Fíkniefni — vandamálið vex
FÍKNIEFNI eru algengt umræðuefni fjölmiðla. Við grípum sjaldan niður í dagblað eða fréttatímarit að ekki sé þar minnst á fíkniefnavandann með einum eða öðrum hætti: Stjórnarerindreki er handtekinn er hann reynir að smygla fíkniefnum inn í land. Þjóðarleiðtogi er fordæmdur fyrir aðild sína að fíkniefnasmygli. Kunnur íþróttamaður fer í meðferð vegna fíkniefnaneyslu. Lögregla gerir skyndileit í flugvél eða skipi og gerir upptæka stóra fíkniefnasendingu. Kunnur skemmtikraftur deyr úr ofneyslu fíkniefna. Lestarstjóri í járnbrautarslysi reynist vera undir áhrifum fíkniefna. Stjórnmálamaður gerir baráttu gegn fíkniefnum að helsta baráttumáli í kosningum. Og þannig mætti lengi telja.
Svo alvarlegur er fíkniefnavandinn orðinn að árið 1987 tóku 24 ríki höndum saman um átak gegn fíkniefnum. Þau „eyðilögðu 5046 tonn af kókalaufi og 17.585 tonn af maríúanaplöntum,“ segir í tímaritinu U.S. News & World Report. „Þó telur [bandaríska] utanríkisráðuneytið að núverandi átak ‚dugi ekki til að draga úr heimsframboði á fíkniefnum.‘“
Fíkniefni eru oftar og oftar gerð upptæk og stöðugt fleiri handteknir og sakfelldir, en það hefur ekki dregið úr framboði fíkniefna á markaðinum. Yfirvöldum tekst að koma höndum á aðeins lítinn hluta þess sem á markaðinum er og víða er auðveldara að verða sér úti um fíkniefni en nokkru sinni fyrr. Til dæmis má nefna að framleiðsla kókaíns úr kókalaufi í Bólivíu, Kolombíu og Perú jókst um 10 af hundraði á árabilinu 1986-1987, þrátt fyrir samstillt átak árið 1986 um að finna og eyðileggja kókaínverksmiðjurnar. Það kókaín, sem nú er selt á götunum, er langtum hreinna en áður var og verðið hefur stórlækkað — en það ber vitni um aukið framboð.
„Bandaríkin hafa hæsta hlutfall ungra fíkniefnaneytenda meðal iðnríkja heims og nýir neytendur verða sífellt yngri og yngri,“ segir í skýrslu í tímaritinu Behavior Today. Könnun leiddi í ljós að yfir helmingur almennra framhaldsskólanema á síðasta námsári í Bandaríkjunum hafði prófað fíkniefni einhvern tíma á ævinni, og að fram undir 25 ára aldur hækkar hlutfallið í um það bil 80 af hundraði. Ætlað er að í Bandaríkjunum séu nú um 1,2 milljónir manna ánetjaðar fíkniefnum og 23 milljónir í viðbót neyti fíkniefna af og til.
Önnur lönd eru ekki heldur undanþegin plágunni. Sovéska dagblaðið Pravda hefur eftir Alexander Vlasov innanríkisráðherra: „Baráttan gegn fíkniefnanotkun og glæpum, sem tengjast þeim, er orðið eitt af aðalviðfangsefnum innanríkisráðuneytisins.“ Tímaritið Soviet Weekly segir að „lagðar hafa verið fram kærur tengdar fíkniefnum gegn 80.000 sovétborgurum á síðastliðnum tveim árum,“ og að þrátt fyrir meðferð handa fíkniefnaneytendum sé „vandamálið enn stórt í sniðum og skráðir séu 131.000 fíkniefnaneytendur.“
Í Ungverjalandi eru sagðir vera milli 30.000 og 50.000 fíkniefnaneytendur og í Póllandi eru á bilinu 200.000 til 600.000 taldir vera ánetjaðir sterkum fíkniefnum, mestan part ungt fólk undir 25 ára aldri. Pakistanir telja upp undir 313.000 ópíumþræla og 150.000 heróínþræla þar í landi. Sir Jack Stewart Clark, sem er þingmaður Evrópuþingsins, spáir því að kókaínneytendum í Vestur-Evrópu kunni að fjölga upp í þrjár til fjórar milljónir fram undir miðjan síðasta áratug þessarar aldar. Á Spáni eru nú taldir vera 60 til 80 þúsund kókaínneytendur.
Fíkniefnavandamálið er orðið svo stórvaxið að í skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum segir að það jaðri nú við að ógna „öryggi sumra ríkja.“
Hvers vegna eru fíkniefni svona mikið í sviðsljósinu? Hvers vegna neytir fólk fíkniefna? Hvers vegna hafa umfangsmiklar tilraunir til að halda fíkniefnavandanum í skefjum mistekist? Hvað er hægt að gera til að vinna bug á vandanum?