Það gerist allt í kringum okkur
„Árið 1984 tengdust orðin ‚trúarbrögð‘ og ‚stjórnmál‘ í fréttum fjölmiðla í öllum heimshornum. . . . Anglíkanski biskupinn Desmond Tutu varð tákn baráttu kirkju og ríkis um aðskilnaðarstefnuna. . . . Í blessunarbæn á [stjórnmála-]þingi kallaði Jerry Falwell, bókstafstrúarleiðtogi hins siðprúða meirihluta, Reagan forseta og George Bush varaforseta ‚verkfæri Guðs til að endurreisa Ameríku.‘“ — 1985 Britannica Book of the Year.
„Frá Póllandi til Filippseyja . . . tala biskupar og prestar opinskátt gegn ríkisvaldi þess lands sem þeir búa í. Kirkjan er ekki bara staður þar sem Guð er dýrkaður; hún er líka staður þar sem kynt er undir andófi.“ — Glasgow Herald, 3. janúar 1985.
HEFUR þú lesið fréttir eins og hér að ofan? Trúlega, því að flest höfum við veitt því athygli að trúarbrögð og stjórnmál eru oft nátengd í fréttum fjölmiðla. Álítur þú rétt að blanda saman trú og stjórnmálum?
Sumir segjast aldrei ræða um trúarbrögð eða stjórnmál. Þrátt fyrir það er það þinn hagur að vera upplýstur um hvað er að gerast á sviði trúmála og stjórnmála og þau áhrif sem það kann að hafa á líf þitt. Með því að kynna þér hvað Biblían segir um þetta mál kemst þú auk þess að raun um að Guð hefur margt að segja um afskipti trúarbragða af stjórnmálum og þær afleiðingar sem þau munu hafa.
Alþjóðlegt fyrirbæri
Í fyrstu er gott að athuga hve útbreidd afskipti trúarbragða af stjórnmálum eru. Hér fara á eftir glefsur úr fjölmiðlum.
◼ Þann 21. apríl 1986: „Kaþólska kirkjan á Filippseyjum nýtur mikillar virðingar fyrir hlut sinn í að steypa Ferdinand Marcosi forseta af stóli. Kirkjur anglíkana, meþódista og kaþólskra í Suður-Afríku hafa um árabil barist gegn aðskilnaðarstefnu stjórnvalda. Undir kjörorðinu ‚frelsisguðfræði‘ eru kaþólskir prestar í rómönsku Ameríku á kafi í því að reyna að koma frá stjórnum sem eru taldar kúga fátæka.“
◼ Seúl í Suður-Kóreu þann 9. mars 1986: „Rómversk-kaþólski erkibiskupinn í Suður-Kóreu, Stephen Kim Sou Hwan kardináli, lýsti í dag yfir stuðningi við kröfur stjórnarandstöðunnar um tafarlausar stjórnarskrárbreytingar.“
◼ Þann 18. ágúst 1986: ‚Frambjóðandinn er vígður og herskár mótmælendaprestur og berst fyrir því að losa flokk sinn úr greipum hófsamra afla sem hann fyrirlítur. Hver er þessi harðfylgni og stefnumarkandi frambjóðandi til forsetakjörs? Svo hlálegt sem það er á þessi lýsing jafn vel við tvo presta: Pat Robertson á hægri væng repúblikanaflokksins og Jesse Jackson á vinstri væng demókrataflokksins.‘ ‚Fjársöfnunarbréf, þar sem getið var um þann árangur sem frambjóðendur [Robertsons] til þings höfðu náð, hófst með þessum orðum: „Kristnir menn hafa sigrað! . . . Hvílík tímamót fyrir ríkið [Guðsríki]!‘“
◼ Brasilía, höfuðborg Brasilíu þann 3. júlí 1986: „Kirkjan hefur þegar gengið fram fyrir skjöldu sem harðasti gagnrýnandi hinnar nýju, borgaralegu stjórnar . . . Þar af leiðandi er samband ríkis og kirkju aftur í uppnámi. Embættismenn saka presta um að gera allt of mikið úr ástandinu til sveita og sumir biskupar saka stjórnina um að grípa til ‚ofsókna og ófrægingar.‘“
◼ Þann 25. september 1984: „Khomeini, leiðtogi Írans, er fulltrúi bókstafstrúarafla Shíta-múslíma og kennir að Íslam eigi að stýra stjórnmálum, efnahagsmálum og hermálum.“
◼ Þann 7. apríl 1985: „Þorri anglíkana er þeirrar skoðunar að Englandskirkja ætti ekki að blanda sér í stjórnmál, að því er fram kemur í Gallup-skoðanakönnun sem gerð var fyrir dagblaðið The Sunday Telegraph.“
◼ Þann 4. október 1986: „Rómversk-kaþólska kirkjan í Mexíkó styður vaxandi andstöðu gegn ríkjandi stjórnmálaflokki landsins. Kirkjan hafði sín djörfustu afskipti af stjórnmálum í júlí. . . . Biskupar hugðust aflýsa sunnudagsmessum til að mótmæla kosningasvikum, en páfi skarst í leikinn.“
◼ Washington D.C., þann 6. júlí 1986: „Forystumenn kristinna evangelista beita fjármunum sínum, trúarlegri sannfæringu og milljónum áhangenda til að berjast á veraldlegum vettvangi — og hafa sívaxandi áhrif í bandarískum stjórnmálum.“
Hver er ástæðan?
Því verður ekki neitað að trúarbrögðin hafa mikil afskipti af stjórnmálum. En hvað fær trúarleiðtoga til að blanda sér í pólitísk mál? Hefur Guð tekið einhverja afstöðu til slíkra afskipta? Hvaða afleiðingar mun þetta hafa og hvaða áhrif mun það hafa á þig?
[Rammi á blaðsíðu 15]
„Afskipti af stjórnmálum eru gefin í skyn í guðspjalli kristninnar, segir [Peter-Hans Kolvenbach] leiðtogi samfélags Jesú [Jesúíta], . . . sem Páfagarður hefur undanfarið átalið fyrir að blanda sér of mikið í stjórnmál.“ — The Toronto Star, 31. maí 1986.