Risaeðlur fortíðarinnar koma fram í dagsljósið
ÞEGAR staðið er við brún Red Deer River-dalsins, rétt sunnan við bæinn Drumheller í Alberta í Kanada, er eins og staðið sé á mörkum tveggja ólíkra heima. Til allra átta teygja sig hinir endalausu hveitiakrar sléttnanna í Alberta, en þegar horft er niður klettana, ofan í þurran og hrjóstugan dalinn, blasir við allt annar heimur en við mennirnir eigum að venjast — heimur forneðlanna.
Í þessum dal, með gljúfrum sínum og litskrúðugum setlögum klettaveggjanna, hafa fundist forneðlubein í hundraðatali. Heimamenn kalla dalinn stundum „the badlands“ (hrjóstruga auðn). En gestir, jafnt ungir sem aldnir, fyllast undrun er þeir koma á staðinn og sjá steingerðar leifar einhverra undraverðustu dýra sem lifað hafa hér á jörð.
Fundur forneðlanna
Fram til ársins 1824 voru forneðlurnar óþekktar mönnum. Það ár voru steingerð bein nokkurra tegunda skriðdýra grafin úr jörð á Englandi. Breski steingervingafræðingurinn Richard Owen kallaði þessi dýr Dinosauria eftir grísku orðunum deinos og sauros sem merkja „hræðileg eðla.“ Enda þótt forneðlurnar séu í reyndinni skriðdýr en ekki eðlur í líffræðilegum skilningi ganga þær enn undir því nafni.
Frá 1824 hafa fundist steingerðar leifar forneðla í setlögum á öllum meginlöndum jarðar. Af steingervingunum má sjá að þessi dýr hafa verið óvenjufjölbreytt að gerð á því tímabili jarðsögunnar, sem stundum er nefnt forneðlutíminn, og einnig afar mörg. Sum áttu sér heimkynni á landi en önnur í mýrum og fenjum. Sum lifðu ef til vill í vatni, ekki ósvipað og flóðhestur nútímans.
Á sléttunum miklu í Norður-Ameríku hafa fundist miklar menjar um forneðlurnar — jafnvel beinlausar menjar eins og fótspor. Á sléttunum um miðbik Alberta í Kanada hafa fundist meðal annars nálega 500 heilar beinagrindur. Á þriðja áratug þessarar aldar voru gerðir út rannsóknarleiðangrar sem fundu forneðlubein í Góbíeyðimörkinni í Mið-Asíu. Á fimmta áratug aldarinnar fann sovéskur rannsóknarleiðangur í Mongólíu beinagrind af risaeðlu sem var um 12 metrar á lengd.
Argentínskir vísindamenn fundu árið 1986 steingerðar leifar forneðlu, sem var jurtaæta, á Suðurskautslandinu. Fram til þess tíma hafði Suðurskautslandið verið eina, stóra landsvæði jarðarinnar þar sem ekki höfðu fundist menjar um forneðlur. Skömmu fyrir þann tíma fundu bandarískir vísindamenn forneðlubein á North Slope-svæðinu í Alaska. Síðastliðin hundrað ár hafa fundist forneðlubein svo víða að ljóst er að þær voru mjög margar og útbreiddar til forna.
Hvenær voru þær uppi?
Forneðlurnar gegndu stóru hlutverki í lífríki jarðar meðan þær voru og hétu. Síðan liðu þær skyndilega undir lok. Þau berglög, þar sem finnast mannvistarleifar, eru alls staðar fyrir ofan þau berglög þar sem finnast steingervingar af forneðlum. Af þessum sökum telja vísindamenn yfirleitt að menn hafi ekki komið fram á sjónarsviðið fyrr en forneðlurnar voru horfnar þaðan.
Bókin Paleontology eftir James Scott segir um þetta efni: „Jafnvel elstu tegundir Homo sapiens (mannsins) voru uppi löngu eftir að forneðlurnar hurfu af sjónarsviðinu . . . eftir að gert hefur verið ráð fyrir jarðraski (vegna hreyfingar á jarðskorpunni) eru berglög með steingerðum leifum manna alls staðar fyrir ofan þau sem hafa að geyma bein forneðlanna, og það leiðir af sjálfu sér að leifar þeirra eru frá fyrra tímabili en leifar manna.“
Í Red Deer River-dalnum er að finna setlag sem inniheldur forneðlubein. Rétt fyrir ofan það er rauðbrúnt lag sem fylgir landslaginu. Ofan á rauðbrúna laginu er brúnleitt mélulag með steingerðum leifum burkna sem vaxa í heittempruðu loftslagi. Það gefur til kynna að loftslag hafi verið heittemprað á þeim slóðum. Þar fyrir ofan eru nokkur kolalög. Ofar í brekkunni eru jarðlög úr grófara efni. Engin forneðlubein finnast í nokkrum þessara efri laga.
Bókin A Vanished World: The Dinosaurs of Western Canada segir að „allar ellefu megintegundir forneðla . . . hafi dáið út í miðvesturhluta landsins um svipað leyti.“ Þetta, ásamt því að mannabein hafa ekki fundist með forneðlubeinum, er ástæðan fyrir því að flestir vísindamenn telja að tími forneðlanna hafi liðið undir lok áður en menn komu fram á sjónarsviðið.
Þó er rétt að geta þess að sumir telja aðra ástæðu fyrir því að bein forneðla og manna finnast hvergi saman — þá að forneðlur og menn hafi ekki byggt sömu svæði. Ólík sjónarmið af þessu tagi færa okkur heim sanninn um að steingervingaskráin lúrir býsna fast á leyndardómum sínum og að enginn maður nú á dögum kann í rauninni öll svörin.
Sérstök einkenni
Vísindamenn telja að einu sinni hafi verið firnastórt, grunnt innhaf austur af Klettafjöllum Norður-Ameríku. Þeir telja að hafið hafi verið mörg hundruð kílómetra breitt og teygt sig allt frá því sem nú heitir Íshaf suður til Mexíkó. Meðfram lágri ströndinni hafi verið gróskumiklir fenjaskógar. Steingervingar benda til að margar tegundir forneðla hafi þrifist í þessu umhverfi. Játmundareðla (edmontosaurus), um 9 metra langt skriðdýr með nef líkt og önd, virðist hafa verið á beit í fenjunum í stórum hjörðum líkt og nautgripir. Steingervingafræðingar hafa komist að þessari niðurstöðu með rannsóknum á vel varðveittum fótsporum með hinum einkennandi þrem tám og steingerðum leifum úr magainnihaldi dýranna.
Sitthvað fleira bendir til þess að ýmsar tegundir forneðla hafi myndað eins konar samfélög. Líklega héldu þær sig í stórum hópum, ef til vill í hundraðatali. Fundist hafa hreiður- og eggjalög hvert ofan á öðru sem gefur til kynna að forneðlur hafi sumar hverjar komið aftur á sömu hreiðurstæði ár eftir ár. Tímaritið Scientific American segir frá því að fundist hafi leifar af beinagrindum forneðluunga í nánd við hreiðrin ‚sem bendir mjög eindregið til þess að systkini hafi haldið hópinn og jafnvel að foreldrar kunni að hafa annast unga sína eftir klak.‘
Þannig má lesa af steingervingunum að forneðlurnar hafi verið bæði margar og fjölbreyttar að gerð. En hvernig litu þær eiginlega út? Voru þær allar ógnvekjandi, risastór skrímsli — „hræðilegar eðlur“? Hvers vegna virðast þær hafa horfið svona skyndilega af sjónarsviðinu?
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 3]
Smithsonian Institution, Washington, D.C.: Mynd nr. 43494.