Horft á heiminn
Þessi hluti blaðsins er nú helgaður alvarlegu ástandi sem upp er komið í ‚vöggu lýðræðisins.‘
Trúarofsóknir á Grikklandi — hvers vegna?
SUNNUDAGINN 15. júní 1986 voru um 700 kristnir vottar Jehóva saman komnir á friðsömu móti í Galaxias-kvikmyndahúsinu í Larisa á Grikklandi. Hér var um að ræða svonefnt svæðismót (haldin tvisvar á ári) sem þeir héldu til náms í Biblíunni og til að fræðast betur um hvernig fylgja mætti kristnum meginreglum hennar í hinu daglega lífi.
Samkoma þessi var haldin samkvæmt heimild í hinni nýju stjórnarskrá Grikklands, sem tók gildi árið 1975, þar sem segir að „Grikkir skuli hafa rétt til að safnast saman með friðsömum hætti og óvopnaðir.“ Þar segir einnig: „Frelsi samviskunnar í trúmálum er friðheilagt.“ Síðan segir: „Starfsemi allra þekktra trúarbragða skal vera heimil og trúar- og tilbeiðsluathafnir þeirra skulu fara fram hindrunarlaust og njóta lagaverndar.“
En um klukkan ellefu þennan júnídag áttu sér stað ískyggilegir atburðir við kvikmyndahúsið þar sem kristnir vottar Jehóva voru saman komnir til friðsamlegs mótshalds. Borgarblaðið I Larisa segir svo frá því sem gerðist: „Hundruð manna, einkum meðlimir kristinna trúfélaga [grískra rétttrúnaðarmanna] í bænum, með fáeina presta í broddi fylkingar, tóku að safnast saman og láta í ljós vanþóknun sína á þeim sem í kvikmyndahúsinu voru — yfir 700 vottum Jehóva. Engu líkara var en mannföldinn væri í þann mund að ráðast til inngöngu í kvikmyndahúsið og stöðva mótið.“
Múgurinn umkringdi kvikmyndahúsið svo klukkustundum skipti og ástandið var orðið mjög uggvænlegt. Hvað kom í veg fyrir að þessi múgur gripi til ofbeldis gegn vottum Jehóva?
Komið í veg fyrir ofbeldi
Dagblaðið heldur áfram: „Umdæmissaksóknari kom á vettvang ásamt fjölmennu lögregluliði og hafði hemil á fjöldanum sem hélt áfram að æpa frá gangstéttinni hinum megin götunnar og syngja kirkjusálma sína.“
Hvernig komust vottarnir úr þessari hættu? Bæjardagblaðið Eleftheria segir svo frá: „Umdæmissaksóknari fyrsta dómstigs, hr. Spiros Spiliopoulos . . . varð að vera á staðnum í nokkrar klukkustundir og beita allri . . . stjórnkænsku sinni til að dreifa fjöldanum um klukkan hálfþrjú síðdegis, rétt í sömu mund og vottar Jehóva voru tilbúnir til að yfirgefa kvikmyndahúsið. Þannig tókst að bægja frá hættunni á ofbeldi.“
Hættan á að ofbeldi brytist út við þetta tækifæri kom vel fram í eftirfarandi orðum prests sem sama blað hafði eftir: „Næst þegar borgarstjórinn lánar [vottunum] kvikmyndahúsið tökum við með okkur skóflur og brjótum allt í spón!“
Biskupinn mælir
Hvað fannst hinum æðri, kirkjulegu yfirvöldum um þessa hneykslanlegu hegðun prestanna og fylgjenda þeirra? Eleftheria sagði svo frá: „Okkar háæruverðugi biskup Serafím lauk lofsorði á hóp hinna trúföstu sem þátt tóku í mótmælaaðgerðunum.“ Blaðið bætti því við að hann hafi „látið í ljós einlæga gleði yfir virkri nærveru fólksins [rétttrúnaðarmanna] og hugheilar óskir um að Drottinn styðji og styrki hina trúföstu þannig að þeir geti, hvenær sem þörf krefur, látið finna til nærveru sinnar með virkum og áhrifamiklum hætti.“
Biskupinn gagnrýndi borgaryfirvöld í Larisa fyrir að leyfa „óvinum kirkjunnar og lands vors“ að nota kvikmyndahúsið „til síns andkristilega móts.“ Síðan beindi hann þessari duldu hótun til yfirvalda: „Þjóð vor, herrar mínir, er opinberlega rétttrúnaðarþjóð, og erindrekar hennar hafa ekki rétt til að veita óvinum hennar virkan stuðning.“ Hann bætti við: „Hið kristna rétttrúnaðarfólk mun ekki leyfa það og ekki fyrirgefa leiðtogum sínum þetta.“
Viðbrögð fjölmiðla
Fjölmargt Grikkja lét í ljós andúð sína á þessu nýja dæmi um umburðarleysi grísku rétttrúnaðarkirkjunnar. Svo áratugum skiptir hafa vottarnir mátt þola ofsóknir og auðmýkingu af hendi klerkanna.
Dagblaðið I Alithia birti grein eftir Sarantos Vounatsos sem bar heitið „Við jaðar lífsins — eins og farísear.“ Hann spurði viðvíkjandi fjöldaaðgerðunum: „Hvers vegna allt þetta? Og hverjir voru höfuðpaurarnir? Ef mér skjátlast ekki héldu [vottarnir] einhvers konar samkomu. Og hverjir voru hinir? Nokkrir prestar og múgur sem fylgdi þeim!“
Vounatsos hélt áfram: „‚Rekið [vottana] í gegn,‘ hrópaði múgurinn. En var þetta fólk, þessi múgur, kristnir menn? Þeir létu það að minnsta kosti heyrast á hrópum sínum, meira að segja með ofstæki! Og því miður var ‚leiðtogi‘ þeirra bandóður . . . prestur! Hann hafði í hótunum, lastmælti, prédikaði oflátungslega, og um tíma minnti hann á ‚flugræningja‘ því að hann veifaði úrinu sínu og gaf þeim sem voru innandyra fimm mínútur til að yfirgefa kvikmyndahúsið; að öðrum kosti . . . myndu aftökurnar hefjast! ‚Annars munum við ráðast inn og mola höfuð þeirra, bræður mínir,‘ var haft eftir honum.“
Greinarhöfundur fordæmdi athafnir prestanna gegn vottunum og spurði: „Hvers vegna? Gerðu þeir ykkur mein? Hvernig? Með samkomu sinni? Af hverju haldið þið þá ekki samkomu? Slógu þeir ykkur utan undir? Snúið þá að þeim hinum vanganum! Í staðinn gjaldið þið auga fyrir auga! Hvers vegna? Brugðu þeir hnífi að hási ykkar? Ætlið þið að ráðast að þeim með ofbeldi? Það voru mistök að gerast prestur! . . . Ætlið þið að hegða ykkur eins og farísear? Varið ykkur, því að ef þið haldið uppteknum hætti munuð þið hvorki njóta miskunnar eða náðar [Guðs] framar, né okkar.“
Í júlí birti aþenska sunnudagsblaðið Eleftherotipia grein undir heitinu: „Trúarofsóknir: Evrópa áfellist Grikki þegar kirkjulegir ofstækismenn kveikja í, ógna og misþyrma.“ Þar var bent á að dagblöð erlendis væru farin að ræða um trúfrelsi á Grikklandi. Vitnað var í The Wall Street Journal þann 16. júní 1986 sem birti grein undir yfirskriftinni „Forystumenn annarra trúfélaga saka grísku rétttrúnaðarkirkjuna um að bæla niður starfsemi þeirra.“
Eleftherotipia skýrði frá því að rétttrúnaðarkirkjan starfrækti í hverfi erlendra sendiráða í Aþenu stofnun til baráttu gegn trúvillu. Þar situr presturinn Antonios Alevizopoulos og „skrifar flugrit gegn starfi vakningarprédikara, hvítasunnumanna, og votta Jehóva sem allir eru trúvillingar að hans áliti og ‚hættulegir einstaklingnum og þjóðfélaginu.‘“
Haft er eftir einum trúboða mótmælenda að mörg hundruð hafi verið handteknir fyrir trúboð nokkur undanfarin ár, „þeirra á meðal 890 vottar Jehóva aðeins árið 1983.“
Í sömu frétt í Efeftherotipia var greint frá ýmsum ódæðisverkum sem unnin hafa verið gegn vottum Jehóva á Grikklandi. Þar á meðal var minnst á að kveikt hefði verið í heimilum vottanna, brotnar hurðir og gluggar fyrirlestrasala og reynt að hleypa upp biblíusamkomum þeirra.
Hámark fréttarinnar var að prestur var sagður hafa ráðist á 79 ára gamlan vott úti á götu sem dró hann til dauða nokkru síðar. Ekki er að undra að dagblaðið skyldi segja að „trúfrelsi stæði völtum fótum á fæðingarstað lýðræðisins.“
Það er nánast ótrúlegt að trúarofsóknir, skrílslæti og umburðarleysi að undirlagi presta skuli geta átt sér stað enn þann dag í dag á Grikklandi sem um aldaraðir hefur verið nefnt ‚vagga lýðræðisins.‘ Hvernig getur slíkt gerst í landi þar sem stjórnarskráin kveður skýrt á um trúfrelsi?
Úrelt lög
Að baki þessu búa úrelt lög, sem enn eru í gildi, þótt þau séu ekki tekin með í stjórnarskrána. Fyrir nálega hálfri öld, síðla á 4. áratugnum, réði einræðisherrann Metaxas lögum og lofum á Grikklandi þótt það væri konungsríki að nafninu til. Á þeim tíma voru sett lög sem höfðu það markmið að hafa hemil á byggingu tilbeiðslustaða annarra en rétttrúnaðarmanna.
Í þessum gömlu lögum er að finna eftirfarandi ákvæði: „Óheimilt er að stunda trúboð að viðlagðri fangelsisvist og sektum.“ En hvernig var trúboð skilgreint? Í lögunum segir: „Í hugtakinu ‚trúboð‘ felst eftirfarandi: Sérhver bein eða óbein tilraun til að hafa áhrif á trúarlega samvisku þess sem er annarrar trúar í þeim tilgangi að breyta samvisku hans.“
Samkvæmt þessari skilgreiningu væri meira að segja ólöglegt að ræða um mismun á trúarskoðunum! Það mætti skoða sem tilraun til að ‚hafa áhrif á trúarlega samvisku annarra í þeim tilgangi að breyta henni‘! En það að lögsækja og fangelsa löghlýðið fólk fyrir að skiptast á skoðunum um trúarleg atriði er afturhvarf til hinna myrku miðalda. Slíkt umburðarleysi þekkist hvergi í öðru vestrænu lýðræðisríki nú til dags.
Beiting þessara gömlu laga er mikið ranglæti í garð votta Jehóva og annarra á Grikklandi. Það stingur illilega í stúf við það frelsi sem stjórnarskrá Grikklands á að tryggja.
Dómsmál á Krít
Deilan um trúfrelsi kom líka nýverið upp á eynni Krít sem heyrir undir Grikkland. Kristnir vottar Jehóva þar hófu málarekstur til að fá skráningu sem lagalega viðurkennt félag. Beiðnin var samþykkt en biskuparnir á Krít báru upp mótmæli við dómstólinn og samþykktin var dregin til baka.
Á hvaða grundvelli? Þeim að kenningar votta Jehóva samræmdust ekki skilgreiningunni á kristinni trú samkvæmt túlkun grísku rétttrúnaðarkirkjunnar! En vottar Jehóva um allan heim eru alkunnir fyrir að vera kristnir menn sem trúa á Jesú Krist sem lausnara og son Guðs og hlýða kenningum hans. Stjórnir ýmissa landa um víða veröld hafa sýnt svo rækilega fram á það með lögum að vottar Jehóva séu kristið trúfélag, að þessi fullyrðing kirkjunnar er fáránleg.
Vottar Jehóva hafa skotið máli sínu til æðri dómstóls. Þeir treysta að réttvísin fái að ráða og verði ekki látin lúta ofríki rétttrúnaðarkirkjunnar.
Lögin gegn trúboði (og úrskurður dómstólsins á Krít) eru stjón Grikklands feimnismál. Á alþjóðavettvangi eru þau líka álitshnekkir því landi sem kallað hefur verið ‚vagga lýðræðisins.‘
Það ber að vona að hið gríska réttarkerfi muni fella dóm í samræmi við hina ágætu stjórnarskrá og trúfrelsisákvæði mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem Grikkland er aðili að.