söguna hefur blóð mikið verið notað til matar, jafnvel sem eitur, auk þess sem því hefur verið ætlað að veita spákonum innblástur, binda samsærismenn traustum böndum, innsigla sáttmála og samninga. Hins vegar lýsti biblíufræðingurinn Joseph Benson ágætlega viðhorfum Guðs til þessa máls. Hann sagði: „Við ættum að veita athygli að þetta bann við neyslu blóðs, gefið Nóa og öllum afkomendum hans og endurtekið með mjög svo hátíðlegu móti við Ísraelsmenn fyrir milligöngu Móse, hefur aldrei verið afturkallað. Þess í stað var það staðfest í Nýjatestamentinu, í Postulasögunni xv.; og þar með gert að ævarandi skyldukvöð.“a
Í aldanna rás hafa margir reynt að fylgja trúfastir þessu lagaboði Guðs. Nefna má sem dæmi að árið 177 eftir okkar tímatali, þegar trúarlegir óvinir sökuðu kristna menn ranglega um að leggja börn sér til munns, mótmælti kona að nafni Biblis: „Hvernig gætu slíkir menn etið börn þegar þeim leyfist ekki einu sinni að eta blóð skynlausra skepna?“b Tertúllíanus (um 160-230 e.o.t.) staðfesti að kristnir menn í hans tíð hafi neitað að eta blóð. Og Minucius Felix, rómverskur lögmaður sem dó um árið 250 eftir okkar tímatali, fullyrti: „Svo mjög erum við frábitin mannablóði að við máltíðir okkar forðumst við blóð dýra sem notuð eru til matar.“c
Fáeinum öldum síðar, á kirkjuþingi sem haldið var í Konstantinópel árið 692, var eftirfarandi regla sett: „Heilög ritning bannar að blóð úr dýrum sé etið. Kennimanni, sem neytir blóðs, skal refsað með brottvikningu úr embætti, leikmanni með bannfæringu.“d
Síðan, um 200 árum síðar, sýndi Regino, ábóti í Prüm sem nú heyrir undir Þýskaland, fram á að bann Biblíunnar við neyslu blóðs væri enn virt í hans tíð. Hann skrifaði: „Bréf postulanna, sent frá Jerúsalem, tilkynnir að nauðsynlegt sé að halda þessi atriði í heiðri. (Postulasagan 15) [Kristnir menn verða líka að forðast að eta] það sem er dýrrifið, því það er líka kafnað; og halda sér frá blóði, það er að segja ekki má eta það með blóðinu. . . .
Um leið ber að hafa þetta í huga: Kjöt af köfnuðu og blóð er litið sömu augum og skurðgoðadýrkun og saurlifnaður. Því ætti að kunngera öllum hve svívirðileg synd það er að neyta blóðs, því að það er lagt að jöfnu við skurðgoð og saurlifnað. Ef einhver brýtur þessi boð Drottins og postulanna ber að synja honum um altarissakramenti um skeið þar til hann sýnir viðeigandi iðrun.“e
Á tólftu öld var blóð enn almennt talið heilagt. Til dæmis skrifaði mótmælendapresturinn Joseph Priestley (1733-1804): „Árið 1125 átti Otho, biskup í Bamberg, þátt í að snúa Pomerabúum . . . Það verðskuldar athygli okkar að meðal þeirra fyrirmæla, sem þessu fólki var gefið um sína nýju trú, var að þeim skyldi bannað að neyta blóðs eða kjöts af sjálfdauðu; af því má ráða að á þeim tíma hafi slík fæða verið álitin ólögleg bæði í Evrópu og í öllum öðrum hlutum hins kristna heims.“f
Sautjándu aldar guðfræðingurinn Étienne de Courcelles (1586-1659) var jafnsannfærður um að kristnir menn ættu ekki að neyta blóðs. Hann skýrir Postulasöguna 15:28, 29 með þessum orðum:
„Postularnir ætluðu ekki að koma hér á framfæri fyrirmælum um það sem mönnum væri eiginlegt að forðast og var bannað í lögum heiðingja, heldur aðeins um það sem almennt tíðkaðist um þær mundir og hinir nýkristnu heiðingjar hefðu ekki talið syndsamlegt nema þeir fengju áminningar þar að lútandi. Því að jafnljóst og það er að þeir vissu að þeir yrðu að forðast hvers kyns skurðgoðadýrkun, án þess þó að gera sér grein fyrir að þeir yrðu að sneyða hjá því sem fórnað hefði verið skurðgoðum, eins töldu þeir ekki refsivert að eta dýrablóð þótt þeir álitu það glæp að úthella mannsblóði. Með úrskurði sínum vildu postularnir bæta úr fáfræði þessara manna. Um leið og þeir léttu af þeim oki umskurnar og annarra lagaboða mæltu þeir samt sem áður fyrir um að það skyldi í heiðri haft sem þegar var haldið frá fornu fari af útlendingum meðal Ísraelsmanna, það sem Nóa og sonum hans var boðið.“g
Á 18. öld lét hinn nafntogaði vísindamaður og biblíunemandi Sir Isaac Newton í ljós áhuga sinn á helgi blóðsins. Hann sagði: „Þetta lagaboð [um að halda sé frá blóði] var eldra en frá dögum Móse, gefið Nóa og sonum hans löngu fyrir daga Abrahams; og því undanskildu postlarnir og öldungarnir í Jerúsalem, þegar þeir lýstu yfir að heiðingjum væri ekki skylt að umskerast eða halda lögmál Móse, þetta ákvæði um að halda sér frá blóði og köfnuðu sem eldri lög Guðs gefin ekki aðeins sonum Abrahams heldur öllum þjóðum.“h
Enn þann dag í dag viðurkenna sumar heimildir gildi bannsins við neyslu blóðs. Til dæmis segir ritverkið Encyclopedia of Bible Difficulties sem gefið var út árið 1982: „Sú afleiðing virðist mjög ljós að okkur beri enn að virða heilagleika blóðsins, því að Guð hefur gefið því það hlutverk að tákna friðþægingarblóð Jesú Krists. Þess vegna má enginn trúaður maður, sem vill vera hlýðinn Ritningunni, neyta þess.“
Því hafa margir talið — og sumir telja enn — að trúuðum mönnum beri að halda bannið við neyslu blóðs. Vottar Jehóva eru þeim sammála. Þótt fæstir „kristnir menn“ okkar tíma haldi þetta lagaboð Ritningarinnar gerir það afstöðu vottanna ekki óskynsamlega. Öllu heldur er það enn eitt merki um hversu fjarlægur kristni heimurinn er orðinn sannri kristni.
En hvað þá um blóðgjafir? Jafnvel rétttrúaðir Gyðingar, sem forðast samviskusamlega að neyta blóðs, virðast ekkert sjá athugavert við þær. Til dæmis segir ritverkið Jewish Medical Ethics: „Blóðgjafir hafa alltaf verið leyfðar, jafnvel til tímabundinnar geymslu blóðs í blóðbönkum eða sem greiðsla.“ Eru það þá aðeins vottar Jehóva sem hafa talið boðið um að halda sér frá blóði eiga við blóðgjafir?
Notkun blóðs við lækningar
Í fyrsta lagi, hvernig hefðu frumkristnir menn litið á almenna notkun blóðs við lækningar? Hundruðum ára fyrir daga postulanna skrifaði læknir Esarhaddon konungi um meðferð sem hann lét konungssoninn gangast undir. Hann segir: „Samas-sumu-úkín heilsast mun betur; konungurinn, herra minn, getur glaðst. Frá og með 22. degi gef ég (honum) blóð að drekka, hann mun drekka (það) í þrjá daga. Í þrjá daga til viðbótar mun ég gefa (honum blóð) til innvortis nota.“i Hefði nokkur trúfastur Gyðingur þeirra tíma, eða nokkur sannkristinn maður síðar, geta fallist á slíka meðferð?
Læknirinn Areteus frá Kappadókíu, uppi á annarri öld, lýsir því hvernig blóð var notað í hans tíð til að lækna flogaveiki: „Ég hef séð menn halda bikar undir sári nýdrepins manns og teyga síðan blóðið!“j Náttúrufræðinguinn Pliníus á fyrstu öld greinir einnig frá því að mannablóð hafi verið notað sem lyf gegn flogaveiki. Haldið var áfram að nota blóð við lækningar langt fram eftir öldum. Sagnfræðingurinn Reay Tannahill nefnir dæmi: „Loðvík XI Frakkakonungur lá til dæmis fyrir dauðanum árið 1483. ‚Honum hrakaði dag frá degi og lyf gögnuðu honum ekkert þótt undarleg væru; því hann vonaði ákaft að mannsblóð úr nokkrum börnum, sem hann drakk, veitti honum bata.‘“k
Já, notkun blóðs í lækningarskyni á sér langa sögu. Vafalaust trúðu margir á lækningarmátt þess — þótt Areteus hefði sínar efasemdir. En Ritningin heimilar engar undantekningar frá því ákvæði að menn ‚haldi sér frá blóði.‘ Sumir andmæla ef til vill á þeim forsendum að áðurnefnd „meðferð“ hafi falist í því að blóð væri tekið inn um munninn, drukkið, og að öðru máli gegni um blóð sem gefið er í æð.
Blóðgjafir og fyrirskipun postulanna
Fyrsta blóðgjöfin, sem sögur fara af, er talin hafa átt sér stað árið 1492. Blóðþeginn var Innocentíus páfi VIII. Samtímafrásögn af atburðinum hljóðar svo: „Á meðan hafa þrengingar og dauði í borginni [Róm] aldrei tekið enda; því að í fyrsta lagi dóu þegar í stað þrír tíu ára drengir, sem gyðingalæknir nokkur tók blóð (hann hafði lofað að páfinn kæmist aftur til heilsu). Því að Gyðingurinn hafði sagt þeim að hann vildi lækna páfann ef hann aðeins gæti fengið visst magn af mannablóði og það ungu. Hann bauð því að það skyldi tekið úr þrem drengjum og gaf þeim eftir blóðtökuna sinn dúkat hverjum; og skömmu síðar dóu þeir. Gyðingurinn forðaði sér og páfinn læknaðist ekki.“l
Á síðari helmingi sautjándu aldar voru gerðar frekari tilraunir með blóðgjafir. Ítalski læknirinn Bartolomeo Santinelli efaðist um lækningagildi þeirra. En hann var líka á móti þeim af öðrum orsökum. Hann skrifaði:
„Oss skal nú leyfast að fara um stund út fyrir mörk læknisfræðinnar, svo og til að veita megi forvitnum lesanda meira en fullnægjandi svar, því að þegar hefur verið sýnt fram á með læknisfræðilegum rökum að blóðgjafir séu óhentugar, lát oss því leyfast að staðfesta það enn frekar með áminningum hinnar helgu bókar, því að ekki aðeins læknum heldur alls kyns lærðum mönnum skal kunnugt verða hve ógeðfelldar þær eru. . . . Þótt sannarlega væri bannið við notkun blóðs einungis miðað við að maðurinn skyldi ekki eta það, og af þeim sökum kann það síður að virðast eiga við málefni okkar, er tilgangur fyrirmælanna á móti blóðgjöfum nútíðar, svo að sá sem beitir þeim [blóðgjöfum] virðist rísa á móti Guði sem sýnir miskunn.“a
Já, Santinelli leit á blóðgjafir sem brot á lögum Guðs. Danski fræðimaðurinn Tómas Bartolin var sama sinnis. Árið 1673 skrifaði hann: „Vökvagjafir í höndum byrjenda hafa farið úr böndum á síðusta árum, því að dælt er um opna æð inn í hjarta sjúks manns ekki aðeins endurnærandi vökvum heldur líka volgu blóði dýra eða [blóði] eins manns til annars . . . Hinn lærði maður Elsholtz (í 7. kafla New Clyster) færir að vísu fram því til málsbóta að skilja beri hinn postullega úrskurð um að eta blóð svo að hann eigi við að blóð fari inn um munninn en eigi alls ekki við innspýtingu blóðs í æð. Á hvorn veginn sem blóð er tekið inn er tilgangurinn þó sá sami, það er að næra eða koma sjúkum líkama aftur til heilsu.“b
Ljóst er því að spurningin um hvort nota ætti blóð til matar eða veita því í æð er alls ekki ný af nálinni. Þessar blóðgjafir fyrr á öldum skiluðu ekki árangri sem lækningaaðferð, en mörgum fræðimönnum var þó fyrst og fremst áhyggjuefni að þær brutu gegn lögum Guðs.
Blóðgjafir okkar tíma hafa reynst mun betur í þá veru að flestir lifa meðferðina af. Samt sem áður geta vottar Jehóva ekki, frekar en einlægir biblíunemendur fyrr á tímum, verið sammála hinni útbreiddu notkun blóðs við lækningar á vegu sem lög Guðs banna. Þótt afstaða vottanna valdi oft misskilningi eru þeir staðráðnir fyrir sitt leyti að hlýða úrskurði postulanna: „Haldið yður frá . . . blóði.“ — Postulasagan 15:29; 5:29.
[Neðanmáls]
a The Holy Bible, Containing the Old and New Testaments eftir Joseph Benson, New York 1839, 1. bindi, bls. 43.
b The Ecclesiastical History eftir Evsebíus, V. i. 26, Loeb Classical Library, Cambridge og London, 1980, bls. 419.
c Sjá einnig Octavius eftir Minucius Felix, 30. kafla, Loeb Classical Library, Cambridge og London, 1977, bls. 409.
d A History of the Council of the Church, From the Original Documents eftir Charles Joseph Hefele, Edinborg, 1896, bls. 232.
e Libri duo de ecclesiasticis disciplinis et religione Christiana (Tvær bækur um kirkjukenningar og kristna trú) eftir Regino, sjá Patrologia Latina eftir Migne, 132 bindi, París 1853, 354. og 355. dálkur.
f The Theological and Miscellaneous Works eftir Joseph Priestley, IX bindi (1818), bls. 366.
g Diatriba de esu sanguinis inter Christianos (Hugleiðing um neyslu blóðs meðal kristinna manna) eftir Étienne de Courcelles; Sjá Opera theologica (Guðfræðiverk), Amsterdam, 1675, bls. 971.
h The Chronology of Ancient Kingdoms Amended eftir Sir Isaac Newton, Dublin, 1728, bls. 184.
i Letters from Assyrian Scholars to the Kings Esarhaddon and Assurbanipal, 1. hluti: Textar, eftir Simo Parpola, Neukirchen-Vluyn, 1970, bls. 201.
j The Extant Works of Aretæus, the Cappadocian, í þýðingu og ritstjórn Francis Adams, London, 1856, bls. 471.
k Flesh and Blood, A History of the Cannibal Complex eftir Reay Tannahill, New York (1975), bls. 63, 64.
l Diario della Citta di Roma di Stefano Infessura (Dagbók Rómaborgar) gefin út af Oreste Tommasini, Róm, 1890, bls. 275, 276.
a Confusio transfusionis, sive confutatio operationis transfundentis sanguinem de individuo ad individuum (Blóðgjöfum kollvarpað eða hrakin sú aðgerð að veita blóði frá manni til manns) eftir Bartolomeo Santinelli, Róm, 1668, bls. 130, 131.
b De sanguine vetito disquisitio medica (Ítarleg læknisfræðileg umfjöllun um bannið gegn blóði) eftir Tómas Bartolin, Frankfurt, 1673, bls. 11.
[Innskot á blaðsíðu 23]
Virðing fyrir heilagleika blóðsins hefur lengi greint þjóna Guðs frá þjóðunum í heild.
[Innskot á blaðsíðu 24]
„Svo mjög erum við frábitin mannablóði að við máltíðir okkar forðumst við blóð dýra sem notuð eru til matar.“ — Minucius Felix.
[Innskot á blaðsíðu 24]
„Kennimanni, sem neytir blóðs, skal refsa með brottvikningu úr embætti, leikmanni með bannfæringu.“
[Innskot á blaðsíðu 25]
„Því ætti að kunngera öllum hve svívirðileg synd það er að eta blóð, því að það er lagt að jöfnu við skurðgoð og saurlifnað.“
[Innskot á blaðsíðu 26]
‚Sá sem beitir blóðgjöfum virðist rísa á móti Guði sem sýnir miskunn.‘ — Læknir á 17. öld.
[Innskot á blaðsíðu 27]
‚Inntaka blóðs um munninn eða um æð hefur einn og sama tilgang, þann að næra eða koma sjúkum manni aftur til heilsu.‘ — Fræðimaður á 17. öld.
[Mynd á blaðsíðu 23]
Mynd af fyrirhugaðri blóðfærslu frá hundi árið 1693.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Sjúkri konu gefið blóð úr lambi árið 1874.