Undarlegir og ógnvekjandi atburðir undir ósongatinu
HINIR 125.000 íbúar Punta Arenas, syðstu borgar Síle, hafa löngum hent gaman að því að þeir byggju „á heimsenda.“ En flaumur undarlegra og ógnvekjandi fyrirbæra í hittifyrra gerir það að verkum að gamanið er farið að kárna. Sumir vísindamenn eru farnir að halda að það sé kannski „eitthvað nýtt undir sólinni hérna.“ Frétt í dagblaðinu The Wall Street Journal þann 12. janúar 1993 upplýsir okkur um ýmis smáatriði.
Felix Zamorano, meðlimur hóps er stundar rannsóknir á gufuhvolfi jarðar við Magallanes-háskólann þar á staðnum, greinir svo frá: „Í október mældum við þynnsta ósonlag sem mælst hefur. Í þrjá daga var ósonlagið helmingi þynnra en eðlilegt er og fór undir það sem teljast hættumörk.“ Aukin útfjólublá geislun frá ósongatinu veldur meðal annars „húðkrabbameini og starblindu auk erfiðleika fyrir plöntusvif, undirstöðu fæðukeðjunnar í sjónum,“ sagði The Wall Street Journal.
Í hittifyrra var „helmingur nautgripahjarðar Radovan Vilicics, sem í eru 1200 nautgripir, svo blindaður af tárubólgu að dýrin rákust hvert á annað eins og klessubílar og fimm nautgripir sultu í hel vegna þess að þeir fundu ekki fóðrið sitt.“
Fréttin heldur áfram: „Jose Bahamonde segir svipaða sögu. Frá búgarði hans, sem er 125 kílómetra héðan, er stórkostlegt útsýni yfir Magellansund en margir af 4300 sauðum hans geta ekki séð það né nokkuð annað. Um 10 prósent þeirra eru meðhöndlaðir vegna augnsýkinga og 200 sauðanna urðu blindir á síðasta ári.“
Húðsjúkdómafræðingurinn Jaime Abarca fullyrðir að „það sem er að gerast hér sé eitthvað alveg nýtt af nálinni. Það er eins óvenjulegt og heimsókn Marsbúa.“ Hann fær æ fleiri sjúklinga með húðsjúkdóma, sólbrunatilfelli hafa rokið upp úr öllu valdi og hlutfall hins hættulega sortuæxlis í nýjum húðkrabbameinstilfellum er fimmfalt hærra en venjulega. Sjálfur er hann sannfærður um að þetta tengist aukinni útfjólublárri geislun.
Almenningur í Punta Arenas lítur þetta alvarlegum augum. Apótek nokkurt seldi 40 prósent meiri sólvarnaráburð en árið á undan. Símaþjónusta gefur upplýsingar um stig útfjólublárrar geislunar. Þrjár útvarpsstöðvar á svæðinu útvarpa þeim líka. Skólar segja nemendum að ganga með hatta, sólgleraugu og að bera á sig sólvörn. Í verslun einni jókst sala sólgleraugna um 30 prósent. Og „bóndi á svæðinu er að reyna að hanna sólgleraugu fyrir sauðfé.“
Scarpa héraðsstjóri segir: „Ég afneita ekki staðreyndunum. . . . Hvað er til ráða? Við getum ekki byggt þak yfir allt héraðið.“