Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g97 8.7. bls. 16-18
  • Vottar Jehóva fá uppreisnæru í Grikklandi

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Vottar Jehóva fá uppreisnæru í Grikklandi
  • Vaknið! – 1997
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Trúfrelsi og mannréttindi
  • Vottar Jehóva verða ekki stöðvaðir
  • Trúfrelsi haldið á loft
  • Enginn brandari
  • Alþjóðadómstóll í Evrópu — Hvers vegna?
    Vaknið! – 1996
  • Baráttan fyrir trúfrelsi
    Ríki Guðs stjórnar
  • Boðberar Guðsríkis verja rétt sinn fyrir dómstólum
    Ríki Guðs stjórnar
  • Trúarofsóknir á Grikklandi — hvers vegna?
    Vaknið! – 1986
Sjá meira
Vaknið! – 1997
g97 8.7. bls. 16-18

Vottar Jehóva fá uppreisnæru í Grikklandi

Eftir fréttaritara Vaknið!

RÉTTTRÚNAÐARPRESTURINN í þorpinu Gazi á Krít sagði í einni af prédikunum sínum: „Vottar Jehóva eru með sal hérna í þorpinu okkar. Ég þarf stuðning ykkar til að losna við þá.“ Kvöld eitt, nokkrum dögum síðar, var skotið á ríkissalinn og rúðurnar brotnar í honum. Ekki er vitað hverjir voru að verki, en trúfrelsisdeilan var þar með aftur í brennidepli í Grikklandi.

Vegna þessara atburða lögðu fjórir vottar á staðnum, þeir Kyriakos Baxevanis, Vassilis Hatzakis, Kostas Makridakis og Titos Manoussakis, fram formlega beiðni til mennta- og kirkjumálaráðherra um leyfi til að halda trúarlegar samkomur. Með slíku leyfi vonuðust þeir til að tryggja sér lögregluvernd síðar. En málið reyndist flóknara en þetta.

Presturinn sendi bréf til aðalstöðva öryggislögreglunnar í Herakleion og vakti athygli yfirvalda á því að vottar Jehóva væru með ríkissal í sókninni og fór fram á að gripið yrði til refsiaðgerða og samkomur þeirra bannaðar. Lögreglurannsókn og yfirheyrslur komu í kjölfarið. Loks höfðaði saksóknari refsimál á hendur vottunum og málið kom til kasta dómstóla.

Hinn 6. október 1987 sýknaði dómstóllinn í Herakleion sakborningana fjóra. Í dómsniðurstöðunni sagði að „þeir hefðu ekki gerst sekir um það sem þeir voru ákærðir fyrir, því að meðlimum trúfélaga sé heimilt að halda samkomur . . . og til þess þurfi ekkert leyfi.“ En saksóknari áfrýjaði tveim dögum síðar og málið fór fyrir æðra dómsstig. Hinn 15. febrúar 1990 dæmdi þessi dómstóll vottana í tveggja mánaða fangelsi og um 7000 króna sekt. Sakborningarnir áfrýjuðu þá til Hæstaréttar Grikklands.

Hinn 19. mars 1991 vísaði Hæstiréttur áfrýjuninni frá og staðfesti þar með dóm undirréttar. Rúmlega tveim árum síðar, þegar niðurstaða Hæstaréttar var gerð opinber, lokaði lögregla ríkissalnum. Eins og skjöl lögreglunnar bera vitni stóð rétttrúnaðarkirkjan á Krít fyrir þessari aðgerð.

Þessa stöðu mála má rekja til þess að enn eru í gildi í Grikklandi lög frá 1938 sem sett voru í því skyni að takmarka trúfrelsi. Þau kveða á um að fá þurfi leyfi mennta- og kirkjumálaráðuneytis og einnig biskups rétttrúnaðarkirkjunnar á staðnum til að starfrækja tilbeiðsluhús. Þessi lög, sem eru alger tímaskekkja, hafa um nokkurra áratuga skeið valdið vottum Jehóva margvíslegum erfiðleikum.

Trúfrelsi og mannréttindi

Hinn 7. ágúst 1991, eftir að vottarnir fjórir komust að raun um að Hæstiréttur hafði staðfest dóminn, óskuðu þeir eftir að Mannréttindanefnd Evrópuráðsins í Strassborg í Frakklandi tæki málið fyrir. Þeir héldu því fram að dómurinn væri brot á 9. grein mannréttindasáttmála Evrópu sem kveður á um skoðana-, samvisku- og trúfrelsi, og rétt til að iðka trú sína einn eða í félagi við aðra, í einrúmi eða opinberlega.

Hinn 25. maí 1995 felldu nefndarmennirnir 25 einróma þann úrskurð að Grikkland hefði brotið gegn 9. grein mannréttindasáttmálans. Í úrskurðinum sagði að umræddur dómur hefði ekki verið í anda trúfrelsis og væri ekki nauðsynlegur í lýðræðisþjóðfélagi. Um réttmæti þess að taka málið fyrir sagði í úrskurðinum: „Trúarsiðir og trúarathafnir þeirrar hreyfingar, sem umsækjendurnir . . . tilheyra, eru alþekktar og leyfðar í mörgum Evrópuríkjum.“ Nefndin vísaði málinu síðan til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Vottar Jehóva verða ekki stöðvaðir

Réttarhöldin voru ákveðin 20. maí 1996. Meira en 200 manns voru í réttarsalnum, þeirra á meðal nemar og prófessorar frá háskólanum á staðnum, blaðamenn og fjöldi votta Jehóva frá Grikklandi, Þýskalandi, Belgíu og Frakklandi.

Phédon Vegleris, fyrrverandi prófessor við Aþenuháskóla og lögmaður vottanna, hélt því fram að stefna grískra stjórnvalda og dómar þeirra væru bæði brot á mannréttindasáttmála Evrópu og grísku stjórnarskránni. „Dómstóllinn er því að fjalla um landslög og beitingu þeirra.“

Lögmaður grísku stjórnarinnar, sem var dómari úr ríkisráðinu, fjallaði lítið um staðreyndir viðkomandi málinu heldur vísaði til afstöðu grísku rétttrúnaðarkirkjunnar, náinna tengsla hennar við ríkið og þjóðina og meinta þörf á að halda öðrum trúfélögum í skefjum. Enn fremur sagði hann að vottum Jehóva hefði fjölgað verulega síðan 1960. Með öðrum orðum hefði einokun rétttrúnaðarkirkjunnar verið storkað með ágætum árangri!

Trúfrelsi haldið á loft

Dómur skyldi falla 26. september. Mikil spenna lá í loftinu, einkum meðal votta Jehóva. Forseti dómsins, Rudolf Bernhardt, las upp úrskurðinn: Hinn níu manna dómstóll hafði komist einróma að þeirri niðurstöðu að Grikkland hefði brotið gegn 9. grein mannréttindasáttmála Evrópu. Umsækjendum voru jafnframt dæmdar hér um bil 1,2 milljónir króna til að standa straum af kostnaði. Mestu skipti þó að í úrskurðinum komu fram margvísleg rök fyrir trúfrelsi.

Dómurinn benti á að grísk lög heimiluðu „víðtæk afskipti stjórnvalda, stjórnmálamanna og kirkjulegra yfirvalda af beitingu trúfrelsis.“ Hann bætti við að sú aðferð, sem ríkið beitti við leyfisveitingar, „setji ströng skilyrði eða jafnvel skorður við trúariðkunum vissra óhefðbundinna hreyfinga, einkum votta Jehóva.“ Þessi alþjóðadómstóll dró fram í dagsljósið hinar grimmilegu aðferðir grísku rétttrúnaðarkirkjunnar um áratuga skeið.

Dómurinn lagði áherslu á að „sá trúfrelsisréttur, sem tryggður er samkvæmt sáttmálanum, útiloki að ríkið hafi nokkurn ákvörðunarrétt um það hvort trúarskoðanir eða tjáningarform þeirra sé lögmætt.“ Hann lagði einnig áherslu á að „vottar Jehóva falli undir skilgreininguna ‚þekkt trúfélag‘ samkvæmt grískum lögum . . . Stjórnin hefur auk þess viðurkennt það.“

Enginn brandari

Flest helstu dagblöð Grikklands fjölluðu um dómsniðurstöðuna næstu daga. Sunnudaginn 29. september 1996 sagði dagblaðið Kathimerini: „Þótt gríska ríkið reyni að afgreiða dóminn sem ‚brandara‘ er ‚löðrungur‘ Mannréttindadómstólsins í Strassborg staðreynd sem er rækilega skjalfest á alþjóðavettvangi. Dómstóllinn minnti Grikki á 9. grein mannréttindasáttmálans og fordæmdi gríska löggjöf einróma.“

Aþenublaðið Ethnos sagði 28. september 1996 að Evrópudómstóllinn hafi „fordæmt Grikki og skipað þeim að greiða bætur til þegna sinna sem eru svo óheppnir að vera vottar Jehóva.“

Einn af lögmönnum umsækjenda, Panos Bitsaxis, sagði í útvarpsviðtali: „Við lifum á árinu 1996, við þröskuld 21. aldar, og það þarf varla að taka það fram að stjórnvöld ættu ekki að mismuna fólki, áreita það eða hafa afskipti af því að það beiti grundvallarréttindum sínum til trúfrelsis. . . . Þetta er kjörið tækifæri fyrir stjórnina til að endurskoða stefnu sína og hætta þessari heimskulegu mismunun sem þjónar alls engum tilgangi nú á dögum.“

Úrskurðurinn í máli Manoussakis og annarra gegn Grikklandi vekur vonir um að gríska ríkið samræmi löggjöf sína dómi Evrópudómstólsins, þannig að vottar Jehóva í Grikklandi geti notið trúfrelsis án afskipta stjórnvalda, lögreglu eða kirkju. Þetta er reyndar annar dómurinn í trúfrelsismálum sem Evrópudómstóllinn fellir gegn gríska dómskerfinu.a

Alkunna er að vottar Jehóva hlýða „yfirvöldum“ í öllu sem stríðir ekki gegn orði Guðs. (Rómverjabréfið 13:1, 7) Þjóðfélaginu stafar alls engin hætta af þeim. Í ritum sínum og boðunarstarfi meðal almennings hvetja þeir alla til löghlýðni og friðsemdar. Vottar Jehóva eru heiðarlegt og þekkt trúfélag og safnaðarmenn hafa stuðlað mjög að velferð nágranna sinna. Einbeitni þeirra í að halda hinar góðu siðferðisreglur Biblíunnar og náungakærleikurinn, sem birtist sérstaklega í biblíufræðslustarfi þeirra, hefur haft heilnæm áhrif í þeim ríflega 200 löndum þar sem þeir starfa.

Vonandi eiga dómar Evrópudómstólsins eftir að stuðla að auknu trúfrelsi votta Jehóva og allra annarra trúarlegra minnihlutahópa í Grikklandi.

[Neðanmáls]

a Fyrri dómurinn féll árið 1993 í máli Kokkinakis gegn Grikklandi. — Sjá Varðturninn (enska útgáfu) 1. september 1993, bls. 27.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Lögregla lokar ríkissalnum 20. september 1993.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Vottarnir sem hlut áttu að máli: T. Manoussakis, V. Hatzakis, K. Makridakis og K. Baxevanis.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila