Blóðgjöf — hvers ákvörðun og hvers samviska?
Endurprentað með leyfi New York State Journal of Medicine, 1988; 88:463-464. Eigandi höfundarréttar: Medical Society of the State of New York.
Læknar eru helgaðir þeirri köllun að beita þekkingu sinni, kunnáttu og reynslu í baráttunni við sjúkdóma og dauða. En hvernig ber lækni að líta á það ef sjúklingur neitar meðferð sem mælt er með? Það mun líklega gerast ef sjúklingurinn er vottur Jehóva og meðferðin er blóðgjöf, annaðhvort heilblóð, rauðkornaþykkni, blóðvökvi eða blóðflögur.
Lækni kann að finnast hendur sínar og annars starfsliðs spítalans bundnar ef sjúklingur kýs meðferð án blóðs. Því má þó ekki gleyma að sjúklingar aðrir en vottar Jehóva kjósa oft að þiggja ekki þá meðferð sem læknir mælir með. Að sögn Appelbaum og Roth1 neituðu 19% sjúklinga á háskólaspítulum að minnsta kosti einni meðferð eða læknisaðgerð, enda þótt um „hugsanlega lífshættu“ væri að ræða í 15% slíkra tilfella.
Hið almenna viðhorf að „læknirinn viti best,“ sökum þekkingar sinnar og kunnáttu, fær flesta sjúklinga til að láta hann ráða. En það væri dulin hætta fólgin í því fyrir lækni að hegða sér eins og þessi orð væru vísindaleg staðreynd og meðhöndla sjúklinga sína í samræmi við það. Að vísu gefur læknismenntun okkar, leyfisveiting og reynsla okkur sérstök forréttindi á þessu sviði, en um leið hafa sjúklingar okkar sín réttindi. Og eins og okkur er líklega kunnugt leggja lögin (og jafnvel stjórnarskráin) meiri áherslu á réttindi einstaklingsins.
Á flestum spítulum er stillt upp svonefndri „réttindayfirlýsingu“ sjúklinga. Þar er meðal annars kveðið á um upplýst samþykki sem réttara væra að kalla upplýst val. Eftir að sjúklingurinn hefur verið upplýstur um hugsanlegar afleiðingar mismunandi læknismeðferðar (eða engrar meðferðar) er það hans að velja hvaða meðferð hann fær. Á Albert Einstein-spítalanum í Bronx í New York segir í uppkasti að reglum um blóðgjafir og votta Jehóva: „Sérhver lögráða sjúklingur, sem er með réttu ráði, hefur rétt til að neita meðferð óháð því hve skaðleg slík neitun kann að vera heilsu hans.“2
Þótt læknar kunni að hafa áhyggjur af siðfræði og skaðabótaskyldu hafa dómstólar ítrekað að réttindi sjúklings til að velja vegi þyngst.3 Áfrýjunarrétturinn í New York segir að „réttindi sjúklings til að ákveða hvaða læknismeðferð hann fær [séu] ótvíræð . . . Ekki er hægt að ákæra lækni fyrir brot á lagalegri eða faglegri skyldu þegar hann virðir réttindi lögráða sjúklings, sem er með réttu ráði, til að hafna læknismeðferð.“4 Rétturinn segir einnig að „enda þótt siðfræðileg heilindi lækna skipti miklu máli geti þau ekki vegið þyngra en þau grunnréttindi einstaklingsins sem hér er verið að verja. Það eru ekki kröfur stofnunarinnar heldur þarfir og óskir einstaklingsins sem vega þyngst.“5
Þegar vottur Jehóva neitar að láta gefa sér blóð getur sú tilhugsun, að þurfa að gera eitthvað annað en hið allra besta, kvalið samvisku læknis. En vottarnir eru að biðja ábyrga lækna að veita sér bestu meðferð sem völ er á miðað við aðstæður. Við verðum oft að breyta meðferð vegna aðstæðna, svo sem hás blóðþrýstings, alvarlegs ofnæmis gegn fúkalyfjum eða vegna þess að dýr tækjabúnaður er ekki fyrir hendi. Þegar sjúklingurinn er vottur Jehóva er verið að biðja lækna að leysa hið læknisfræðilega vandamál í samræmi við val og samvisku sjúklingsins, þá siðferðilegu og trúarlegu ákvörðun hans að halda sér frá blóði.
Fjölmargar skýrslur um stórar skurðaðgerðir á vottum Jehóva sýna að margir læknar geta með góðri samvisku og góðum árangri virt kröfu sjúklings um að nota ekki blóð. Árið 1981 rannsakaði Cooley skýrslur um 1026 æða- og hjartaaðgerðir, þar af 22% á börnum. Hann komst að þeirri niðurstöðu að „skurðaðgerðir á vottum Jehóva hafi ekki verið umtalsvert áhættusamari en á öðrum.“6 Kambouris7 skýrir frá stórum skurðaðgerðum á vottum Jehóva sem sumum hverjum hafi verið „synjað um aðkallandi læknismeðferð vegna neitunar sinnar á að þiggja blóð.“ Hann segir: „Allir sjúklingarnir voru fyrir meðferð fullvissaðir um að trúarskoðanir þeirra yrðu virtar, óháð aðstæðum á skurðstofunni. Þessi starfsregla hafði engar óæskilegar afleiðingar.“
Þegar sjúklingurinn er vottur Jehóva er ekki einvörðungu um að ræða val heldur einnig samvisku. Er þá ekki verið að tala einvörðungu um samvisku læknis heldur einnig sjúklings. Vottar Jehóva líta á lífið sem Guðs gjöf er blóðið táknar. Þeir trúa því boði Biblíunnar að kristnir menn verði að ‚halda sér frá blóði‘ (Postulasagan 15:28, 29).8 Það hefði sorglegar afleiðingar ef læknir hefði að engu slíka djúptæka og rótgróna trúarsannfæringu sjúklings. Jóhannes Páll páfi II hefur bent á að það sé „mesta svívirðing mannlegrar reisnar“ að neyða mann til að brjóta gegn samvisku sinni. „Í vissum skilningi er það verra en líkamlegur dauði eða dráp.“9
Enda þótt vottar Jehóva neiti blóði af trúarlegum ástæðum kjósa sífellt fleiri, sem ekki eru vottar, að afþakka blóð sökum hættunar á eyðni, lifrarbólgu og ónæmisviðbrögðum. Við getum lýst fyrir þeim skoðun okkar á því hvort við teljum slíka áhættu smávægilega í samanburði við ávinninginn. En eins og bandaríska læknafélagið bendir á er sjúklingurinn sjálfur „hinn endanlegi dómari um það hvort hann tekur þá áhættu sem fylgir þeirri meðferð eða læknisaðgerð sem læknir mælir með, eða þá áhættu að vera án hennar. Það eru sjálfsögð réttindi einstaklings sem lögin viðurkenna.“10
Í tengslum við þetta vakti Macklin11 athygli á spurningunni um áhættu og ávinning í tengslum við vott Jehóva sem „tók þá áhættu að láta sér blæða út ef hann fengi ekki blóð.“ Læknanemi sagði: „Hugsun hans var skýr. Hvað er hægt að gera þegar trúarviðhorf standa í vegi fyrir einu meðferðinni sem til greina kemur?“ Macklin svaraði: „Við kunnum að vera sannfærðir um að þessi maður sé að gera alvarleg mistök. En vottar Jehóva trúa að það geti haft í för með sér eilífa fordæmingu fyrir þá að láta gefa sér blóð. Okkur er kennt í læknisfræðinni að leggja mat á áhættu og ávinning, en ef eilíf fordæming er borin saman við áframhaldandi líf á jörðinni lítur matið allt öðruvísi út.“11
Vercillo og DuPrey12 vísa í þessu tölublaði tímaritsins til In re Osborne til að leggja áherslu á mikilvægi þess að tryggja öryggi þeirra sem sjúklingurinn hefur fyrir að sjá. Hvernig var það mál útkljáð? Um var að ræða alvarlega slasaðan föður tveggja ungra barna. Rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að ef hann dæi myndu ættingjar sjá börnum hans efnislega og andlega farborða. Líkt og í öðrum nýlegum tilfellum13 úrskurðaði rétturinn þannig að engra knýjandi hagsmuna væri að gæta fyrir ríkið er réttlættu að gengið skyldi í berhögg við val sjúklingsins á meðferð. Það væri því óréttlætanlegt að úrskurða með dómi meðferð er væri honum mjög ógeðfelld.14 Sjúklingnum var veitt önnur meðferð, hann komst aftur til heilsu og gat haldið áfram að sjá fyrir fjölskyldu sinni.
Er ekki sannleikurinn sá að í langflestum tilfellum, sem læknar hafa staðið frammi fyrir eða munu trúlega standa frammi fyrir, er hægt að komast af án blóðs? Það sem við höfum lagt stund á og þekkjum best lýtur að heilsuvandamálum, en sjúklingarnir eru mannverur með sitt einstaklingsbundna verðmætamat og lífsmarkmið sem ekki er hægt að hafa að engu. Þeir þekkja best verðmætamat sitt, siðferðisviðhorf og samvisku sem gefur lífi þeirra gildi.
Það að virða trúarlega samvisku sjúklinga, sem eru vottar Jehóva, getur reynt á hæfni okkar. Þegar við tökum þeirri áskorun erum við að undirstrika verðmæti þess frelsis sem við öll metum mikils. Eins og John Stuart Mill komst svo vel að orði: „Ekkert það þjóðfélag er frjálst þar sem þessi réttindi eru ekki virt í heild, hvert svo sem er stjórnarfar þess . . . Hver maður er réttmætur verndari heilsu sinnar, jafnt líkamlegrar, hugarfarslegrar sem andlegrar. Mannkynið ávinnur meira með því að leyfa hverjum manni að lifa eins og honum gott þykir, en með því að knýja hvern mann til að lifa eins og hinum gott þykir.“15
[Heimildaskrá]
1. Appelbaum PS, Roth LH: Patients who refuse treatment in medical hospitals. JAMA 1983; 250:1296-1301.
2. Macklin R: The inner workings of an ethics committee: Latest battle over Jehovah’s Witnesses. Hastings Cent Rep 1988; 18(1):15-20.
3. Bouvia v Superior Court, 179 Cal App 3d 1127, 225 Cal Rptr 297 (1986); In re Brown, 478 So 2d 1033 (Miss 1985).
4. In re Storar, 438 NYS 2d 266, 273, 420 NE 2d 64, 71 (NY 1981).
5. Rivers v Katz, 504 NYS 2d 74, 80 n 6, 495 NE 2d 337, 343 n 6 (NY 1986).
6. Dixon JL, Smalley MG: Jehovah’s Witnesses. The surgical/ethical challenge. JAMA 1981; 246:2471-2472.
7. Kambouris AA: Major abdominal operations on Jehovah’s Witnesses. Am Surg 1987; 53:350-356.
8. Jehovah’s Witnesses and the Question of Blood, Brooklyn, NY, Watchtower Bible and Tract Society 1977, bls. 1-64.
9. Pope denounces Polish crackdown. NY Times, 11. janúar 1982, bls. A9.
10. Hið bandaríska lögmannaráð: Medicolegal Forms with Legal Analysis. Chicago, American Medical Association, 1973, bls. 24.
11. Kleiman D: Hospital philosopher confronts decisions of life. NY Times, 23. janúar 1984, bls. B1, B3.
12. Vercillo AP, DuPrey SV: Jehovah’s Witnesses and the transfusion of blood products, NY State J Med 1988; 88:000-000.
13. Wons v Public Health Trust, 500 So 2d 679 (Fla Dist Ct App) (1987); Randolph v City of New York, 117 AD 2d 44, 501 NYS 2d 837 (1986); Taft v Taft, 383 Mass 331, 446 NE 2d 395 (1983).
14. In re Osborne, 294 A 2d 372 (DC Ct App 1972).
15. Mill JS: On liberty (Um frelsi) í Adler MJ (útg.); Great Books of the Western World. Chicago, Encyclopædia Britannica, Inc. 1952, 43. bindi, bls. 273.