Merkur áfangi í flugmálum
VORIÐ 1988 hóf sig á loft frá flugvelli í grennd við Moskvu sovésk flugvél, fyrsta farþegavélin sem knúin er vetni í stað þotueldsneytis úr steinolíu. Enda þótt hljótt hafi verið um þennan atburð á Vesturlöndum telja sumir hann marka þáttaskil. Bandarískur þingmaður líkti honum við það er Sputnik var skotið á braut um jörð árið 1957.
„Enn einu sinni höfum við misst af lestinni,“ sagði hann, „og við verðum bara að vona að næsta ríkisstjórn muni hafa meiri áhuga á vetni en þessi stjórn hefur haft.“
Hættuleg mengunarefni verða til þegar brennt er eldsneyti úr steinolíu. Koldíoxíð, sem til verður, stuðlar að hinum svokölluðu „gróðurhúsaáhrifum“ um allan hnöttinn, og þau gætu haft skelfilegar afleiðingar fyrir lífið á jörðinni á næstu öld. Við bruna vetnis myndast aftur á móti skaðlaus vatnsgufa og því hefur sovéska flugvélin verið kölluð „algerlega mengunarlaus.“
Flugvélin var búin sérstökum eldsneytisgeymi fyrir fljótandi vetni sem kældur var niður í mínus 253 gráður á celsíuskvarða. Hið fljótandi vetni er síðan hitað og leitt út í hreyflana þar sem það brennur við afarhátt hitastig og gefur mikinn þrýstikraft. Þetta eldsneyti er hins vegar mjög sprengifimt og því hættulegra í notkun en venjulegt eldsneyti, eins og sýndi sig þegar hin vetnisknúna geimskutla Challenger sprakk í loft upp árið 1986.
Bandaríkin vinna nú að þróun vetnisknúinnar flugvélar sem á að geta flogið bæði utan gufuhvolfs og innan. Hún hefur verið kölluð Orient Express þar eð hún á fræðilega að geta flogið frá Washington, D.C., til Tokyo á tveim klukkustundum. Fyrsta flug hennar er áætlað árið 1994.
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 32]
Sovfoto