Ungt fólk spyr . . .
Hvernig get ég valið mér sómasamlega kvikmynd?
HAFT er eftir gamalreyndri kvikmyndastjörnu frá fyrri tíð: „Fólk . . . spyr mig hvers vegna ég sé hætt að fara í bíó. Það er vegna þess að kvikmyndir eru margar svo mannskemmandi.“ Þessi kvikmyndastjarna ákvað því að hætta að sjá kvikmyndir sér til skemmtunar.
Unglingsstúlka að nafni Denise er sama sinnis, þótt hún taki ekki alveg jafndjúpt í árinni. „Yfirleitt er ekki margt sem hægt er að horfa á,“ segir hún, „vegna þess að það er svo mikið um ofbeldiskvikmyndir. Ég er því mjög vandfýsin í vali á kvikmyndum.“
Trúlega hefur þú líka gaman af að sjá kvikmynd af og til. Það er því skiljanlegt að þú viljir síður útiloka það með öllu að fara í kvikmyndahús þér til skemmtunar. En eins og fram kom í síðasta tölublaði Vaknið! — og kemur einnig glögglega fram á auglýsingasíðum dagblaða — eru harla fáar kvikmyndir framleiddar nú til dags sem eru sómasamlegt skemmtiefni fyrir kristin ungmenni.a Það skiptir miklu máli að þú sért vandfýsinn í vali þínu á kvikmyndum, því að það sýnir býsna glöggt hvaða verðmætamat þú hefur, segir mikið um það hvers konar félagsskap þú hefur yndi af, hvers konar málfar þú gerir þér að góðu og hvers konar siðferði þú aðhyllist.
Biblían hvetur okkur til að „hata hið illa.“ (Sálmur 97:10) Er hægt að segja að þú gerir það ef þú ert tíður áhorfandi að kvikmyndum sem sýna djöfullegan hrylling, limlestingar og ofbeldi eða gróf kynlífsatriði? Tæpast. Það ungmenni, sem metur meginreglur Guðs að verðleikum, leitast við að fylgja heilræðum Biblíunnar í Filippíbréfinu 4:8: „Að endingu, bræður, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.“ Þetta merkir ekki að þú þurfir að útiloka allar kvikmyndir. Hins vegar þarft þú að vera mjög vandfýsinn í vali þínu. Hvernig getur þú gert það?
Kvikmyndaeftirlitið — óbrigðul mælistika?
Á Íslandi eru kvikmyndir flokkaðar eftir mati Kvikmyndaeftirlits ríkisins. Kvikmyndir eru síðan ýmist metnar sem við hæfi allra aldurshópa eða bannaðar börnum innan tíu, tólf, fjórtán eða sextán ára. Þetta mat er yfirleitt byggt á því hvernig kvikmyndin fjallar um kynlíf og ofbeldi, áfengis- og fíkniefnaneyslu, orðbragð og annað þess háttar.
Enda þótt slíkt mat sé auðvitað ekki óbrigðult, og oft sjálfu sér ósamkvæmt, gefur það væntanlegum áhorfanda að minnsta kosti einhverja hugmynd um efni kvikmyndar og hvort það sé við hæfi að sjá hana eða ekki. Í kvikmyndaauglýsingum dagblaða sést fyrir hvaða aldurshópa kvikmyndir eru leyfðar, og foreldrar þínir kunna að nota það til að ákveða hvaða kvikmyndir þú megir sjá.
Mat Kvikmyndaeftirlitsins getur þó verið villandi. Rétt er að hafa hugfast að það er hvergi nærri víst að skoðunarmenn kvikmyndanna aðhyllist siðferðisreglur Biblíunnar. Auk þess er siðferði heimsins á undanhaldi þannig að margar kvikmyndir, sem taldar hefðu verið hneykslanlegar fyrir aðeins fáeinum árum, eru nú taldar hæfa öllum aldurshópum.
Ungur piltur að nafni DeMarlo uppgötvaði það er hann sá kvikmynd sem hann taldi óhætt að sjá miðað við mat kvikmyndaeftirlits. Í ljós kom að hún var full af „ofbeldi og blótsyrðum.“ Mat kvikmyndaeftirlits getur að vísu verið hjálplegt, en það ætti þó ekki eitt sér að ráða vali þínu. Biblían aðvarar: „Einfaldur maður trúir öllu, en kænn maður athugar fótmál sín.“ — Orðskviðirnir 14:15.
Þegar þú velur þér kvikmynd
Hvað annað getur þú notað til að byggja val þitt á? Kvikmyndagagnrýni og auglýsingar geta gefið þér einhverja hugmynd um efni kvikmyndar. Þó þarf að sýna varfærni vegna þess að kvikmyndagagnrýni endurspeglar einungis skoðun annars einstaklings. Auglýsing getur að yfirlögðu ráði falið það að kvikmynd innihaldi ýmis gróf atriði.
Unglingsstúlka, sem heitir Connie, segir: „Það er mín reynsla að oft er hægt að fá nokkra hugmynd um líklegt efni kvikmyndar með því að athuga hverjir aðalleikararnir eru.“ Kristnir félagar og vinir, sem fylgja hinu sama verðmætamati Biblíunnar og þú, vita ef til vill hvort ákveðin kvikmynd er við hæfi kristins manns eða ekki. Sá sem situr í miðasölu kvikmyndahússins eða einhver annar starfsmaður þess getur líka hugsanlega gefið þér hreinskilnisleg svör við ýmsum spurningum. Yfirleitt segir þó fólk frá því sem því fannst skemmtilegt við kvikmyndina. Hvers vegna ekki að spyrja það hvað í kvikmyndinni því hafi ekki geðjast að? Spyrðu markvissra spurninga. Sýnir kvikmyndin ofbeldisatriði, gróf kynlífsatriði eða bólfestu illra anda?
Foreldrar þínir geta líka ráðið þér heilt. Vanessa segir: „Ég spyr foreldra mína ráða. Ef þeir segja mér að það sé í lagi að sjá ákveðna kvikmynd, þá geri ég það.“
Hægt er að fylgja sömu reglum í sambandi við myndbönd. Auk þess skaltu skoða hulstrið eða kápuna vandlega. Gefa myndir eða orð með einhverjum hætti til kynna að kvikmyndin sé ekki við hæfi? Legðu hana þá aftur á hilluna! Ef til vill getur verið hjálplegt að ræða við afgreiðslumanninn; vera má að hann hafi séð myndina. Orðskviðirnir 14:16 segja: „Vitur maður óttast hið illa og forðast það, en heimskinginn er framhleypinn og ugglaus.“
Gakktu út — eða slökktu
Hvað átt þú að gera ef þú ert búinn að leigja þér myndband en kemst að raun um að efnið er ekki sómasamlegt? Svarið er einfalt: Slökktu á tækinu! Það getur að vísu verið erfitt því að söguþráðurinn getur átt hug þinn allan. Þú brennur kannski í skinninu að vita hvernig kvikmyndin endar. En það er eigi að síður það skynsamlegasta að snúa baki við hinu illa. — Samanber Matteus 5:29, 30.
Staðan getur verið heldur óþægilegri ef þú ert staddur í kvikmyndahúsi með vinum þínum og í ljós kemur að kvikmyndin er ekki við hæfi. Unglingur að nafni Joseph stóð frammi fyrir þessu. Auglýsingar höfðu sagt að þetta væri kvikmynd sem „allir yrðu að sjá.“ En Joseph segir: „Á fyrstu fimm mínútunum voru þrjú ofbeldis- og nektaratriði.“ Joseph sagði vinum sínum kurteislega að hann ætlaði að fara og gerði það síðan. Fannst honum það vandræðalegt? Hann svarar: „Nei, alls ekki. Ég hugsaði fyrst og fremst um að þóknast Jehóva.“
Þetta getur að vísu verið erfitt ef vinirnir þrýsta á þig að sitja sem fastast. Þrýstingurinn getur meira að segja komið frá unglingum sem hafa alist upp á kristnu heimili en brennimerkt samvisku sína með því að horfa á of margar, vafasamar kvikmyndir. (1. Tímóteusarbréf 4:2) Þeir núa þér kannski um nasir að þú sért öfgafullur eða „allt of heilagur.“ En það er betra að varðveita „góða samvisku“ en láta undan þrýstingi kunningjanna. (1. Pétursbréf 3:16) Það eru ekki viðhorf kunningjanna sem skipta í raun máli heldur hitt hvernig Jehóva hugsar um þig! Og ef vinir þínir gera gys að þér fyrir að hlýða rödd samviskunnar, þá er tímabært að finna sér nýja vini. (Orðskviðirnir 13:20) Þú verður sjálfur að gæta augna þinna, eyrna og hins táknræna hjarta. — Samanber Jobsbók 12:11; 31:1; Orðskviðirnir 4:23.
Varðveittu góða samvisku
Georgia hafði vanið sig á að laumast til að sjá kvikmyndir sem voru bannaðar hennar aldurshópi. Smám saman fór hana að langa til að eiga gott samband við Guð. Hún hætti að stunda vafasamar kvikmyndir og fann sér annað til að skemmta sér við með kristnum vinum sínum. Hún segir: „Nú er ekkert sem íþyngir samvisku minni. Núna get ég sofið værum svefni vegna þess að mér finnst ég hrein hið innra.“
Langar þig til að vera hreinn í augum Jehóva Guðs, hans sem rannsakar hjörtun? (Orðskviðirnir 17:3) Þá skaltu gæta að því hverju þú fyllir hjarta þitt með. Gerðu þig ekki að þarflausu berskjaldaðan fyrir ofbeldisatriðum, kynlífsatriðum eða ljótum munnsöfnuði — það getur einungis slævt vitund þína um hvað sé rétt og spillt hjarta þínu. Vertu eins og sálmaritarinn sem bað: „Snú augum mínum frá því að horfa á hégóma.“ — Sálmur 119:37.
Með því að vera vandfýsinn og gætinn getur þú bæði verndað sjálfan þig fyrir skaðlegum áhrifum og notið þeirrar tilfinningar að þú sért „hreinn hið innra“ eins og Georgia talaði um. Það er tilfinning sem engar tæknibrellur frá Hollywood geta jafnast á við!
[Neðanmáls]
a Sjá greinina „Skiptir máli hvaða kvikmyndir ég horfi á?“ í Vaknið! í október-desember 1990.
[Innskot á blaðsíðu 27]
Margar kvikmyndir, sem voru álitnar hneykslanlegar fyrir fáeinum árum, eru nú taldar góðar og gildar.
[Innskot á blaðsíðu 26]
Foreldrar þínir vita ef til vill hvort kvikmynd er við hæfi kristins manns.