Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g87 8.7. bls. 16-19
  • Hvers vegna blanda prestar sér í stjórnmál?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvers vegna blanda prestar sér í stjórnmál?
  • Vaknið! – 1987
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Staða, fé og stjórnmál
  • Frá Þýskalandi nasista til okkar tíma
  • Borgaraleg réttindi og félagslegt réttlæti
  • Hvaða áhrif hefur frelsisguðfræðin?
  • Er Guð þessu fylgjandi?
  • Það gerist allt í kringum okkur
    Vaknið! – 1987
  • Ættu trúarbrögð að taka þátt í stjórnmálum?
    Fleiri viðfangsefni
  • Er það vilji Guðs að trúarbrögðin blandi sér í stjórnmál?
    Vaknið! – 1987
Vaknið! – 1987
g87 8.7. bls. 16-19

Hvers vegna blanda prestar sér í stjórnmál?

ÞAÐ er full ástæða til að spyrja þessarar spurningar því að afskipti presta af stjórnmálum snerta okkur öll.

Vitanlega á engin ein ástæða við um alla presta og trúarleiðtoga sem hafa blandað sér í stjórnmál. Tilefni sumra er slíkt að flestir myndu fordæma það. Aðrir hafa göfug markmið svo sem umhyggju fyrir fátækum og bágstöddum.

Fáir þú innsýn í tilefni og hvatir trúarleiðtoga til afskipta af stjórnmálum kemst þú í betri aðstöðu til að íhuga afstöðu Guðs til málsins og skilja yfirlýsingar hans um það hvað framtíðin beri í skauti sér.

Staða, fé og stjórnmál

Til að skilja eina af ástæðunum fyrir því að prestar blanda sér í stjórnmál skulum við virða fyrir okkur nokkra trúarleiðtoga frá fyrstu öld. Þessir menn, æðstu prestarnir, farísear og saddúkear, mynduðu æðstarétt Gyðinga. Ævareiðir yfir því að Jesús skyldi hafa vakið Lasarus upp frá dauðum sögðu þeir með sér: „Ef vér leyfum honum [Jesú] að halda svo áfram, munu allir trúa á hann, og þá koma Rómverjar og taka bæði helgidóm vorn og þjóð.“ — Jóhannes 11:48.

„Helgidóm vorn og þjóð,“ sögðu þeir. Þeir höfðu áhyggjur af stöðu sinni, áhrifum og yfirvaldi, og þjóðernisleg sjónarmið vógu einnig þungt. (Matteus 23:2-8) Sumir klerkar hafa með fagurgala unnið sér hylli stjórnmálamanna og potað sér upp í áhrifastöðu. Fyrir marga hefur það líka verið leiðin til þæginda og munaðarlífs. Í síðustu bók Biblíunnar er lýst „konu“ að nafni „Babýlon hin mikla“ sem vakti athygli fyrir ‚gnóttir munaðar síns.‘ Biblían og mannkynssagan sýna að hún táknar heimsveldi falskra trúarbragða út um alla jörðina. — Opinberunarbókin 17:1-5; 18:3.

Við skulum nú líta á nokkur merki þess að hér sé fundin ein ástæða fyrir því að sumir klerkar blanda sér í stjórnmál. Bókin Religion and Revolution segir: „Á árabilinu 1774 til 1790 voru 173 af 192 frönskum biskupum af aðalsættum. Um helmingur þeirra bjó í París og naut glyss og glaums frönsku höfuðborgarinnar. Polignac kardináli lést árið 1741 án þess að hafa nokkru sinni komið í biskupsdæmið sem hann hafði verið skipaður til fimmtán árum áður. Vaxandi lausung hrjáði einnig klaustrin sem mörg voru afarauðug.“ Háklerkarnir lifðu í munaði en margir sóknarprestarnir í fátækt.

Frá Mexíkó höfum við annað dæmi. Árið 1810 var þorpspresturinn Miguel Hidalgo fremstur í sjálfstæðisbaráttunni gegn Spáni. Prófessor Guenter Lewy segir: „Páfinn í Róm og nánast allir biskupar með tölu fordæmdu [þessa mexíkönsku] ættjarðarsinna. Hin hræsnifulla og auðvelda umsöðlun háklerkanna [síðar] í ákafa stuðningsmenn sjálfstæðis . . . var allt of auðsæ og átti sinn þátt í að skapa ímynd kirkjunnar sem sérhagsmunahóps er ekki væri treystandi. . . . Kirkjan var auðug að landi og húseignum. Sumir ætla að hún hafi átt meira en helming allra fasteigna í landinu.“

Eru ekki allir, óháð trúarviðhorfum, sammála um að klerkastéttin ætti ekki að blanda sér í stjórnmál í því skyni að tryggja sér áhrif og völd? Það er þó einmitt það sem oft gerist.

Frá Þýskalandi nasista til okkar tíma

Valdatími nasista í Þýskalandi gefur okkur enn gleggri innsýn í samband trúarbragða og stjórnmála. Margir hafa velt fyrir sér hvaða afstöðu prestar kaþólskra og lúterskra hafi tekið til Hitlers og hinnar grimmu nasistastjórnar hans.

Í grundvallaratriðum birtist afstaða þeirra í stuðningi eða í það minnsta gagnkvæmu umburðarlyndi. Fáir trúarlegir forystumenn andmæltu honum. Prófessor T. A. Gill segir frá einni undantekningu: „Loks rann það upp fyrir [guðfræðingnum Dietrich] Bonhoeffer sem faðir hans og bræður höfðu verið að segja honum síðan hann var fimmtán ára: Kirkjan var ekki lengur nógu áhrifamikil í því sem máli skipti til að réttlæta að hann helgaði henni líf sitt.“ Langþreyttur á afskiptaleysi kirkjunnar eða stuðningi hennar við Hitler gekk Bonhoeffer inn í samsæri um að ráða Hitler af dögum. En Bonhoeffer var undantekning.

Í bókinni History of Christianity lýsir Paul Johnson hinni almennu reglu: „Báðar kirkjudeildir veittu stjórninni dyggan stuðning í öllu sem máli skipti. . . . Af 17.000 evangelískum prestum sátu aldrei fleiri en 50 í einu af sér langan fangelsisdóm [fyrir að styðja ekki stjórn nasista]. Meðal kaþólskra var einn biskup sviptur embætti og annar fékk stuttan fangelsisdóm fyrir brot á gjaldeyrislögum.“ Um þá sem voru trúir köllun sinni segir Johnson: „Vottar Jehóva sýndu mest hugrekki. Allt frá upphafi létu þeir skýrt í ljós afdráttarlausa andstöðu sína byggða á trúnni og þjáðust í samræmi við það. Þeir neituðu öllu samstarfi við nasistastjórnina.“

Síðan þá hafa ótal fleiri klerkar verið samvinnuþýðir við harðstjórnir, í því skyni að halda í stöðu sína, völd og auð. Í ritstjórnargrein í National Catholic Reporter sagði: „Sagan af mistökum kaþólsku kirkjunnar í Argentínu er saga þagnar og samsektar með grimmri herstjórn, einhverri verstu í sögu nútíðar. . . . Prelátar kirkjunnar voru í aðstöðu til að láta í sér heyra og hafa áhrif, ef til vill jafnvel að svipta herstjórnina trúarlegri réttlætingu sinni. En nánast til síðasta manns þögðu þeir þunnu hljóði. Sumir, þeirra á meðal klerkar í einkennisbúningi hersins, lögðu blessun sína yfir pyndingar og dráp.“ — 12. apríl 1985.

Borgaraleg réttindi og félagslegt réttlæti

Eins og áður er getið eru sumir trúarleiðtogar þó dáðir mjög fyrir hlutverk sitt í stjórnmálum — en af öðrum ástæðum.

Dæmi um það er bandaríski baptistapresturinn Martin Luther King. Hann barðist fyrir borgaralegum réttindum í langri krossferð gegn kynþáttamisrétti. Aðrir klerkar hafa gengið fram fyrir skjöldu í baráttunni fyrir réttindum kvenna og minnihlutahópa. Prestar og prédikarar hafa barist fyrir kröfum um kosningarétt, sömu laun fyrir sömu vinnu og sanngjörn atvinnutækifæri. Á síðustu árum hefur svonefnd „frelsisguðfræði“ átt fylgi að fagna, en með henni er stefnt að því að bæta kjör fátækra svo sem með því að skipta milli þeirra landi.

Hvað finnst þér um afskipti trúarleiðtoga af stjórnmálum í því skyni að koma á þjóðfélagsumbótum eða ‚veraldlegum húmanisma‘ eins og það er stundum kallað? Ert þú ósáttur við það sem fram fer? Meira að segja sumir prestar eru það. Bókstafstrúarprestur að nafni Keith Gephart segir: „Þegar ég var að alast upp heyrði ég alltaf að kirkjurnar ættu að halda sér frá stjórnmálum. Núna lítur það næstum út fyrir að vera synd að skipta sér ekki af stjórnmálum.“ Blaðamaður, sem skrifar um stjórnmál, segir: „Frá því í byrjun áttunda áratugarins hafa kristnir bókstafstrúarmenn smám saman sannfærst um að bein afskipti af stjórnmálum séu skylda.“

Jafnvel þótt málstaðurinn sýnist verðugur er gott að íhuga hversu langt klerkar og kennimenn ganga og skoða hug okkar um hvort við séum sammála slíku.

Hvaða áhrif hefur frelsisguðfræðin?

Gustavo Gutiérrez, kaþólskur prestur í Perú, er yfirleitt talinn höfundur „frelsisguðfræðinnar,“ og var hún hugsuð sem svar við bágum kjörum fátækra. Þessi guðfræði er útbreidd meðal klerka í rómönsku Ameríku og víðar. Enska blaðið Manchester Guardian Weekly segir að biskupinn af Durham hafi ráðist á pólitíska stefnu stjórnar sinnar og hvatt til þess að „málstaður ‚frelsisguðfræðinnar‘ yrði efldur.“

Er slík guðfræði einungis umhyggja fyrir fátækum eins og Biblían hvetur til? Tæplega. Biskupinn af Durham játar að „frelsisguðfræðin í Bretlandi muni taka sumar af niðurstöðum marxismans mjög alvarlega.“ Það merkir meðal annars að túlka stéttabaráttu hinna fátæku eftir rökfræði marxismans. Hvað hefur það í för með sér?

Í blaðinu National Catholic Reporter (þann 4. júlí 1986) gat að líta fyrirsögnina: „Baráttan um jarðnæði í Brasilíu teflir kirkju gegn ríki.“ Ein af frumorsökum þessarar baráttu er sú að einungis smár hópur „auðugra landeigenda ræður yfir 83 af hundraði jarðnæðis.“ Fjöldafundir og kröfugöngur undir forystu klerka eru hluti ‚baráttunnar um jarðnæði.‘ Og „barátta“ er réttnefni. Í greininni sagði að „218 manns hefðu fallið í meira en 700 átökum um jarðnæði á síðasta ári, þeirra á meðal faðir Josimo Tavares, brasilískur prestur og umbótamaður í jarðnæðismálum sem var ráðinn af dögum þann 11. júní.“

Frelsisguðfræðin á vaxandi fylgi að fagna. Ritstjórnargrein í New York Times lét þess getið að opinber afstaða Páfagarðs sé sú að prestar ættu ekki að blanda sé í flokkapólitík, en tók fram um leið að Páfagarður „aðhyllist líka meginhugmynd frelsisguðfræðinnar: að guðspjall kristninnar réttlæti baráttu fátækra fyrir pólitísku frelsi og sjálfsákvörðunarrétti.“

Kaþólska trúboðsreglan Maryknoll liggur á svipaðan hátt undir ámæli fyrir að „útbreiða guðspjall frelsisguðfræði og sósíalisma.“ Í könnun frá 1985, birt undir nafninu The Revolution Lobby, sagði: „Maryknollreglunni hefur tekist með ágætum að fá almenning til að fallast á boðskap marx-leninista um blóðuga byltingu, einmitt af því að hún hefur fengið að starfa sem armur kaþólsku kirkjunnar. Boðskapur hennar hefur náð til ekki aðeins hins venjulega kirkjugests heldur líka fremstu hugmyndafræðinga Ameríku.“

Er Guð þessu fylgjandi?

Ljóst er að hvert sem við lítum í heiminum hafa trúarbrögðin af ýmsum ástæðum mikil afskipti af stjórnmálum. En hvaða augum lítur Guð það? Biblían segir að hann muni brátt láta afstöðu sína ótvírætt í ljós. Hvaða áhrif mun það hafa á þig og ástvini þína? Hvaða áhrif ætti það að hafa á afstöðu þína og athafnir?

[Rammi á blaðsíðu 17]

„Kaþólska kirkjan í Þýskalandi var þýsk í merg og bein og studdi, líkt og mótmælendakirkjan, ríkið og yfirráð þess.“ — The German Churches Under Hitler.

„Rússneska rétttrúnaðarkirkjan veitti afvopnunartillögum Mikhails Gorbashevs fullan stuðning sinn í gær . . . Hún sagði að þær væru ‚í fullkomnu samræmi við afstöðu kristninnar.‘“ — The Guardian þann 9. apríl 1986.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Martin Luther King var framarlega í flokki trúarleiðtoga í baráttunni gegn kynþáttamisrétti.

[Rétthafi]

UPI/Bettmann Newsphotos

[Mynd á blaðsíðu 19]

Fátækt og misrétti hafa verið frjó jörð fyrir frelsisguðfræðina.

[Rétthafi]

J. Viscarrs/WHO

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila