Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g89 8.7. bls. 14-17
  • Ósonlagið — erum við að eyðileggja verndarhjúp jarðar?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Ósonlagið — erum við að eyðileggja verndarhjúp jarðar?
  • Vaknið! – 1989
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Ógnunin sem spáð var
  • Hvaða von er um raunhæfa lausn?
  • Undarlegir og ógnvekjandi atburðir undir ósongatinu
    Vaknið! – 1994
  • Hvað eru gróðurhúsaáhrifin?
    Vaknið! – 1990
Vaknið! – 1989
g89 8.7. bls. 14-17

Ósonlagið — erum við að eyðileggja verndarhjúp jarðar?

Ímyndaðu þér að þú þyrftir daglega að ganga í gegnum banvænt brunaregn. Einasta vörn þín væri regnhlíf, sérhönnuð til að hrinda frá sér hinum banvænu regndropum. Getur þú ímyndað þér hversu verðmæt hún væri þér og hvílíkt glapræði það væri að fara illa með hana, eða jafnvel skera á hana göt? Engu að síður en mannkynið að gera eitthvað hliðstætt á heimsmælikvarða.

REIKISTJARNAN jörð er böðuð stöðugu geislaregni sólar. Enda þótt flestir þessara geisla séu til gagns og bæði vermi og lýsi upp veröldina er örlítið brot þeirra bráðdrepandi. Þetta eru útfjólubláir-B geislar, uv-B geislar, sem myndu granda öllu lífi ef þeir næðu af fullu afli niður til jarðar. En til allrar hamingju er jörðin búin sérhannaðri regnhlíf, ósonlaginu, sem skýlir okkur fyrir þessum geislum. Svo óheppilega vill þó til að mannkynið er að eyðileggja hana!

Hvað er ósonlagið? Hvernig virkar það og hvernig erum við að eyðileggja það? Óson er óstöðugt afbrigði súrefnis, myndað úr þrem súrefnisfrumeindum (O3) í stað tveggja í venjulegu súrefni (O2). Óson myndast af náttúrunnar hendi í heiðhvolfinu, gleypir hina hættulega uv-B geisla en hleypir í gegn nauðsynlegu og skaðlausu sólarljósi. Þótt ósonlagið klofni fyrir áhrif annarra lofttegunda myndast stöðugt nýtt fyrir áhrif sólargeislanna. Þetta er einskonar skjólflík sem endurnýjar sig stöðugt.

Vandinn byrjar þegar maðurinn fer að spúa verksmiðjureyk inn í þetta viðkvæma kerfi. Þá eyðist ósonið hraðar en sólargeislarnir geta myndað það. Árið 1974 var vísindamenn farið að gruna að klórflúrkolefni, oft nefnd CFC-efni, eyddu ósoninu. Klórflúrkolefnin eru alls staðar í kringum okkur. Þau eru notuð í alls kyns vörur úr frauðplasti, allt frá einangrunarplasti niður í bolla og skyndibitaílát. Þau eru notuð sem þrýstivökvi á úðabrúsa, sem kælivökvi í loftræstibúnaði og kæliskápum og sem leysiefni til að hreinsa rafeindabúnað.

Einn vísindamannanna, sem skýrði frá hættunni, skrifaði einu sinni: „Ég hrópaði aldrei upp yfir mig: ‚Eureka!‘ Ég kom bara heim eitt kvöldið og sagði við konuna mína: ‚Verkinu miðar vel en það lítur út fyrir að heimsendir sé í nánd.‘“ Eftir að klórflúrkolefnin voru fundin upp á fjórða áratugnum báru margir lof á þau fyrir að vera skaðlaus og óvenjustöðug. Höfðu þeir rangt fyrir sér?

Ógnunin sem spáð var

Nei, þeir höfðu greinilega allt of rétt fyrir sér. Það er einmitt stöðugleikinn sem gerir klórflúrkolefnin jafnskaðleg og raun ber vitni. Klórflúrkolefni úr kæliskápum, sem menn hafa fleygt, og úr samanvöðluðum frauðplastílátum stíga smám saman upp í heiðhvolfið. Þar brotna þau loks niður fyrir áhrif útfjólublárra geisla og leysa úr læðingi sannkallaðan ósoneyði: klór. Klórsameindirnar dansa stuttan dauðadans við viðkvæmar ósonsameindirnar, eyðileggja þær og sveifla sér síðan óskaddaðar að næsta dansfélaga. Ein klórsameind getur dansað á þennan hátt í rúma öld og þurrkað út á að giska hundrað þúsund ósonsameindir.

Skelkaðir vísindamenn hafa hrópað og kallað varnaðarorð gegn gengdarlausri notkun klórflúrkolefna sem þrýstivökva á úðabrúsum. Árið 1978 höfðu Bandaríkin, Kanada og Svíþjóð bannað notkun klórflúrkolefna í úðabrúsum en fá önnur ríki fylgdu fordæmi þeirra. Það sem verra var, fleiri not fundust fyrir þessi harðgerðu efni þannig að framleiðsla þeirra jókst til muna. Enn þá nota Bandaríkin fjórðung ársframleiðslunnar í heiminum.

Vopnaðir tölvureiknilíkani af lofthjúpi jarðar héldu vísindamenn áfram að vara við því að mengun af völdum kemískra efna myndi smátt og smátt eyða ósonlaginu og hleypa uv-B geislum í gegn í auknum mæli. Iðnrekendur og ríkisstjórnir gerðu lítið úr fullyrðingum vísindamanna og töldu sönnunargögn þeirra haldlítil og niðurstöðurnar ósannaðar.

Tímaritið Discover kallaði þetta ósætti „ósonstríðið“ og sagði að vísindamenn hefðu „fyrir löngu farið að líta á þetta deilumál sem risavaxna alheimstilraun: Á ári hverju dælir mannkynið milljón tonnum til viðbótar af klórflúrkolefnum út í andrúmsloftið og bíður síðan átekta hvað gerast muni.“ Útkoman kom öllum á óvart.

Í stað þess að þynnast hlutfallslega jafnmikið um allan hnöttinn, eins og öll tölvureiknilíkön höfðu gert ráð fyrir, þynntist ósonlagið skyndilega yfir suðurskautinu! Í október 1984 uppgötvaði hópur breskra vísindamanna á Suðurskautslandi að ósonlagið yfir höfðum þeirra hafði þynnst um 40 af hundraði. Þar var komið „ósongatið“ fræga. Í fyrstu gætti tortryggni meðal annarra vísindamanna því að þessi breski hópur var þá lítt þekktur. Þar að auki höfðu önnur lofthjúpsmælitæki ekki mælt neina meiriháttar röskun á ósonlaginu yfir suðurskautssvæðinu.

Seinna kom í ljós að tölvur, sem voru mataðar upplýsingum frá gervihnöttum, voru forritaðar þannig að mældist rýrnun ósonlagsins yfir 30 af hundraði skyldi mælingunum hafnað sem röngum. Tækjabúnaðurinn hafði verið að mæla ósongatið árum saman en hent niðurstöðunum!

Vísindamenn deildu um stund um það hvað orsakaði gatið. En flugvélar, sem flugu hlaðnar mælitækum í gegnum ósongatið, fundu sökudólginn — klór úr efnum sem menn höfðu framleitt! Hátt yfir suðurskautinu er gríðarstór skýstrokkur samsettur úr örsmáum ísögnum sem láta klórnum í té milljónir örsmárra dansgólfa þar sem dauðadansinn við ósonið verður enn trylltari.

Nú telja vísindamenn sig hafa fundið svipað gat yfir norðurpólnum. Bæði götin eru árstíðabundin, opnast og lokast á hverju ári. Gatið yfir suðurpólnum er á stærð við Bandaríkin, en það sem er yfir norðurpólnum álíka stórt og Grænland.

Hvernig geta ósongötin haft áhrif á þig? Þau hafa farið yfir hluta Norður-Evrópu og ógnað syðsta odda Suður-Ameríku, en þú þarft ekki að standa undir slíku gati til að verða fyrir áhrifum þess. Sumir vísindamenn óttast að þessi göt framleiði ósonsnautt loft sem dreifist um bæði heimshvelin. Reyndar hefur ósonlagið nú þegar rýrnað um 3 til 7 af hundraði yfir þéttbýlustu svæðunum á norðurhveli jarðar síðastliðin sautján ár. Áður héldu vísindamenn að það tæki í það minnsta öld að þynnast um 3 af hundraði!

Áhrif aukinnar uv-B geislunar á yfirborð jarðar munu vera geysivíðtæk. Hún er skaðleg ónæmiskerfi líkamans, getur valdið húðkrabbameini og starblindu. Science News reiknar með að aukin uv-B geislun muni „fyrir árið 2075 deyða 3 milljónir manna, annaðhvort núlifandi eða fædda fyrir þann tíma.“

Andrúmsloftsfræðingurinn dr. Michael Oppenheimer kemst svo að orði: „Þessar breytingar eiga eftir að hafa áhrif á hvert einasta mannsbarn og öll vistkerfi á yfirborði jarðar, og það eru aðeins óljósar getgátur hverjar þessar breytingar verði.“ Aukin uv-B geislun mun gera út af við hina örsmáu svifkrabba og svifdýr sem lifa nálægt yfirborði sjávar, og raska þannig fæðukeðju hafsins. Þynning ósonlagsins getur valdið allsherjar eyðingu jurtaríkisins, uppskerubresti og jafnvel vinda- og veðurfarsbreytingum um allan heim. Ef einhver af þessum ógnum verður að veruleika á næstu áratugum mun það hafa mikla örðugleika í för með sér fyrir manninn og umhverfi hans.

Hvaða von er um raunhæfa lausn?

Í september 1987 undirrituðu 24 ríki samning í Monteal í Kanada þar sem kveðið er á um að hin þróuðu lönd auki ekki framleiðslu og notkun klórflúrkolefna frá því sem var 1986 og minnki hana um helming fram til 1999. Þróunarlöndin fá enn lengri frest þar eð klórflúrkolefni eru talin nauðsynleg til nútímavæðingar.

Samningurinn, sem gengur í gildi á þessu ári ef minnst 11 þjóðir staðfesta hann, er sagður marka „þáttaskil.“ Bandarískur stjórnmálamaður sagði fagnandi: „Í fyrsta sinn hafa þjóðir heims tekið höndum saman við lausn umhverfisvandamáls áður en skaðinn er orðinn verulegur.“

En ekki voru allir svona himinlifandi. Það olli sumum vísindamönnum áhyggjum að aðeins tveim vikum eftir undirritun Montrealsamningsins voru birtar býsna óyggjandi sannannir fyrir því að klórflúrkolefni hafi valdið ósongatinu. Þeim sem undirrituðu sáttmálann var sagt að hugsa ekki einu sinni um ósongötin í viðræðum sínum. Einn sérfræðingur sagði: „Hefðu aðilar Montrealsáttmálans haft þessar niðurstöður fyrir framan sig hefðu þeir fallist á algera framleiðslustöðvun klórflúrkolefna.“

Það versta er að þau klórflúrkolefni, sem eru núna á leiðinni upp í gegnum veðrahvolfið, geta verið sjö til tíu ár að ná upp í heiðhvolfið. Það þýðir að klórflúrkolefnamagnið í heiðhvolfinu mun tvöfaldast frá því sem nú er, hvað sem samningum líður. Blaðið The German Tribune orðaði það svo: „Jafnvel þótt tafarlaust bann yrði sett myndi það taka lofthjúpinn 80 ár að komast í það horf sem hann var á þriðja áratug aldarinnar.“

Nú vinna stór efnafyrirtæki að því að finna upp efni er komið geti í stað klórflúrkolefna. Sum þeirra þykja nú þegar lofa góðu. En prófun þeirra og þróun hentugra framleiðsluaðferða tekur tíma. „Okkar vantar þau núna, ekki á morgun,“ ítrekar Joe Farman, vísindamaðurinn sem fyrstur uppgötvaði ósongatið yfir suðurskautinu. „Við sleppum fimm sinnum meiru af klórflúrkolefnum út í andrúmsloftið en náttúran getur eytt.“ Ærin ástæða er þó til þess að flýta sér ekki um of að setja ný efni á markað í stað klórflúrkolefnanna. „Enginn vill framleiða vöru sem verður inni á hverju heimili og uppgötva síðan að hún er eitruð,“ aðvarar umhverfismálastjóri efnafyrirtækis.

Þótt menn eygi von um lausn eru vísindamenn uggandi. Þeim hefur lærst að gufuhvolf jarðar er viðkvæmt og geysiflókið fyrirbæri og það bregst snöggt og óútreiknanlega við mengun af mannavöldum.

Dr. Oppenheimer lýsir vandanum svo í hnotskurn: „Við önum í blindni inn í mjög svo óvissa framtíð.“ Grunnhyggnislegar lausnir á svona djúptæku vandamáli eru hafðar að athlægi. Þegar bandarískur embættismaður vildi reka áróður fyrir því að menn bæru hatta og sólgleraugu sér til verndar spurðu gárungarnir hvernig ætti að fara að því að setja mexíkanahatta á sojabaunir eða sólgleraugu á villidýr.

Það er deginum ljósara að einungis gagnger lausn kemur að notum og er líkleg til að öðlast almenna viðurkenningu. Er maðurinn þess megnugur að bæta það tjón sem hann hefur valdið á jörðinni? Það er harla ólíklegt. Maðurinn er sjaldnast viljugur til að eyða fé í að þrífa óhreinindin í kringum sig fyrr en hann er næstum kafnaður í þeim. Er ekki viturlegra að leita lausnar hjá honum sem hannaði þetta flókna umhverfi okkar? Hann sá þessa erfiðleikatíma okkar fyrir er hann hét því að „eyða þeim, sem jörðina eyða.“ — Opinberunarbókin 11:18.

[Rammi á blaðsíðu 15]

ÓSONÞVERSTÆÐAN

Ósoni hefur verið lýst bæði sem lífsnauðsynlegum verndarhjúp og eitruðu mengunarefni. En hvort er rétt? Hvort tveggja! Í heiðhvolfinu, þar sem það á heima, er það okkur til verndar. Niðri í veðrahvolfinu er óson afleiðing mengunar af mannavöldum. Við sleppum óhemjumagni kolvetna út í andrúmsloftið, aðallega með brennslu á bifreiðabensíni. Síðan myndast óson vegna áhrifa sólarljóss á kolvetnin.

Menn eru ekki gerðir til að anda að sér ósoni. Sé það gert veldur það lungnaskemmdum. Nýlega hafa vísindamenn gert sér ljóst að það er enn hættulegra heilsu manna en áður var haldið. Sumir hafa reynt að knýja fram hertari reglur gegn ósonmengun — en með litlum árangri.

Sérð þú hve kaldhæðnisleg ósonkreppan er? Skýjum ofar, þar sem óson er nauðsyn, eyðum við því. Niðri við jörð, þar sem óson er skaðlegt, framleiðum við það!

En þér er kannski spurn hvort ekki sé einfaldlega hægt að flytja óson upp í heiðhvolfið þar sem þess er þörf. Í fyrsta lagi er óson of hvarfgjarnt til að komast á áfangastað; það myndi klofna löngu áður en það næði þangað. Sumir vísindamenn hafa látið sig dreyma um ótrúlegustu aðferðir til að flytja óson þangað upp, svo sem með loftbelgjum, þotum eða eldflaugum. Þeir viðurkenna þó fúslega að það yrði geysikostnaðarsamt. Eina raunhæfa lausnin virðist því vera sú að eyða því ekki uppi í háloftunum og framleiða það ekki niðri við jörð.

[Skýringarmynd á blaðsíðu 16]

(Sjá uppraðaðan texta í blaðinu)

Heiðhvolf

Útfjólubláir geislar

Ósonlag heiðhvolfsins

Veðrahvolf

Jörðin

Úðabrúsi

CFC

Klór

Óson

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila